Morð framið í Stofnun þjóðsagna- og þjóðháttafræða

Tvær konur liggja í valnum í Reykjavík, segir á baksíðu bókarinnar Urðarköttur eftir Ármann Jakobsson. Þær hittust aldrei í lifanda lífi, svo vitað sé, og tengdust ekkert, sama hversu djúpt lögreglan reynir að grafa. Nema kannski í gengum hinn dularfulla Urðarkött sem skrifar lögreglunni torræð bréf.  Þetta er önnur glæpasaga Ármanns Jakobssonar en áður hefur komið út eftir hann bókin Útlagamorðin. Vettvangur Urðarkattar er virðuleg háskólastofnun, Stofnun þjóðsagna- og þjóðháttafræða. Við gefum Ragnheiði einni fræðikonunni þar orðið.

Hún vonaðist eftir að það yrði venju fremur gaman í kaffinu í dag. Kaffitímarnir voru annars fremur þvingaðir seinustu ár, í raun alveg síðan Þorbjörn hætti að koma. Áður hafði hann leikið þar á als oddi og skemmt fólki með sínum einstæða húmor. Fólk hafi stundum fengið hiksta af hlátri og allan daginn var létt yfir fólki. Verst að enginn þeirra hefði skráð allar þessar sögur og tilsvör því Þorbjörn var ekkert síðri en dr. Johnson og aðrir snillingar heimssögunnar sem höfðu haft fylgdarmenn sem eltu þá á röndum og skráðu hjá sér hnyttnina sem gaus uppúr þeim. Þau hin höfðu einkum haft það hlutverk að hlusta og fyrir vikið datt þeim fátt í hug að tala um þegar skemmtikrafturinn var horfinn úr húsi. Þær Vilborg voru sennilega þegjandalegastar ásamt Fanneyju og Hulda og Elín gerðu iðulega sitt besta til að halda uppi spjallinu og eyða vandræðalegri þögninni. Þegar Kjallakur kom hafði hann svo yfirleitt orðið og var auðvitað fróðleiksnáma en allt sem hann sagði húmorslaust og flatt og fáir tóku undir. Fyrir kom að allir sátu bara og þögðu í kaffinu.

Á dögum Þorbjarnar hafði eingöngu verið drukkið kaffi í morgunkaffinu en te í síðdegiskaffinu. Nema þá daga sem sérstök ástæða þótti til að fagna, til dæmis nýrri bók eða afmæli Jóns Árnasonar eða Hilaríusarmessu, þá var sterkara í boði og þá fór Þorbjörn á enn meira flug, hann þurfti ekki nema einn sopa til að liðka málböndin. Oft urðu þá aðrir prófessorar honum að skotspæni; hann kunni ótal sögur um hégómleik þeirra og sjálfsdýrkun og stundum hafði hann beinlínis ort um atvikið, stuttar beinskeyttar leiftrandi snjallar vísur sem drógu hrokagikkina snarlega niður á jörðina. Þó að hann kæmi eflaust oftast með þær tilbúnar var stundum eins og hann væri að mæla þær upp úr sér á staðnum og að minnsta kosti einu sinni hafði hún séð hann yrkja upp úr sér snjallri stöku á svipuðum tíma og Usain Bolt kláraði einn hlaupatúr. Hún hafði rekist á fólk af ýmsu sauðahúsi sem kunni ádeiluvísur Þorbjarnar og þær sem unnu hér kunnu gamanvísurnar að sjálfsögu allar utanbókar.

Hvers konar söfnuður væri þetta eiginlega án hans?

Kaffitíminn fór sem sagt rólega af stað, en síðan dró heldur betur til tíðinda.

Lúsífer sjálfur, rumdi Bjarni

Kristín gjóaði augunum forviða til hans. Tilefnið var vitaskuld ærið en það var þó ekki Bjarna líkt að ákalla ára vítis. En ef til vill skildi hann málið einfaldlega betur en hún.

Þau stóðu á miðjum vígvelli sem eitt sinn hafði verið kaffistofa Stofnunar í þjóðsagna- og þjóðháttafræðum, bjart og notalegt afdrep og þótt undarlegt megi virðast sást það enn þrátt fyrir allt sem gengið hafði á þar inni. Á þessaru stundu athöfnuðu sig þar fjórir lögreglumenn auk þeirra, þar á meðal Steinn og Andri sem báðir höfðu sett upp grímu án þess að Kristín skildi alveg hvers vegna. Hugsanlega var bróðir Steins með umboð fyrir grímur.

Fólkið á stofnun var horfið. Því hafði öllu verið smalað út úr herberginu þegar fyrstu lögreglumennirnir komu á vettvang fáeinum mínútum eftir að hringt hafði verið í neyðarlínuna í ofboði. Eftir nokkurt japl og jaml og fuður hafði þeim síðan verið safnað saman inni á lessal og Margrét Krabbe var nú með þeim þar; Kristínu var ekki ljóst hvort hún sæti aðeins yfir þeim eins og varðhundur eða væri þegar farin að taka skýrslur. Líklega hið fyrrnefnda því Margrét var ekki vön að hafast að án samráðs við þann sem stjórnaði rannsókninni og tæki varla uppá því að ræða ein við vitni án skýrra fyrirmæla. En öll vitnin voru sem sagt á einum stað fyrir utan forstöðumanninn og grannvöxnu, þreytulegu en sallarólegu konuna sem einna helst virtist vera við stjórnvölinn á stofnuninni í miðjum ragnarökum og hafði tekið á móti Bjarna og Kristínu rétt í þessu en þau tvö höfðu síðan farið inná skrifstofu með Njáli og yrðu brátt óþreyjufull að ræða við aðalmanninn.

Konan lá enn opinmynnt á bakinu og starði brostnum augum upp  í loftið. Þetta var ekki sjón sem Kristín gæti gleymt

Hún er dáin sagði Bjarni þurrlega við Stein.

 

Ritstjórn desember 17, 2019 12:16