Frægar í Iðnó á mánudögum

Guðlaug María Bjarndóttir tilbúin að stíga svið.  Það er mikið lagt upp úr glæsilegum búningum á sýningunum. Það stígur engin á svið nema hún sé komin í síðkjól, háa hæla og farðinn sé fullkominn.  Helga Björnsson fatahönnuður sér um búningana fyrir leikkonurnar.

Guðlaug María Bjarndóttir tilbúin að stíga svið. Það er mikið lagt upp úr glæsilegum búningum á sýningunum. Það stígur engin á svið nema hún sé komin í síðkjól, háa hæla og farðinn sé fullkominn. Helga Björnsson fatahönnuður sér um búningana fyrir leikkonurnar.

Það er engin lognmolla í Iðnó á mánudagskvöldum. Hópur velþekktra leikkvenna hefur tekið staðinn yfir. Í haust hafa verið settar upp fjölbreyttar sýningar, má þar nefna ljóðadagskrár, leiklestra og gjörninga svo eitthvað sé upptalið.

Setja saman upp sýningar

„Hún Margrét Rósa Einarsdóttir, staðarhaldari í Iðnó hóaði í okkur, nokkrar leikkonur, snemma í haust. Hún bauð okkur aðstöðu í húsinu og að við gætum sett upp sýningar á mánudagskvöldum. Við höfðum lengi verið að ræða að við yrðum að fara að gera eitthvað og allt í einu kom tækifærið ,“ segir Guðlaug María Bjarnadóttir, leikkona. Hún segir að hópurinn hittist á hverjum fimmtudegi á Kústinum á efstu hæðinni í Iðnó. „Þar flæða fram hugmyndir að allskonar sýningum. Ætli við séum ekki í kringum þrjátíu virkar allt í allt. Á Kústinum verða til litlir hópar sem ákveða að setja upp sýningu saman. Svo fer allt í gang og æfingar hefjast. Þegar sýningin er tilbúin fer hún á fjalirnar. Til dæmis var það þannig þegar við settum upp ljóðsýninguna, við vorum þrjár sem ákváðum að setja hana upp og flytja ljóðin okkar með leikrænum tilþrifum,“ segir Guðlaug María.

Dansverk á nýju ári

Og þær eru hvergi nærri hættar. Næsta mánudagskvöld, 8.desember á að lesa  úr bókum íslenskra rithöfunda þar sem verk kvenna eru í aðalhlutverki og á nýju ári er  í bígerð er að setja upp til dæmis dansverk sem Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrir. Guðlaug María hefur sinnt kennslu hin síðari ár. „Það er frábært að snúa til baka í leikhúsið á eigin forsendum.  Mér  finnst ég hafa fest mig fullmikið í kennslunni en nú sé ég fyrir mér að ég geti gert  hvoru tveggja  í framtíðinni að leika og kenna.“

Guðlaug María Bjarnadóttir, Þórunn Magnea Magnúsdóttir og vilborg Halldórsdóttir  settu saman upp ljóðasýningu sem góður rómur var gerður að

Guðlaug María Bjarnadóttir, Þórunn Magnea Magnúsdóttir og Vilborg Halldórsdóttir settu saman upp ljóðasýningu sem góður rómur var gerður að

Ritstjórn desember 4, 2014 11:36