Margrét Rósa Einarsdóttir fyrrverandi staðarhaldari í Iðnó

„Ég er alveg himinlifandi í nýja starfinu mínu. Ég er orðin hótelstjóri á hótel Glym í Hvalfirði,  þar tók ég við  fyrir rúmum mánuði. Það má eiginlega segja að mér hafi verið ýtt út í þetta af fyrrverandi eigendum og fólkinu í kringum mig, segir Margrét Rósa Einarsdóttir fyrrverandi staðarhaldari í Iðnó.  Margir muna eftir Margréti Rósu þaðan en hún rak Iðnó með miklum myndarbrag í 17 ár. Á meðan hún sá um rekstur hússins var þar öflugt menningarlíf. Þar voru tónleikar, leik- og myndlistarsýningar og boðið var upp á fyrsta flokks veisluþjónustu.

Margrét Rósa hefur mörg járn í eldinum. Hótelstjórastarfið á Glym er hennar aðalstarf en með fram því  rekur hún skóla fyrir þjóna. „Ég er að kenna ófaglærðum þjónum hvernig þeir eigi að bera sig að. Það eru margir sem fara að vinna á veitingahúsum sem halda að þeirra hlutverk sé einungis að rétta gestunum matseðilinn og bera svo matinn borð. Það er hins vegar ekki svo það þarf að kenna fólki að selja það sem er á matseðlinum. Þjónn verður að kunna góð skil á þeim mat- og vínseðli sem boðið er upp á auk þess að vita  hvað vakir fyrir eigendum staðarins. Veitingahús eru oft staðsett í sögufrægum húsum og þjónninn þarf líka að vita það helsta um sögu hússins og um merkilega staði í nágrenninu. Svo þarf að kenna rétta líkamsbeitingu og allt í sambandi við hreinlæti. Mér hefur þótt þetta skemmtilegt og gefandi og krakkarnir sem ég er að kenna eru þakklátir nemendur. Öll störf sama hver þau eru, eru miklu skemmtilegri ef maður kann til verka segir hún.“

Í vor opnaði Margrét Rósa leikfangasafn í Englendingavík í Borgarnesi. Safnið samanstendur af leikföngum sem voru til sýnis á þriðju hæðinni í Iðnó ásamt leikföngum sem henni hafa áskotnast frá vinum og ættingjum. „Ég hef verið að sanka þessu að mér hægt og bítandi í gegnum tíðina, þetta eru að stærstum hluta leikföng frá liðinni tíð,“ segir hún og bætir við að það fylgi þessu dáldil nostalgía. Safnið er lokað yfir vetrartímann en langi fólk að skoða safnið er hægt að panta tíma. Það verður svo opnað aftur um páskana og verður opið daglega næsta sumar.

Margrét Rósa segir að það verði örugglega einhverjar breytingar á rekstri hótels Glyms þegar fram líða stundir. „Umhverfi hótelsins er einstaklega fallegt og staðurinn býður upp á óteljandi möguleika. Það er hægt að láta sér líða vel í sundi, í heitum pottum og gönguleiðirnar í nágrenninu er afar fallegar. Ég er alltaf mjög upptekin við að hafa fallegt í kringum mig það breytist ekkert,“ segir hún og hlær.  Margrét Rósa segist ekki vera flutt á hótelið hún búi í Mosfellsdalnum og sé rúman hálftíma í vinnuna. En ef eitthvað mikið er um að vera á hótelinu eða ég er sein fyrir eða veður válynd get ég gist upp frá.“ Eins og áður sagði hefur Margrét Rósa alltaf haft mikið fyrir stafni. En hvað gerir hún þegar hún vill slappa af og hvíla sig.

„Ég fer til Antalya í Tyrklandi,“ segir Margrét Rósa og hlær. „Það er dásamlegur staður og þangað reyni ég að fara bæði vor og  haust. Þetta er himnaríki á  jörð. Tyrkir eru góðir heim að sækja og þarna er ódýrt að dvelja. Að öllu gamni slepptu þá eldist ég eins og aðrir og nú er ég orðin 61 árs. Starfsfólkið á Glym er frábært og ég treysti þeim fullkomlega til að reka staðinn þó ég sé þar ekki öllum stundum. Maður þarf líka að njóta þess að vera til. Á gamalsaldri ætla ég að lengja þann tíma sem ég er í Antalya. Oftast hef ég bara verið eina og eina viku en í haust var ég í mánuð og náði að láta mér líða vel og kúpla mig frá öllu því sem var að gerast heima.“

Ritstjórn desember 5, 2018 07:35