„Mega syngja hér en ekki í Íran“

Múltíkúltí kórinn syngur í Hannesarholti í Reykjavík á morgun, laugardaginn 25. mars og hefjast tónleikarnir klukkan 14. Kórinn er skipaður konum hvaðanæva úr heiminum, sem koma saman og syngja lög frá sínum heimaslóðum.

Konurnar velja lögin sjálfar, kenna hinum í hópnum, og syngja þau á upprunalegum tungumálum. Þannig fá þær tækifæri til að kynnast tónlist og menningu hver annarrar og styðja hver aðra í söng og samveru.  Nýjasta lag kórsins er frelsislagið „Barāye“ sem hefur verið sungið á götum Írans síðan í haust. Nú fá gestir Hannesarholts tækifæri til að kynnast því, ásamt fleiri lögum kórsins, og jafnvel að syngja með. Auk tónlistar frá Íran, koma lög kórsins að þessu sinni frá Úkraínu, Kóreu, Chile, Ísrael, Kósovó, Tansaníu og Íslandi.

Stjórnandi Múltíkúltí kórsins er Margrét Pálsdóttir. Ársæll Másson leikur á gítar, Ari Agnarsson á píanó og harmónikku og Árni Áskelsson á slagverk. Margrét segir margar konurnar í kórnum líta á hann sem fjölskyldu sína. Hann sé jafnvel eini hópurinn sem þeim finnist þær tilheyra og skipti þær máli.  „Það eru fjórar konur frá Íran í kórnum og þær finna allar að hér á Íslandi mega þær vera þær sjálfar. Þær mega syngja hér en mega ekki syngja í Íran og mega ekki fara í skóla.  Hér eru þær frjálsar“.

Margrét segir að það séu svo mikil höft í Íran. „ Höfundur nýja frelsislagsins var handtekinn og settur í fangelsi, tveimur dögum eftir að lagið kom út. Hann var þar í nokkra daga, en var sleppt úr haldi vegna mótmæla. Hann fær ekki að fara úr landi.  Margir Íranar hafa gert lagið að sínum nýja þjóðsöng. Í textanum segir Við syngjum fyrir þá sem mega ekki syngja, mega ekki dansa og mega ekki vera frá þessum eða hinum landshlutanum.  Þetta er fólkið sem vill frelsa landið úr höndum einræðisstjórnarinnar og öðlast lýðræði“, segir hún.

Kórinn hefur líka mikla þýðingu fyrir Margréti. „Það er svo dýrmætt að fá að kynnast þessum konum og fá innsýn í líf þeirra. Sjá þær blómstra, bæði írönsku konurnar og þær sem koma frá öðrum löndum. Ég fer alltaf glaðari í hjarta af kóræfingunum, þetta hefur svo góð áhrif á sálina“.

Ekki verður innheimtur aðgangseyrir á tónleikana en gestir eru hvattir til að styðja kórinn með upphæð að eigin vali. Reikningsnúmerið er 0133-26-003579 og kennitala kórsins er 680121-0600. Senda má kvittun á netfangið: multikultikorinn@gmail.com.

 

 

Ritstjórn mars 24, 2023 11:35