Með aðstoð sleipiefna

Halldóra ThSkáldsagan Tvöfalt gler eftir Halldóru Thoroddsen hlaut nýlega Fjöruverðlaunin, en það eru bókmenntaverðlaun sem eru veitt skáldverkum eftir konur. Halldóra sem er á myndinni hér til vinstri, hefur skrifað sex bækur. Bókin Tvöfalt gler fjallar um konu sem er að verða áttræð og fylgist með mannlífinu í gegnum gluggann í stofunni sinni og hugsar um lífið.

Hún fæddist inn í iðnbyltinguna sem seint og um síðir barst inní íslenskar miðaldir og þá loksins gat þetta sker brauðfætt ættbálkinn. Hennar tími var heimskur þurs sem þurfti þó að fá sinn þroska. Það var í upplýsingunni, já, hún man það, sem við fórum að rífa allt í sundur til að skoða innviðina. Upp úr því grúski iðnvæddum við samfélagið og hólfuðum það niður í núverandi bása. Vinnuna í sérstakt hólf, þar sem hún smám saman hrökk í sjálfstýringu og snýst nú aðallega um eigin vöxt. Rányrkja dugnaðarforkanna eirir engu, Hver kynslóð ratar í sín hólf, bernsku og elli skipað í einangrun. Við hrópum í helli okkar og nemum aðeins eigið bergmál.

Halldóra sem hefur auk ritstarfanna fengist við kennslu og umönnun barna, segir að henni sé það hugleikið, hvernig samfélagið okkar sé hólfað niður. Þessi saga sé sögð í orðastað gamallar konu. „Það er sjaldgæft, kannski vegna þess að hún er ekki þáttakandi í samfélaginu“, segir Halldóra og bætir því við að yfirleitt séu bækur skrifaðar um þá sem taki þátt í þjóðfélaginu. Sögupersónan í Tvöfalt gler verður ástfangin af manni á svipuðum aldri.

Ástir gamalmenna eru ekki heilbrigðar hjónabandsástir sem miða að uppfyllingu jarðarinnar. Slíkar ástir tengjast heldur ekki estetík og hyllingu holdlegra nautna í hugum fólks, þvert á móti þykja þær heldur ókræsilegar þegar glær ellin á í hlut. Sjálft ímyndunaraflið verður feimið við hugmyndina um krumpuð og þurr gamalmenni að riðlast hvort á öðru með aðstoð sleipiefna. Kynlíf er það eina sem því dettur í hug, enda andsetið af þessari einu hugmynd um brautir á milli manna. Erfingjar verða órólegir. Ástfangnir gamlingjar eiga það til að eyða í lystisemdir og gleyma höfuðskyldu sinin í genabráttunni að tryggja kyni sínu framgang.

Æður, sendlingur og tjaldur, brimandi erótík í fjörunni á Eiðisgranda

Kristín úr hjónaklúbbnum, sú goðumlíka, rís upp úr kör sinni til þess að vara hana við. Hún hefur aldrei áður haft samband að fyrra bragði. Maðurinn sé áreiðanlega besti maður og hún semgleðjist henni innilega. En hún sé bara persónulega ekkert fyrir svona samkrull á gamals aldri.

Og seinna í bókinni segir:

Nú vill fólkið hennar að hún drífi sig í sólarlandaferð með eldri borgurum. Þau hafa margsinnis reynt að koma henni í sólarlandaferð. Halda að hún hafi svo gott af því að flýja líf sitt. Það var gaman og fróðlegt að kynnast fleiru en heimahögunum, það fékk hún að gera. Hún hefur þó aldrei séð fíl, heldur ekki kengúru. Aldrei komið til Afríku nema í huganum, á ekki eftir að baða sig í Ganges. Mörg eru kikkin, svo til innan seilingar, sem hún mun láta fram hjá sér fara. Þau verða aldrei hennar og líklega heldur ekki þeirra sem æða um heiminn á eftir þeim. Afþreying. Hversu harmþrungið orð, að þreyja af.

 

 

 

Ritstjórn febrúar 16, 2016 09:54