Nína S

Bókin Nína S eftir Hrafnhildi Schram listfræðing fjallar um Nínu Sæmundsson myndhöggvara, sveitastelpuna úr Fljótshlíðinni sem fór út í heim og lagði Bandaríkin að fótum sér, með ótrúlegum höggmyndum. Ein sú frægasta er styttan Afrekshugur sem er yfir innganginum að Waldorf Astoria hótelinu í New York.

Það er afar fróðlegt að lesa um það hvernig Nína braust til mennta í Kaupmannahöfn og kynnti sér í kjölfarið allt það helsta sem var að gerast í myndlistinni í heiminum. Hún bjó í París um tíma og flutti síðan til Bandaríkjanna þar sem ferill hennar tók flugið fyrir alvöru.

Í bókinni segir frá því þegar Nína tók þátt í samkeppni um listarverk fyrir Waldorf Astoria hótelið, en 400 tillögur bárust í samkeppnina. Nína fór með sigur af hólmi og í bókinni segir.

Mynd hennar af nakinni ungri konu (h.263 cm) sem stendur á tánum á hnetti, horfir upp móti ljósinu og afrekum framtíðarinnar og virðist í þann mund að hefja sig til flugs. Segja má að svo hafi einnig verið um Nínu sjálfa, því að á einni nóttu flaug nafn hennar um gjörvöll Bandaríkin og ljósmyndir af henni við verk sitt birtust í einum 80 dagblöðum og tímaritum. Þessi sigur á sér sennilega enga hliðstæðu í íslenskri myndlist og Nína naut hans allan sinn feril. Nafnið Afrekshugur (The Spirit of Achievement), sem hún gaf styttunni, skyldi skírskota til þess anda sem hún hreifst af við komuna til Bandaríkjanna og legga um leið áherslu á stórhug og framsýni eigenda hótelsins við byggingu þess.

Nína bjó lengst af í Hollywood í Kaliforníu ásamt Polly James. Hún gerði styttur af heimsfrægum leikurum og virtist hafa sérstaka ánægju af meitla í stein, sterkar og sjálfstæðar konur. Þeirra á meðal var Hedy Lamarr. En um hana segir í bókinni:

Það er athyglisvert að Nína skuli hafa valið að gera andlitsmynd af Hedy á þessum tíma, því þótt hún ætti eftir að verða heimskunn á stríðsárunum var hún rétt nýkomin til Hollywood um þessar mundir, eftir að hafa lifað afar áhugaverðu lífi í heimalandi sínu, Austurríki, fyrst sem ung leikkona þar sem hún hneykslaði kvikmyndahúsagesti í Mið-Evrópu með nektarsenum í kvikmyndinni Alsæla (1933), en síðar sem eiginkona austurríska hergagnaframleiðandans Friedrich Mandl (1900-1977), sem var góðkunningi Mússólínis og Hitlers. Hún hét réttu nafni Hedwig Kiesler og var af gyðingaættum. Að eigin sögn strauk hún frá manni sínum, hélt til Parísar þar sem hún hitti einn helsta jöfur bandaríska kvikmyndaiðnaðarins, Louis B. Mayer (1884-1957), sem tók hana með sér til Bandaríkjanna og kynnti hana þarlendum fjölmiðlum sem „fegurstu konu heims“.

Þó sveitastúlkan úr Fljótshlíðinni öðlaðist frægð og frama úti í hinum stóra heimi, naut hún ekki sömu hylli á Íslandi og féll það þungt. Bókin um Nínu S, er enn ein bókin sem færir okkur glæsta sögu íslenskra kvenna, sögu sem alltof lengi hefur legið í þagnargildi. Bókin er þar að auki einkar falleg, læsileg og fróðleg.

 

Ritstjórn desember 21, 2015 10:10