Magnavita námið sem kennt er í Opna Háskólanum við Háskólann í Reykjavik miðar að því að auka lífsgæði og lífshamingju fólks á þriðja æviskeiðinu. „Hver man ekki eftir því frá fyrri i tíð að stundum var eins og fullorðið fólk líkt og tæki ákvörðun um að leggjast í kör þegar það fór að eldast og lá þar kannski í 20-30 ár, oft inn af eldhúsinu á bæjum. Þetta er alls ekki það sem fólk sem sækir Magnavita námið ætlar sér. Þar er sko engin áhugi á karlægni! Þó fólk þurfi stundum að sætta sig við hömlur og skerðingar þegar árin færast yfir, má alltaf finna uppbyggilega möguleika í stöðunni og þar getur heimspekin hjálpað“ segir Dr. Haukur Ingi Jónasson sem kennir hagnýta heimspeki í Magnavita náminu. Námið hófst í upphafi þessa árs og heldur áfram í haust. Markmiðið er að fræða fólk sem er komið á þriðja æviskeiðið um tækifærin framundan.
Hægt að líta á lífið sem verkefni
„Það má skoða líf einstaklingsins með sjónglerjum faglegrar verkefnastjórnunar“, segir Haukur Ingi sem stýrir MPM námi verkfræðdeilar Háskólans í Reykjavík. „Hún kennir okkur hugleiða hvað má gera, hvað skuli gera, og að gera áætlanir um aðgerðir og úttekt á útkomunni og hafa gott samráð við alla hlutaðeigandi.“ Hann segir áhugavert að skoða líf sitt sem umfangsmikið verkefni, æviskeiðin sem undirverkefni og stök viðfangsefni sem verkþætti.
Hugmyndir Hauks endurspegla kennslu hans í leiðtogafræðum, samskiptum, samningatækni, deilustjórnun, samningastjórnun, og stjórnun í fjölmenningarlegu samhengi. „Allt þetta nýtist þeim sem vill vera leiðtogi í eigin lífi og annarra. Samfélagið er að gerbreytast og við þurfum að tileinka okkur alveg nýja gerð af víðsýni. Sumir á þriðja æviskeiði óttast framandleikann, og þeim má hjálpa, á meðan aðrir verða víðsýnni, forvitnari og heilbrigt hispurslausari með aldrinum, og njóta lífsins betur“, segir hann.
Stunda jóga og hafa eitthvað um að hugsa
En hvaða erindi á heimspekin við fólk á þriðja æviskeiði? „Heimspekin kemur víða við og í hafsjó af sígildum heimspekiritum er fjallað um nánast allt sem er, meðal annars um frelsið, fegurðina, vináttuna, óttann, valdið, tárin, ellina, ástina, gæskuna, vísindin, fegurðina. Heimspekinni er ekkert óviðkomandi“, segir Haukur. „Öll góð heimspeki er hagnýt viska um það sem skiptir hvert og eitt okkar máli og samfélagið í heild. Ólíkar spurningar og svör geta átt við á ólíkum aldri en sumt á alltaf við“.
Haukur vitnar í eitt atriði í heimspeki Indverja sem leiðbeinir um hvað sé viðeigandi ástundun á hverju lífsskeiði. „Hlutverk barns er að leika sér og læra, hlutverk unglings er að nema, hlutverk ungs fólks er að eignast fjölskyldu og ná árangri í starfi, og hlutverk fólks á þriðja æviskeiði er að iðka heimspekina í víðasta skilningi. Heimspeki líkamans til að stirðna ekki, heimspeki hugans til skilnings, heimspeki samtalsins—meðal annars til að miðla visku til yngri kynslóða—og heimspeki andans til að upplifa fegurð og undur lífsins“,segir hann.
Tilvistarspurningar fara að leita meira á
Haukur segir að með aldrinum leiti nýjar tilvistarspurnigar á fólk. „Hver er hugsjónin? Hvað með veikindin? Hver er tilgangurinn? Hvað er dauðinn? Til hvers er þetta? Hef ég gengið til góðs götuna fram eftir veg? Lifi ég af sóma og reisn? „Sumt fólk lifir ríku lífi þó það sé veikt alveg fram í rauðan dauðann. Samtalið um dauðann fær okkur alltaf til að ræða um mikilvægi lífsins,“ segir hann og vitnar í sálgreininn Donald W. Winnicott sem sagði „Góður guð, gefðu að ég sé lifandi þegar ég dey!“ Haukur segir að það þurfi þroskað viðhorf til að halda þessari hugmynd á lofti.
Hann nefnir fólk sem lifir lífinu lifandi, „Afi var alltaf að lesa það nýjasta í sínu fagi og hann var einn sá fyrsti í fjölskyldunni til að fá sér tölvu, þá kominn vel á áttræðisaldur. Faðir minn sem líkaminn hefur barið niður aftur og aftur ástundar heilbrigð, jákvæð og uppbyggileg viðhorf. Hann leitar að merkingu í öllu sem hendir hann. En ef tilgangurinn fer, þá er margt farið,“ segir hann.
Allir til í að prófa eitthvað nýtt
Haukur segir að fólk sem sækir í Magnavita námið sé skemmtilegt fólk sem komi alls staðar að og sé til í tuskið. „Þau eru öll opin og forvitnin og viljug til að prófa eitthvað nýtt, annars væru þau ekki í þessu námi – þröngsýnir og fúllyndir eru velkomnir, en viðhorf þeirra gætu breyst“ segir hann brosandi. „Mitt hlutverk er að veita innsýn í þankagang heimspekinnar hvernig má hugsa vel og vandlega, við hugsum hugsun okkar. Straumar og stefnur í heimspekinni eru margar. Til dæmis verufræði, þekkingarfræði, fyrirbærafræði, tilvistarheimspeki, og greiningarheimspeki, en í námskeiðinu eru hagnýt fagurfræði, siðfræði og rökfræði til skoðunar“.
Tilgangurinn að auka lífsgæði og lífsgleði nemenda
Á námskeiði Hauks Inga í Magnavita náminu segist hann leiðbeina um möguleika þessara kjarnagreina heimspekinnar. „Fagurfræðin hefur fegurðina að viðfangsefni sínu og ég kynni aðferðir til vekja, rækta og viðhalda sköpunarþránni.“ segir hann. Lykilspurningin sé: Er það fallegt?
„Siðfræðin fjallar um hvernig megi ástunda góða breytni sér og öðrum til heilla. Ég leiðbeini um aðferðir sem nýtast í þessa þágu.“ Lykilspurningin er: Er það rétt?
„Rökfræðin fjallar um sannleiksleitina og hvernig megi aga hugsun sína og halda þannig á máli sínu að aðrir séu líklegri til að skilja það sem meint er. Er það sannað og satt?
Haukur segir að oft verði fjörugar umræður á námskeiðinu. Allt sé rætt sem þátttakendur vilji ræða. Stundum stýri hann umræðuefninu en í annan tíma sé það sjálfssprottið.
Haukur segir lífið ævintýri. „Við fæðumst inni ævintýri sem hófst löngu áður en við fæddumst og það mun halda áfram löngu eftir að við deyjum; og við þurfum að finna tilgang okkar í þessu öllu saman—jafnvel þó að staðreyndin sé sú að við séum aðalega gerð úr kolvefni, vatni og fitu. Þeir sem leyfa sér að hugsa þetta alla leið, verða enn forvitnari og áhugasamari um tilveruna – og líka skemmtilegri fyrir sig og aðra.“
Nú stendur yfir skráning á Magnavita námið, sem hefst í haust. Smellið hér. Námið er styrkhæft hjá flestum stéttarfélögum.