Tengdar greinar

Nauðsynlegt að vera stundum einn með sjálfum sér

Margir sem eru komnir yfir miðjan aldur hafa í mörg horn að líta. Þeir eru kannski enn í vinnu, eiga fullorðna foreldra og barnabörnunum fjölgar. Bent er á það í grein á bandaríska vefnum Sixty and me, að vinátta og félagsskapur sé vissulega  mikilvæg fyrir eldra fólk og skipti máli upp á heilsu og langlífi. En í  greininni er líka bent á að það sé mikilvægt  fyrir vellíðan fólks að vera eitt.

„Við lifum í heimi þar sem við erum alltaf tengd, við síma, tölvur eða aðra miðla sem skapar stöðugt áreiti“, segir í greininni. „Svo erum við alltaf að fara eitthvert, gera eitthvað og ræða við fólk um það hvert við fórum og hvert við ætlum. Við lifum í heimi þar sem ekkert er lagt upp úr því að fólk geti verið eitt og menn eru í raun frekar lattir til þess en hvattir“.

Hvernig ætli standi á því að það þyki slæmt að vera einn með sjálfum sér? Er spurt í greininni sem fer hér á eftir stytt og endursögð.

Að vera einn ekki það sama og vera einmana.

Við lesum um einmanaleika og að hann sé orðinn faraldur í hinum vestræna heimi. Of margir séu of mikið einir, og það getur vissulega verið vandamál ef fólk hefur ekkert stuðningsnet.

En að taka sér tíma til að vera einn eða ein, hefur ekkert með einmanaleika að gera. Þetta er tvennt ólíkt. Einmanaleiki getur leitt til kvíða, óánægju og jafnvel dapurleika. Að velja að vera einn getur aftur á móti veitt fólki frelsi og ánægjutilfinningu sem kviknar af því að fólk nýtur þess að vera út af fyrir sig  í ró og næði.

Rannsóknir síðustu áratuga sýna að það að vera of mikið einn er engum hollt. Einmanaleiki getur leitt til veikinda til dæmis hjartasjúkdóma og þunglyndis. En þetta er einstaklingsbundið og það skiptir máli hvort menn eru mikið fyrir að vera innan um fólk eða meira fyrir að vera einir.

Að vera stundum einn er nauðsynlegt og heilbrigt. Það gefur fólki tíma til að hugsa, skapa, þakka fyrir það sem það hefur og meðtaka umhverfið í kringum sig. Jafnvel þeir sem eru félagslyndastir þurfa á því að halda að vera reglulega einir.

Gott fyrir alla að vera stundum einir

Það hefur marga kosti að vera einn. Fólk verður hugmyndaríkara. Rannsóknir hafa sýnt að fólk sem vinnur eitt, fær fleiri hugmyndir. Það gefur meiri orku af því það gefur fólki tíma til að hlaða batteríin.

Einvera getur einnig skapað tíma til að hitta fleira fólk. Þeir sem eru ekki alltaf að gera eitthvað með fjölskyldunni fara oft meira út. Prófið að stunda það sem þið hafið gaman af ein ykkar liðs. Það er öðruvísi og veitir ánægju.

Að fara einn í bíó er ágætis dæmi. Það þarf ekki að blanda geði við aðra þegar farið er í bíó, menn geta einbeitt sér algerlega að myndinni.

Kannanir hafa sýnt að það er hægt að skemmta sér alveg jafn vel einn og með öðrum. Við fáum að gera það sem við viljum, þegar við viljum og þurfum ekki að taka tillit til annarra.

Ekki hafa áhyggjur af hvað öðrum finnst

Hví skyldum við vera hrædd við að gera eitthvað ein? Greinarhöfundur gerir því skóna að ástæðan sé sú að við viljum ekki að annað fólk haldi að við eigum ekki vini, og hvetur fólk til að hugsa ekki um hvað öðrum finnist. Hann hvetur fólk til að gera plön um eitthvað skemmtilegt. Það eina sem skipti máli sé að vera ánægður með eigin félagsskap og sýna það óhikað.

Að finna jafnvægi

Það getur verið þrautin þyngri í tæknisamfélagi nútímans að finna rólegan tíma fyrir sjálfan sig. Það er alltaf eitthvert áreiti En greinarhöfundurinn hefur ýmis ráð fyrir fólk í þessu sambandi.

Slökktu á tækjunum 

Taktu frá tíma á hverjum degi og slökktu á farsímanum, samfélagsmiðlunum og sjónvarpinu. Hugsaðu um hvað þér finnst og hvernig þér líður, ekki um hvað aðrir segja.

Farðu snemma á fætur

Vaknaðu fyrr en venjulega og notaðu þann aukatíma sem skapast til að hugleiða og gera hvað eina sem veitir þér ánægju. Haltu þessum tíma fyrir sjálfa/n þig.

Settu það inn í dagskrána að vera ein/n

Taktu frá tíma á hverjum degi til að njóta í einveru. Það þarf ekki að vera nema einn kaffibolli eða stutt gönguferð. Það skiptir máli að eiga þessa stund.

Greinarhöfundurinn klykkir út með því að það sé mikilvægt að eiga vini og tilheyra ákveðnu samfélagi. Það geti gefið fólki mikið í lífinu, hvort sem það er einhleypt, gift eða eigi góðan félaga. En það sé einnig nauðsynlegt að þekkja sjálfan sig og hlúa að eigin hæfileikum og því sem vekur með okkur ástríðu.

Ritstjórn nóvember 17, 2022 07:00