Með ömmustrákum á Úlfarsfelli

Hvenær eru barnabörnin orðin nógu gömul til að fara í fjallgöngur og hvert er best að fara? Margir spyrja sig þessara spurninga, en á laugardaginn gekk Kristín Jónsdóttir á Úlfarsfell, ásamt dóttur sinni og þremur ömmustrákum. Tveir þeirra eru fjögurra ára en sá þriðji sjö ára. Kristín segir að Úlfarsfellið sé sérstaklega þægilegt uppgöngu með börn á þessum aldri, sérstaklega styttri leiðin. Hún segist aldrei vera hrædd um strákana á þessari leið.

Gengu á Arnarfell við Þingvallavatn

Kristín, sem á fjóra ömmustráka á aldrinum 4-12 ára, hefur farið með þá í nokkuð margar gönguferðir. Hún gekk ásamt fleiri ömmum og öfum á Arnarfell við Þingvallavatn í síðustu viku, með samtals 7 börn á aldrinum 4ra til 11 ára. Kristín segir að það hafi gengið vel, en hún hefði ekki viljað vera ein með svona mörg börn þar. Því vissulega þarf að passa uppá börnin, sem eru fljót að hlaupa af stað og komast langt á undan öfum og ömmum sem hugsanlega fara sér hægar.

Pétur 7 ára og Kári  Grétar 12 ára hvíla sig á Fróðárheiði

Pétur 7 ára og Kári Grétar 12 ára hvíla sig á Fróðárheiði

Gengu í sjö klukkustundir

Kristín hefur farið í lengri göngur með stákana og fór til dæmis með einn 6 ára og annan 11 ára í göngu frá Leirhnjúki að Mývatni, sem var 7 klukkustunda ganga. Daginn eftir gengu þau svo meðfram Laxá í fimm klukkustundir. Kristín segir að þeir séu duglegir göngumenn og sá yngri sé „alger fjallageit“. Hún segir að strákunum finnist þetta æðislegt „ Og það kemur mér svo skemmtilega á óvart“ segir hún.

Fengu 100 krónur fyrir fjallið

Þegar farið er með börnin í fjallgöngu, þurfa hinir fullorðnu að bera megnið af nestinu og aukafötin. Kristín fór nýlega með tvo af ömmustrákunum í göngu yfir Fróðárheiði. Hún segist yfirleitt hafa rekið lestina í hópnum, með allan farangurinn fyrir þau. Til að stytta þeim stundir í bílnum á leiðinni á áfangastað hlýðir hún þeim yfir fjöllin á leiðinni og fá þeir 100 kr. fyrir hvert fjall sem þeir þekkja. Sá eldri vann sér inn 900 krónur á leiðinni á Snæfellsnes en sá yngri 500, og fannst það heldur súrt í broti.

Fjöll sem Kristín telur þægileg fyrir barnabörnin eru að sjálfsögðu Úlfarsfell fyrir þau yngstu, en einnig bendir hún á Grímannsfell fyrir ofan Glúfrastein, Búrfellsgjá í Heiðmörk og Esjuna.

 

Kristín amma með Kára Grétari 12 ára  á Fróðárheiði

Kristín amma með Kára Grétari 12 ára á Fróðárheiði

 

 

 

 

 

Ritstjórn júlí 29, 2015 11:11