Missum tilfinningu fyrir þorsta með aldrinum

Erla Gerður Sveinsdóttir

Erla Gerður Sveinsdóttir

Það er ýmislegt sem breytist varðandi næringu þegar fólk eldist. Matarlyst minnkar til dæmis og menn skynja þorsta á annan hátt en áður. Erla Sveinsdóttir læknir og fagstjóri heilbrigðisþjónustu í Heilsuborg segir að líkaminn segi þannig ekki lengur til um hvenær menn þurfi að drekka. Líkaminn þarf hins vegar jafn mikinn vökva og áður. Erla segir að það sé mjög algengt að þeir sem eldri eru, þurfi að minna sig á að drekka og þá sé gott ráð að setja flösku með vatni í ísskápinn og hafa þannig alltaf tiltækt vatn til að drekka. Hún segir að menn þurfi að drekka tvo lítra á dag.

Erla segir að það sé gott að drekka 3-4 glös af vatni og tvö glös af fitulítilli mjólk. Þá drekki menn líka kaffi og te, en í þeim drykkjum séu hins vegar efni, sem auki þörf fyrir vatn. Það sé mátulegt að drekka eitt glas af vatni á móti einu af kaffi eða tei. Það geti verið misjafnt hversu mikið vatn menn þurfi að drekka, en þvagið sé góður mælikvarði á vatnsbúskapinn. Menn þurfi að drekka þangað til þvagið sé orðið ljóst og lyktarlítið. Ef það verður dökkt og fer að lykta meira, er það vitnisburður um að menn séu að drekka of lítið vatn.

Heilsuborg er í samstarfi við Félag eldri borgara í Reykjavík í verkefni þar sem menn eru hvattir til að hreyfa sig meira og borða hollar.

Ritstjórn október 6, 2015 12:37