Margslungnar hliðar mannanna

Daphne du Maurier fyrir framan heimili sitt.

Eldsnemma að morgni fyrir rúmum áttatíu árum stóð ung kona á grasflöt í Cornwall og virti fyrir sér fallegt hús. Hún var þarna í óleyfi eigenda en stóðst ekki mátið að ganga eftir heimreiðinni upp að húsinu. Sólin var að koma upp og í huga hennar kviknaði setning sem átti eftir að verða upphafið að einni alvinsælustu skáldsögu allra tíma. Rebecca var að verða til.

Unga konan hét, Daphne du Maurier og húsið Menabilly. Síðar átti hún eftir að taka það á leigu, gera það upp og búa þar um árabil. Þegar sagan um Rebeccu de Winter fór að taka á sig mynd endurskírði hún það Manderley. „Last night I dreamt I went to Manderley again“ er án efa ein þekktasta og áleitnasta upphafslína nokkurrar bókar. Hún gefur til kynna að Manderley sé að eilífu horfið, að þar hafi verið eitthvað eftirsóknarvert að finna en jafnframt er þarna einhver vottur af einhverju ískyggilegu. Lesandinn verður að lesa áfram, komast að því hvað gerðist og hvers vegna.

Við fyrstu sýn fannst Daphne hún horfa á höllina úr ævintýrinu Þyrnirós þegar hún kom að Menabilly. Gluggarnir lokaðir með hlerum fyrir og gráir veggirnir huldir bergfléttu. Heimreiðin hlykkjast svo ekki sést í húsið fyrr en menn eru alveg komnir að því og lýsingin á leiðinni hreint út sagt snilldarlega skrifuð á fyrstu síðu sögunnar. Þetta er reyndar einkenni allra bóka höfundar en þær þekktustu Jamacia Inn, My Cousin Rachel og The House on the Strand bera sömu merki, fagrar lýsingar en einhver þungur undirtónn er gefur til kynna að einhver ógn búi undir niðri, ekki sé allt sem sýnist.

Vinsælt að setja á svið og kvikmynda

Eftir öllum þessum bókum Daphne hafa verið gerðar leikgerðir og kvikmyndir. Árið 2014 var  gerð þriggja þátta sería eftir Jamaica Inn og þremur árum síðar var hún sýnd á RUV. Í fyrra kom svo kvikmynd eftir My Cousin Rachel með Rachel Weisz í aðalhlutverki en áður hafði verið gerð þáttaröð hjá BBC eftir bókinni með Geraldine Chaplin í hlutverkinu. Nú er í vinnslu ný mynd gerð eftir Rebeccu með Lily James og Armie Hammer í aðalhlutverkum. Hingað til er líklega mynd Hitchcock með Laurence Olivier og Joan Fonataine sú eftirminnilegasta en hún var gerð árið 1940 aðeins tveimur árum eftir að bókin kom út.

Daphne du Maurier fæddist 13. maí árið 1907. Hún var miðjubarn umboðsmanns leikara, Sir Gerald du Maurier og leikkonunnar Muriel Beaumont. Hún var mikil strákastelpa, eins og það hefur verið kallað, eða tomboy. Fullorðin sagði hún að pabbi sinn hefði óskað sér stráks og hún að sumu leyti fyllt það tóm en systur hennar tvær löguðu sig betur að hefðbundnum kvenhlutverkum. Fyrsta bók hennar The Loving Spirit kom út árið 1931 en með Rebeccu sló hún gersamlega í gegn. Sú bók hefur selst í milljónum eintaka og aldrei verið ófáanleg því alltaf er verið að endurprenta hana einhvers staðar.

Fyrstu kynni hennar af húsinu í Cornwall kveiktu vissulega hugmyndina að bókinni en síðar viðurkenndi Daphne að hún hefði einnig verið á ákveðnum krossgötum sjálf. Eiginmaður hennar, Fredrick Browning, hafði verið trúlofaður áður, konu að nafni Jan Ricardo. Sú þótti óvenjulega glæsileg og fögur og Daphne fann fyrir ákveðinni afbrýðisemi og í minnisbók sína skrifaði hún að sagan af hinni seinni frú de Winter ætti að vera könnun á þeirri tilfinningu.

 „Líklega er ekki undarlegt að hún hafi komið með slíkar yfirlýsingar því sagan segir að hún hafi verið tvíkynhneigð og hún og maður hennar bæði haldið framhjá.“

Stenst aldrei samanburðinn

Eitt af þeim húsum sem hefur verið í hlutverki Manderley í kvikmynd eftir bókinni.

Sögumaður er ráðinn til að vera gamalli ríkri konu félagsskapur.  Mrs van Hopper er dónaleg frekja og þegar unga konan hittir Maxim de Winter á hóteli í Monte Carlo er það ást við fyrstu sýn. Þau gifta sig eftir örstutt kynni og hún heldur með honum heim á sitt nýja heimili Manderley. Þar er fyrir ráðskonan frú Danvers. Hún tekur illa á móti hinni ungu brúði og það er augljóst frá upphafi að hún telur hana mun síðri á allan hátt en Rebeccu, fyrri konu Maxims.

En húsið, Manderley, er heillandi. Einstaklega vel skipulagt og staðsett en engu er líkara en draugur Rebeccu sveimi þar um gangana og seinni konan fær engan frið til að setja sinn svip á hlutina. Frú Danvers sér til þess. Smátt og smátt fer unga frúin að efast um sjálfa sig og ást manns síns. Rebecca lést í sjóslysi eftir að hafa haldið út að sigla í vondu veðri á skútunni Je Reviens, en það þýðir ég kem aftur, varla tilviljun í samhengi bókarinnar.  Þegar flak skútunnar finnst skömmu eftir að hin nýja frú de Winter tekur við búsforráðum á Manderly, kemur ýmislegt upp úr kafinu.

Vinsældir þessarar ótrúlega spennandi sögu hafa aldrei dvínað og hún virðist höfða jafnt til allra. Skemmtileg og kannski svolítið kaldhæðin staðreynd er að hún var notuð sem lykill að dulmáli þýskra njósnara í seinni heimstyrjöldinni. Hún hefur einnig verið flokkuð með rómantískum bókmenntum en Daphne sjálf svaraði aðspurð um það: „Það er ekkert til sem kalla má rómantíska ást. Það er staðreynd og ég skora á alla sem ekki eru sammála mér að koma með mótrök.“

Karl- og kvenlægi hlutinn

Daphne með börnum sínum.

Líklega er ekki undarlegt að hún hafi komið með slíkar yfirlýsingar því sagan segir að hún hafi verið tvíkynhneigð og hún og maður hennar bæði haldið framhjá. Hún sagði einhverju sinni að persónuleiki hennar skiptist í tvennt, annar hlutinn væri hin trygga eiginkona og ástríka móðir en hinn, karllægi hlutinn væri elskhuginn og þaðan sprytti sköpunargáfan.

Og þegar vel er að gáð er Rebecca fulltrúi einmitt hins karllæga. Hún er stuttklippt, mikil íþróttamanneskja, hugrökk og fífldjörf og sýnir aðdáun karlmanna á sér ákveðna fyrirlitningu. Hún hafnar viðurkenndum hugmyndum samfélagsins um hvernig húsmóðir á stóru herrasetri eigi að klæða sig og hegða sér. Ekki nema von að seinni kona de Winter finnist hún óspennandi við hlið hennar.

Daphne du Maurier lést 19. apríl árið 1989. Hún var brennd og ösku hennar dreift yfir klettana skammt frá heimili hennar. Hún og Fredrick áttu þrjú börn, Tessu fædda árið 1933, Flaviu fædda árið 1937 og Christian fæddan árið 1940.

Ritstjórn júní 28, 2023 07:00