„Viljum líka opna huga karla fyrir starfslokanáminu“

Magnavita-námið gengur út á að hjálpa nemendum að finna spennandi leiðir  til þess að vera áfram virkir þegar aldurinn færist yfir, hvort sem það er í starfi, nýju áhugamáli sem fólk finnur sér, í sjálfboðaliðastarfi eða hverju því sem heillar og höfðar til fólks“, segir Sigríður Olgeirsdóttir kerfisfræðingur, sem er einn af stofnendum Magnavita og kennir auk þess um nýsköpun og fjármál í náminu sem Magnavita og Háskólinn í Reykjavík hleyptu af stokkunum á síðasta ári, en það er ætlað fólki sem er farið að huga að starfslokum eða er hætt í fullu starfi.

Hvað langar mig að gera?

Sigríður hefur ásamt Georg Lúðvíkssyni stofnanda fyrirtækisins Meniga kennt námskeið sem heitir Störf, nýsköpun og fjármál.  „Georg Lúðvíksson hefur tekið fjármálahlutann“, segir Sigríður „En minn hluti námskeiðsins hefur snúist um störf og nýsköpun, þar sem nemendur fást við spurningar eins og Hvað langar mig að gera? Hvernig langar mig að verja tímanum? Hugmyndin snýst um að vera virk eða virkur á eigin forsendum, gera eitthvað sem fólk hefur lengi langað til eins og til dæmis að stofna fyrirtæki, rétt eins og við hjá Magnavita gerðum, taka þátt í gigg-hagkerfinu, sem snýst um að taka að sér afmörkuð verkefni,  eða jafnvel helga sig félagsmálum. Kraftmikill gestafyrirlesari, Sigrún Guðjónsdóttir viðskiptaþjálfi kom á námskeiðið, en hún hefur það að atvinnu að hjálpa konum að stofna fyrirtæki á netinu, búa til námskeið, fræðsluefni eða veita markþjálfun. Endalausir möguleikar felast í að bjóða þjónustu og námskeið á netinu og hefur Sigrún hálpað þúsundum kvenna við að stofna fyrirtæki á netinu með góðum árangri. Ég held að fyrirlesturinn hennar hafi verið hvatning fyrir marga“, segir Sigríður.

Sextugir þrisvar sinnum líklegri til að ná árangri í nýsköpun

Sigríður greinir blaðamanni Lifðu núna frá rannsókn sem birtist í nóvember í fyrra, sem sýnir að 60 ára einstaklingur er þrisvar sinnum líklegri til að ná árangri í nýsköpun en 30 ára einstaklingur. Hún segir eldra fólkið búa yfir dýrmætri þekkingu og reynslu sem ekki sé borin nægilega mikil virðing fyrir í samfélaginu og oft virðist lítill áhugi á að nýta.  „Unglingadýrkunin er mikil“, bætir hún við. „Það er mikið horft til unga fólksins og 45 ára er algengur aldur fyrir fólk að stofna fyrirtæki. Með því að blanda saman ungum og eldri einstaklingum aukast líkur á að góður árangur náist“, segir hún.

Háskólamenntun ekki skilyrði fyrir inngöngu í námið

Fyrsti hópurinn í Magnavita-náminu er hálfnaður með námið og  Sigríður segir að þau hjá Magnavita séu að fá endurgjöf frá nemendum sem eru gríðarlega ánægðir með námið enda hafa margir þegar gert breytingar í sínu lífi, breytingar sem hafa veitt þeim meiri hamingju og aukna lífsfyllingu. Rúmlega 30 manns eru núna í náminu. „Nemendur eru með alls konar menntun og úr öllum atvinnugreinum, sem gerir hópinn mjög fjölbreyttan. Háskólamenntun er ekki skilyrði fyrir inngöngu í námið, það þarf bara að hafa áhuga og vilja til að gera þriðja æviskeiðið að því besta, enda er markmið námsins að fjölga spennandi og heilbrigðum æviárum. Engin próf eru í náminu, heldur lokaverkefni sem menn geta ýmist unnið hver fyrir sig eða saman“, segir hún.

Tíu ára sýn og að setja sér markmið

„Við bindum vonir við að fá áhugaverð lokaverkefni og að nemendur setji sér markmið sem stuðla að því að fólk geti áfram verið virkt og notið lífsins sem allra best. Gróflega mætti skipta ævinni í þrjú æviskeið, í upphafi snýst lífið um að læra sem mest, annað æviskeiðið snýst um þáttöku í atvinnulífinu, við undirbúum okkur vel undir þessi fyrstu tvö æviskeið en ekki er síður mikilvægt að undirbúa þriðja æviskeiðið. Hversu oft höfum við ekki farið á námskeið til að verða betri í starfi? Magnavita-námið snýst sem sagt um að undirbúa þriðja æviskeiðið sem á að vera á þínum forsendum“, segir Sigríður. Hún áréttar að margir hafi tekið þátt í stefnumótun í sínum störfum á vinnumarkaði.  Sjálf fór hún í persónulega stefnumótun fyrir rúmu ári síðan.  „ Ég skilgreindi 10 ára sýn, setti mér markmið og útbjó aðgerðaáætlun, rétt eins og ég hafði gert í vinnunni. Það er gríðarlega mikilvægt að hver og einn setji sér markmið. Hvað vil ég gera? Annars verður lífið mögulega tilviljunum háð, sem er að sjálfsögðu í lagi ef fólk vill það. En ef þú vilt vera í ökumannssætinu í eigin lífi þá þarftu að vinna að eigin markmiðum og spyrja Hvað er það sem ég brenn fyrir, hvað er það sem ég vil láta gerast?“, segir hún.

Karlmenn missa oft bæði tilganginn og félagskapinn við starfslok

Sigríður segir fjármálin mikilvæg í öllu þessu samhengi. Georg hafi útbúið vinnuskjal sem gerir fólki kleift að kortleggja stöðuna í fjármálum til að átta sig á því hvar það stendur. Þannig fæst góð yfirsýn yfir fjármálin á þriðja æviskeiðinu og hægt er að setja sér markmið út frá fjárhagslegri stöðu.

Meirihluti nemenda í náminu er konur en Sigríður segir það mat aðstandenda námsins að karlmenn þurfi jafnvel meira á svona námi að halda en konur. „Vinnan hefur oft skipað stærra hlutvek í lífi þeirra og félagslegum tengslum. Þegar þeir hætta störfum, missa þeir oft tilganginn og félagsskapinn. Við viljum opna huga þeirra fyrir þessu námi, karlarnir í náminu núna eru fjórir og þeir eru ekki síður ánægðir en konurnar. Fyrir hjón getur verið áhugavert að fara í námið saman til að velta fyrir sér þeim breytingum sem verða á lífsstíl og taktinum í lífinu á þriðja æviskeiðinu og hvernig þau geta sem best aukið sína lífsfyllingu. Það þarf að huga að hreyfingu og virkni, andlegri og líkamlegri heilsu, félagslegum tengslum og fjármálum. Finna sér áhugaverð viðfangsefni, það þarf ekki endilega að vera starf, en mikilvægt að hafa eitthvað viðfagnsefni til að hlakka til á hverjum degi“, segir hún að lokum.

Opið er fyrir umsóknir í Magnavita-námið sem hefst nú í haust. Sjá meira um námið með því að smella hér.

Hér er einnig viðtal sem birtist við aðstandendur námsins sem birtist fyrir nokkru á Lifðu núna síðunni.

 

Ritstjórn júní 15, 2023 08:19