Tengdar greinar

Morð fyrir allra augum

Er mögulegt að ganga upp að manneskju á götu í stórborg og skjóta hana án þess að nokkur sjái til? Flestir myndu án efa telja að það væri ómögulegt en engu að síður eru til dæmi þess og þau þekktustu án efa morðin á Olof Palme í Stokkhólmi og Jill Dando í London. Í fyrra tilvikinu gekk morðinginn upp að forsætisráðherranum þar sem hann gekk við hlið eiginkonu sinnar rúmlega ellefu að kvöldi en hinu seinna var gengið að Jill fyrir utan heimili hennar eldsnemma að morgni.

Olof Palme var á leið heim úr bíó þann 28. febrúar árið 1986. Hafði farið að sjá kvikmyndina the Mozart Brothers ásamt eiginkonu sinni Lisbet. Kúlan fór í gegnum líkama Olofs, í gegnum hryggjarlið og rauf mænuna. Hann lést samstundis. Hið sama á við um Jill Dando en morðinginn gekk upp að henni og skaut hana í höfuðið. Í báðum tilfellum fóru umsvifalaust í gang viðamiklar lögreglurannsóknir. Báðar þessar manneskjur voru alþekktar í heimalöndum sínum, Olof vinsæll stjórnmálamaður með langan feril að baki en Jill sjónvarpsstjarna sem hafði komið víða við í starfi fyrir BBC. Hún hafði sagt fréttir, séð um vinsæla ferðaþætti, verið kynnir í ótal þáttum og stýrt Crimewatch, þáttum þar sem vakin var athygli á óleystum glæpamálum og biðlað til almennings um upplýsingar. Oft hafði tekist vel til og ábendingar borist í kjölfarið sem leiddu til handtöku.

Óhætt er að segja að þessi mál hafi hvílt þungt á bæði sænsku og bresku þjóðunum. Nýlega voru sýndir í Bretlandi heimildaþættir, Who Killed Jill Dando?, þar sem rætt er við lögreglumenn er komu að rannsókninni, bróður Jill, vini hennar og samstarfsfólk. En enginn er neinu nær lausninni. Í hvorugu tilfellinu fannst morðvopnið þótt sænska lögreglan hafi boðað til blaðamannafundar árið 2020 þegar þrjátíu og fjögur ár voru liðin frá morðinu á sænska forsætisráðherranum og sagst telja að hinn svokallaði Skandia-maður, Stig Engström hafi myrt Olof Palme. Engin ný sönnunargögn voru lögð fram utan það að byssa í eigu vinar Engström var hugsanlega talið vopnið sem banaði honum en réttarrannsókn á því gat hins vegar ekki skorið úr því svo óyggjandi væri.

Dáð og elskuð

Stig Engström var látinn þegar þetta var og því kom ekki til þess að hann væri ákærður. Margir telja þennan blaðamannafund meðal verstu mistaka sænsku lögreglunnar í þessu máli. En í kjölfarið var rannsóknin lögð niður. Rannsóknin á morðinu á Olof Palme er sú umfangsmesta í sögu Svíþjóðar og hið sama á við um rannsókn kollega þeirra í Bretlandi. Jill Dando var drepin 26. apríl 1999. Hún var tæplega þrjátíu og átta ára og hátindi ferils síns í sjónvarpinu. Til að byrja með einbeitti lögreglan sér að unnusta hennar en til stóð að hún gengi í hjónaband með honum í september sama ár og hún var myrt. Yfirmaður hennar hjá BBC og fyrrum elskhugi Bob Wheaton var sömuleiðis tekinn til yfirheyrslu en báðir menn voru hreinsaðir af öllum grun. Einnig voru uppi getgátur um að launmorðingi hafi verið að verki og einhver þeirra glæpamanna sem hún hafði hjálpað til að við að koma undir lás og slá hafi ráðið hann til verksins. Það sem helst þótti benda til þess var að engir nágranna hennar höfðu heyrt skothvell og því talið að byssan hafi verið með hljóðdeyfi. Sú kenning leiddi hins vegar ekki til neins og hvergi fundust vísbendingar um hver stæði að baki.

Þá hófst mikil leit að þremur mönnum sem sáust á svæðinu þennan morgun. Einn sást á hlaupum sveittur og að því er virtist stressaður. Hann stoppaði á strætóstoppistöð og fór upp í vagn þegar hann kom. Annar sat undir stýri á bláum Range Rover og keyrði burtu þegar stöðumælavörður reyndi að sekta hann. Hinn þriðji sást hlaupa niður götuna en vitnið sá hann aðeins aftan frá. Lögregla taldi sig hafa fundið sveitta manninn en hann var einnig hreinsaður. Kenningar um að serbneskur leigumorðingi hafa framið morðið komu upp því Jill hafði beðið breskan almenning að hjálpa Kósóvum og tekið eindregna afstöðu með þeim gegn Serbum. Júgóslavía hafði liðast í sundur og grimmileg borgarastyrjöld geisaði milli ólíkra þjóðarbrota á því landssvæði.

Málinu lauk þegar Barry George var handtekinn og ákærður fyrir morðið. Hann var einfari, bjó í nágrenni við Jill og mynd af honum með byssu sem virtist af sömu hlaupvídd og banaði Jill fannst í húsi hans. Púðurleifar fundust í vasa á yfirhöfn heima hjá honum og þar með taldi lögreglan sig komna með tilefni til að kæra hann. Barry var dæmdur en sýknaður eftir þriðju áfrýjun. Í dag telja menn fullsannað að hann sé saklaus. Morðið á Jill Dando er því enn óupplýst og nýju heimildaþættirnir varpa engu óyggjandi ljósi á hver morðinginn er.

Steingerður Steinarsdóttir blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 1, 2023 07:00