Tengdar greinar

Mörgæsin Mísha kastaði sér út í baðkerið

Dauðinn og mörgæsin er óvenjuleg saga og kostuleg á köflum þó hún hafi sannarlega alvarlegan undirtón. Hún er eftir úkraínska rithöfundinn Andrej Kúrkov. Sagan segir frá blaðamanninum Viktori sem býr í fjölbýlishúsi í Kiev, ásamt Mörgæsinni Míshu. Ástæðan fyrir því eru fjárhagsvandræði dýragarðsins í borginni, sem biðlaði til  fólks að taka að sér dýrin og gefa þeim að borða. Viktor varð við ósk garðsins, tók mörgæsina að sér og hún flutti inn til hans.

Viktor er atvinnulaus í byrjun sögunnar, en fær fljótlega vinnu við að skrifa „minningargreinar“ eða „grafskrift“ manna, sem eru enn sprelllifandi, en eru þjóðþekktar persónur. Það liggur í loftinu að þær eigi að vera tiltækar falli þetta fólk frá. Þetta er frekar óvenjulegt starf og það er líka óvenjulegt hvernig hann kynnist lögreglumanni sem hann fær til að passa mörgæsina þegar hann fer í  stutt ferðalag og situr allt í einu uppi með lítið stúlkubarn sem sest upp hjá  honum og mörgæsinni. Hér á eftir fer stuttur kafli framarlega í bókinni, þar sem Viktor er nýbúinn að fá boðið um nýja starfið.

Áður en Viktor fór að hátta fékk hann sér te og hugsaði um dauðann. Það reyndist honum létt, Hann var í afspyrnugóðu skapi, sem vodka hæfði reyndar betur en te. En hann átti ekkert vodka.

Þetta var óviðjafnanlegt tilboð! Og þó að Viktori væri ekki enn ljóst hvernig hann ætti að uppfylla sínar nýju skyldur, þá hlakkaði hann þegar til að takast á við eitthvað nýtt og óvenjulegt. Á meðan rölti mörgæsin Mísha fram og til baka eftir myrkum ganginum og skellti sér við og við á lokaðar eldhúsdyrnar. Loks fann Viktor til sektarkenndar og hleypti henni inn. Mísha staðnæmdist við borðið. Hún var um það bil einn metri á hæð og það nægði til að hún gæti virt fyrir sér allt sem var á borðinu. Hún horfði á tebollann og starði því næst á Viktor eins og veraldarvanur flokksbroddur. Viktor langaði að gera eitthvað fyrir mörgæsina og fór inná bað og skrúfaði frá kalda vatninu. Mörgæsin beið ekki boðanna og um leið og hún heyrði hljóðið í rennandi vatninu kom hún askvaðandi, tók á sig stökk og kastaði sér út í þó að baðið væri ekki orðið fullt.

Morguninn eftir kom Viktor á skrifstofu Höfuðborgarfrétta til að ráðfæra sig betur við ritstjórann.

„Hvernig á ég að velja viðfangsefnin?“ spurði hann.

„Það gæti ekki verið einfaldara. Hverjir eru í fréttunum? Þér getið sjálfur leitað og tekið ákvörðun um það. Ættjörðin þekkir ekki alltaf sínar hetjur. Sumar kjósa að fara huldu höfði…..“

Viktor viðaði að sér öllum þeim dagblöðum sem hann komst yfir og um kvöldið settist hann við eldhúsborðið með staflann fyrir framan sig.

Strax við lestur fyrstu blaðanna fékk hann eitthvað til að hugsa um. Hann strikaði undir nöfn þeirra sem gátu talist vera Mjög mikilvægar persónur og skrifaði nöfnin síðan í venjulega stílabók. Það yrði nóg að gera á næstunni. Eftir lestur aðeins örfárra blaða var hann kominn með um sextíu nöfn.

Síðan fékk hann sér te og fór að hugsa um sjálft formið. Honum fannst hann þegar sjá hvernig hann gæti breytt þessari bókmenntagrein í eitthvað mjög lifandi en jafnframt tilfinningaþrungið svo að jafnvel venjulegur verkamaður á samyrkjubúi myndi tárast við lestur minningargreinar um látinn mann sem hann þekkti ekki baun. Að morgni var Viktor búinn að velja söguhetju fyrstu „grafskriftarinnar“. Nú vantaði einungis samþykki „stjórans“.

 

 

Ritstjórn maí 5, 2022 20:25