Tengdar greinar

Mjög virkt Félag eldri borgara á Ísafirði og nágrenni

Lifðu núna hefur áhuga á að kynna sér starfsemi og aðstöðu félaga eldri borgara hringinn í kringum landið. Í því skyni höfum við leitað til forsvarsmanna félaganna og beðið þá að segja frá starfseminni á sínum stað. Sigrún C. Halldórsdóttir formaður Félags eldri borgara á Ísafirði og nágrenni segir sitt félag mjög virkt. 

Okkar félag er mjög virkt. Það er gefin út dagskrá á hverju hausti. Við höfum HandavinnuRabb, BókaRabb, Spilavist, Bingó, Spiladag og Heldri Kór svo það er eitthvað um að vera alla virka daga nema föstudaga. Svo er farið í gott ferðalag fyrripart sumars og nú er ætlunin að fara í Skagafjörð og er gist í fjórar nætur. Þá er hér Íþróttafélag eldri borgara sem heiti KUBBI og þar er Bocia á vetrum þrisvar í viku og Pútt á sumrin á okkar flotta púttvelli og tekur það þátt í mótum eins og 50 plús og fleirum fyrir eldri borgara.

Hvað varðar styrk frá Ísafjarðarbæ þá fáum við frítt húsnæði í kjallara á Hlíf íbúðum aldraðra sem er bókfærður styrkur og leiga á móti. Þar með er það upptalið hvað varðar styrki þótt við höfum haldið því fram að félagið sjái um félagsstarf eldri borgara á Ísafirði. Við stofnuðum Heldri Kór og höfum beðið um styrk til að greiða stjórnanda en ekki fengið svar.

Sigrún C. Halldórsdóttir formaður Félags eldri borgara á Ísafirði og nágrenni skrifar.

Ritstjórn mars 13, 2025 07:00