Geymslur og glæpir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar.

 

Fátt er leiðinlegra en að taka til í geymslunni, og fá heit eru jafn oft brotin en þau um að taka til í geymslunni.

Geymslur hafa fylgt mannkyninu allt frá þeim tíma, sem það hóf að stunda jarðyrkju og búrækt og settist að um kyrrt.  Á Íslandi voru það lengst af skemmurnar, sem gengdu geymslu hlutverkinu, en þegar farið var að reisa timburhús og síðan steinhús, þá voru geymslurnar annað hvort uppi á háalofti eða niður í kjallara. Með tilkomu bílsins bættust svo bílskúrarnir við sem nýtanlegt geymslurými, oft fór þó svo að bílnum var endanlega úthýst.

Í háhýsum stórborga Bandaríkjanna er jafnan lítið um geymslur og þurfa íbúar þeirra því annað hvort að gæta þess vel að sanka ekki að sér of miklu dóti, eða leigja sér geymslurými í sértilgerðu  geymsluhúsnæði. Þess konar leigurými er að finna í öllum stórborgum landsins og reyndar líka í flestum borgum og bæjum, því þó fólk búi í rúmgóðum einbýlishúsum, þá rúma þau ekki alltaf allar eigur hinna neysluglöðu Bandaríkjamanna.

Það eru fáar Vesturlandaþjóðir, sem flytja jafn oft á milli staða og Bandaríkjamenn. Oft eiga þeir erfitt með að flytja burt úr heimabæjum sínum og slíta sambandi sínu við ættingja eða vini. Til að deyfa þennan sársauka bregða margir á það ráð að leigja sér geymslurými og skilja eftir hluta af búslóð sinni þar sem einhvers konar tryggingu fyrir því að þeir muni snúa aftur.

Þegar til lengdar lætur kemur gjarnan í ljós að þetta fólk mun aldrei snúa aftur. Fyrir suma reynist sú tilhugsun svo erfið, að þeir þurfa að leita sér hjálpar hjá sálfræðingi til að rjúfa tilfinningatengslin við gamla bæinn sinn og þar með segja upp leigunni á geymsluhúsnæðinu.

Dýrgripir í gleymdum geymslum

Þeir sem leigja geymslur þurfa, sem betur fer, ekki að gera sér langa ferð til að sækja dótið sitt, þegar þeir taka þá ákvörðun. Þeir þurfa bara að hætta að borga leiguna og eftir vissan tíma selur leigusalinn innhald geymslurýmis þeirra, óséð, á uppboði. Þeir sem taka þátt í þess konar uppboðum eru einkum fólk sem verslar með fornmuni. Segja má að þetta fólk vaði blint í sjóinn, þar sem það veit aldrei hvað leynist í geymslunni, sem þeir veðjuðu á.

Stundum grípur það í tómt, en stundum felast ómetanlegir dýrgripir í þessum geymslum. En einstaka sinnum kemur það fyrir, að þar leynist fundur, sem enginn hefur látið sér detta í hug að hægt væri að finna.

Það kom fyrir konu eina í Suður-Kalíforníu fyrir nokkrum árum. Kona þessi bauð í, auðvitað af óséðu, innihald geymslurýmis af þessu tagi. Við fyrstu sýn virtist ekki vera mikið upp úr geymslunni að hafa, en innst í henni stóð stór pappakassi, kyrfilega límdur aftur. Það tók konuna smátíma að rífa kassan upp, en þegar því verki lauk, kíkti hún spennt ofan í hann, en þar blasti við henni stór óþekktur hlutur umvafinn margföldu lagi af blöðruplasti. Þegar hún fletti plastinu af kom hún niður á brúðarkjól og brúðarslör, sem voru vafin utanum lík af karlmanni.

Ekki þarf að orðlengja um áfallið, sem þessi blessaða kona varð fyrir við þennan fund. Eigandi geymslurýmisins hafði strax samband við fyrrverandi leigjanda geymslunnar, sem reyndist vera kona á miðjum aldri búsett í fjarlægu ríki. Hún hafði um árabil samviskusamlega greitt leiguna af geymslunni, en svo fórst það fyrir nokkrum sinnum vegna óvæntra erfiðleika, og fyrir vikið lenti innhald geymslunnar á uppboði.

Brúðarkjólinn varð að líkklæði

Konan rak upp angistaróp, þegar hún gerði sér grein fyrir hvert erindið var, en sagan að baki þessa óvænta fundar reyndist vera þessi:  Kona þessi hafði ung orðið yfir sig ástfangin af og gifst manni, sem var mikill vandræðamaður, svo mikill að móðir hans, sem var einstæð, hafði marg oft varað hana við að giftast honum. Hún sagði hann hafa verið, allt frá æsku, afar skapbráður, og að hann hafi oftar en einu sinni látið sig hverfa í reiðikasti. Í fyrstu hafði hún auglýst eftir syni sínum, þegar hann hvarf, en þegar hann skilaði sér alltaf aftur, hætti hún að kippa sér upp við það þegar reiðin greip hann og hann lét sig hverfa. – Það fylgdi því reyndar viss léttir, sagði hún.

Unga ástfanga stúlkan lét sér, að vonum, ekki segjast. En fljótlega eftir að þau giftu sig komst hún að því, að tengdamóðir hennar hafði haft á réttu að standa. Eiginmaður hennar var ekki aðeins skapbráður, hann var líka ofbeldisfullur og í einu æðiskastinu varði unga konan sig gegn árásum hans með barefli, barefli sem varð óvænt að morðvopni.

Í ofboði bjó hún um lík hans, brúðarkjólinn hennar og brúðarslör urðu að líkklæðum hans, og síðan margvafði hún líkið inn í loftþétt blöðruplast og kom því fyrir í stórum kassa, sem hún síðan flutti í geymsluna góðu.

Nokkru síðar tilkynnti hún tengdamóður sinni að eiginmaður hennar væri horfinn. Tengdamamman kippti sér nú ekki mikið upp við þá frétt og hún kippti sér heldur mikið ekki upp við það, að sonurinn lét ekki framar sjá sig. Þegar tengdadóttir hennar tilkynnti henni nokkru eftir hvarf eigimannsins, að hún ætlaði að flytja burt og hefja nýtt líf í fjarlægu ríki, studdi hún ákvörðun hennar af alhug.

Þar bjó blessuð konan þar til í ljós kom að geymslan, sem hún hafði haft á leigu í gamla heimabæ sínum, reyndist vera líkgeymsla. Fyrir vikið var hún handtekin, ákærð fyrir morð í ógáti og einnig fyrir að hylma yfir glæp. Hún fékk á sig dóm og var komið fyrir í annarri tegund geymslu, geymslu sem á íslensku kallast fangageymsla…

Ég hef ekki fengið frekari frengir af afdrifum þessarar ólánsömu konu, en ég veit að hún fékk fremur mildan dóm…svo kannski flýgur hún nú um frjáls sem fuglinn fljúgandi, hver veit…???

Inga Dóra Björnsdóttir febrúar 4, 2024 07:00