Ályktunarhæfnin fær að njóta sín

Það er alls ekki undarlegt að skrifum Ragnars Jónassonar sé líkt við höfundarverk Agöthu Christie. Hann líkt og hún er snjall við að skapa alls kyns flækjur og hnúta á söguþræðinum til að leiða lesandann í ýmis öngstræti áður en hin sanna lausn finnst. Í Hvítalogn nýtur þessi hæfileiki sín mjög vel.

Glæpasagnahöfundurinn Elín S. Jónsdóttir hverfur og útgefandi hennar fær Helga Reykdal til að skoða málið. Hann áttar sig fljótt á því að líf Elínar er alls ekki eins einfalt og það virðist á yfirborðinu. Á sama tíma er ástarsamband hans og Anítu að þróast í sífellt betri átt en Bergþóra, fyrrverandi kona hans, er ekki tilbúin að sleppa tökunum. Inn í rannsóknina fléttast svo gamalt sakamál og hvarf Huldu, forvera Helga í starfi, ber á góma. Líkt og oft áður í bókum Ragnars á glæpur í samtímanum rætur í fortíðinni og þótt menn reyni komast þeir aldrei fyllilega undan gerðum sínum, gamlar syndir elta þá uppi.

Atburðarrásin er hæg en hér er heldur ekki verið að leggja áherslu á hraða heldur skora athyglis- og ályktunargáfu lesenda á hólm. Ragnar er góður stílisti og kann að búa til áhugaverðar persónur. Það er alltaf gaman að lesa bækurnar hans og gefa sér tíma til að njóta þeirra.

Ritstjórn desember 12, 2023 08:00