Fjölgun heilbrigðra og spennandi æviára

,,Ætlum ekki að sætta okkur við það að verða hliðsett af því við erum eldri“

Meðalævilengd Íslendinga árið 1900 var innan við 50 ár en er nú um 81 ár meðal karla og 84 ár meðal kvenna. Því miður einkennast síðustu æviár margra af ýmsum erfiðleikum og heilsubresti. Þau Guðfinna Sesselja Bjarnadóttir, Benedikt Olgeirsson og Sigríður Olgeirsdóttir veltu þessu fyrir sér og hafa stofnað félagið Magnavita, eða magnað líf. Magnavita, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík (HR), býður nú upp á eins árs nám þar sem þriðja æviskeiðið er tekið markvisst fyrir. Í náminu setja nemendur sér skýra stefnu og markmið fyrir þriðja æviskeiðið til þess að skipuleggja innihaldsríkt líf. Tilgangurinn með náminu er að fjölga heilbrigðum æviárum nemenda, að þeir verði virkir þátttakendur í samfélaginu sem lengst, njóti frelsisins sem fylgir þriðja æviskeiðinu og að hver og einn geti nýtt tímann sinn sem allra best á eigin forsendum.

Magnvita námið

Magnavita námið tekur yfir tvær annir, það hefst í janúar 2023 og því lýkur í desember, kennt er í HR einn dag í viku, á þriðjudögum. Það er ætlað fólki á aldrinum 55-75 ára. Námið er byggt upp á tíu þriggja daga námskeiðum og það fyrsta er um tilgang lífsins. Fjallað er um mikilvægi þess að hlakka til að vakna á morgnana, að við séum að fást við verðug verkefni og höfum góða sýn á eigið líf og framtíð. Gauti Grétarsson sér um námskeið þar sem hann fer yfir líkamlegt ástand okkar og kennir okkur um mikilvægi hreyfingar og líkamlegrar virkni. Haukur Ingi Jónasson kennir námskeið sem ber yfirskriftina heimspeki og hamingja sem fjallar með skapandi og þróttmiklum hætti um listina að lifa. Þá kennir Lukka Pálsdóttir hjá Greenfit um leiðir til þess að fjölga heilbrigðum æviárum. Sigríður Olgeirsdóttir verður með námskeið sem við köllum störf, nýsköpun og fjármál þar sem reynt er að finna út með hverjum og einum hvað viðkomandi langar að gera til að auka virkni og taka þátt í atvinnulífinu og samfélaginu. Á seinni önninni eru námskeið um félagslega virkni og tengsl, um húmor og hamingju, menningu og listir, markmiðasetningu o.fl.

Hvernig varð hugmyndin að þessu námi til?

Guðfinna hefur komið víða við í atvinnulífinu, var til dæmis fyrsti rektor Háskólans í Reykjavík og er fyrrverandi alþingismaður. Hún segir að Benedikt hafi nálgast hana með hugmyndina sem nú er orðin að veruleika, með stofnun Magnavita. Hún hafði þá verið að hugsa á svipuðum nótum um þriðja aldursskeiðið.

,,Ég hef sagt þessa sögu áður en þannig var að við hjónin vorum stödd í Bandaríkjunum sumarið 2019 en þá var maðurinn minn að undirbúa það að fara á eftirlaun,“ segir Guðfinna sem sjálf er nú 65 ára. ,,Við hringdum í nokkra prófessora sem voru að kenna okkur þegar við vorum þar í námi fyrir 35 árum og voru nú komnir á eftirlaun. Vel var mætt og þau buðu okkur í dásamlegan kvöldverð og áttu með okkur ánægjulega kvöldstund. Svo segi ég við þau í einhverjum ærslaskap: Eigið þið ekki einhver ráð fyrir okkur þar sem þið eruð svo miklu eldri en við og eftirlaunaaldurinn nálgast óðfluga hjá okkur. Sá sem svaraði fyrstur nefndi atriði sem hafði mikil áhrif á mig en hann sagði: Þið verðið bara að passa eitt. ,,Never retire from something, you have to retire to something.“ Þessi setning fangaði mig og ég spurði strax hvað þau hjónin hefðu gert þegar eftirlaunaaldurinn var kominn í þeirra lífi. Hann sagði að þau hefðu farið til austrænna landa og lært að verða tai chi meistarar. Þetta þótti mér áhrifamikið því hvað er betra á þessu aldursskeiði en að vera virk, velja verðug viðfangsefni og hlakka til á hverjum degi að takast á við þau. Þetta varð mér mjög mikil hvatning og staðfesti það sem ég hafði hugsað.“

Við gætum orðið 100 ára – þriðja æviskeiðið er uppskerutími

Guðfinna segir frá því þegar hún var að ræða við dótturson sinn fyrir rúmi ári og útskýra fyrir honum valkostina sem maður hefur á hans aldri en hann var að byrja í framhaldsskóla. ,,Ég teiknaði upp lífsins tré og útskýrði fyrir honum æviskeiðin og að hans biði óendanlega fjölbreyttir og skemmtilegir valkostir. Í lok frásagnar tók ég línu í tréð og klippti efstu laufin af og benti á að eftir vissan aldur væri ekki neitt sérstakt í boði.

Staðreyndin er auðvitað sú að börnin sem eru að fæðast núna munu mörg hver líklega ná að verða hundrað ára og meira að segja nokkur fjöldi þeirra sem nú eru á miðjum aldri. Eigum við þá bara að láta setja okkur til hliðar á þriðja æviskeiðinu þegar mögulega eru eftir 30-40 ár ef við höldum rétt á spilunum. Það felst magnaður mannauður í fólki sem býr yfir visku og reynslu 3ja æviskeiðsins. Við þurfum að endurskoða afstöðu okkar til þeirra, breyta hugarfari og orðræðu í samfélaginu og aðstæðum í atvinnulífinu því margir vilja vera virkir í atvinnulífinu mun lengur en nú er, en þó flestir á sínum eigin forsendum.

Ákvað að hætta fastri vinnu sextugur

Benedikt hefur komið víða við í atvinnulífinu og var meðal annars aðstoðarforstjóri á Landspítalanum um tíma ásamt fleiru. ,,Ég var löngu búinn að ákveða að ég ætlaði að byrja að stýra tíma mínum sjálfur þegar ég yrði sextugur,“ segir Benedikt. ,,Mér leið þannig að það væri bjart fram undan en ég var að nálgast hefðbundin starfslok og langaði að búa til fyrirtæki. Ég hitti fjölda manns og meðal annars Guðfinnu og fann út að hún hafði verið að hugsa á svipuðum nótum. Það endaði þannig að við vorum þrjú sem stóðum saman að því að stofna Magnavita fyrr á árinu. Með okkur var líka Sigríður Olgeirsdóttir, sem einnig hefur komið víða við í atvinnulífinu, var síðast yfir upplýsingatækni og -rekstri hjá Íslandsbanka. Einnig tók Tryggvi Pálsson þátt í hugmyndavinnunni.“

Lykillinn að lífshamingjunni

Benedikt segir mikla áherslu hjá fólki á miðjum aldri vera á húsnæðisbreytingar. ,,Auðvitað skiptir húsnæðið miklu máli. Það er þó ekki síður mikilvægt að hafa skýran lífstilgang, sterkt tengslanet, verðug viðfangsefni, vitsmunalega örvun, lífsgleði og hreysti. Hreysti má flokka í líkamlega, andlega, félagslega og fjárhagslega hreysti. Þessir þættir tengjast innbyrðis en þurfa allir að vera í sem bestu standi, í því liggur áherslan okkar. Magnavita námið snýst um þessa þætti enda er gagnreynd þekking að baki okkar starfi.

Ég vann í heilbrigðiskerfinu í tíu ár og víða er góð þjónusta en þar er einnig mikill vandi. Sú þjónusta er ekki okkar vettvangur. Athygli okkar er á daglegt líf þegar fastri starfsævi lýkur og við í Magnavita leggjum áherslu á að undirbúa þriðja æviskeiðið áður en að því kemur eða sem fyrst eftir að það hefst, markhópur okkar er á aldrinum 55-75 ára. Fyrir marga er breytingin eftir að föstu starfi lýkur svo miklu meiri en fólk átti von á. Hugmynd margra er þannig að fólk eigi að setjast í helgan stein og allt verði svo rólegt og gott á þessu æviskeiði. Raunveruleikinn er sá að margt fólk missir tengslanet og félagsskapurinn verður allt í einu miklu snauðari. Þess vegna skiptir svo miklu máli að skipuleggja innihaldsríkt líf.“

Forvarnir og lífsstílssjúkdómar

Guðfinna segir að íslensk þjóð sé mjög aftarlega á merinni hvað varðar forvarnir. ,,Ef við tölum um heilbrigð æviár þá er mjög mikill munur á meðal ævilengd (lifespan) og heilsutímabili lífsins (healthspan) í hinum vestræna heimi. Í Bandaríkjunum eru t.d. meðal lífslíkur 80 ár en heilsutímabilið 66 ár, þar skeikar 14 árum. Svipuð rannsókn var gerð á Bretlandi og þar munar 16 árum. Þá spyr maður sig hvers virði er að verða níutíu eða hundrað ára ef síðustu 15 til 20 árin einkennast af heilsubresti. Við kærum okkur ekkert um það en góðu fréttirnar eru þær að við getum gert eitthvað í þessu sjálf. Lífsgæði snúast um marga þætti, yfir sumum höfum við vald og öðrum ekki. Hver og einn þarf að taka ábyrgð á sjálfum sér og læra hvernig við getum best notið æviáranna sem heilbrigðir og virkir þátttakendur í samfélaginu.

Einmanaleiki og tilgangsleysi drepur

,,Talið er að áhrif einmanaleika á þriðja æviskeiði jafngildi því að reykja 15 sígarettur á dag og allir vita hvað það gerir okkur,“ segir Benedikt ,,Einmanaleiki og tilgangsleysi hrjáir sífellt fleiri manneskjur og önnur aldursskeið upplifa því miður einnig einmanaleika. En rannsóknir sýna að einmanaleiki á þriðja æviskeiði er dauðans alvara.“

Starfslok eru ein mest krefjandi umbreytingin í lífinu

,,Að hætta föstu starfi er ein mest krefjandi umbreyting í lífi fólks,“ segir Benedikt. ,,Miklu meira krefjandi en fólk áttar sig á. Eins dags starfslokanámskeið er algerlega ófullnægjandi til undirbúnings. Allt í einu yfirgefum við hlutverk sem hefur einkennt lífið lengi og það reynist mörgum erfitt. Magnavita námið er eins árs ferðalag þar sem unnið er með alla helstu þætti sem skila okkur innihaldsríku lífi á 3ja æviskeiðinu, lífi sem einkennist af virkni, hreysti og hamingju.

Við, sem erum á þriðja æviskeiðinu, ætlum ekki að sætta okkur við það að verða hliðarsett af því við erum eldri. Við ætlum að halda áfram að taka þátt í samfélaginu og skipta máli. Framtíðarsýn Magnavita snýst um að þriðja æviskeiðið verði það besta, þá er uppskerutími og hann á að vera á forsendum hvers og eins. Við erum búin að leggja mikið fram og viljum halda því áfram,“ segja þau Guðfinna og Benedikt.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

sjá magnavita.is

Ritstjórn ágúst 28, 2023 11:00