Hún var dökk á brún og brá, unga stúlkan sem var hlaðfreyja á næturvöktum hjá Loftleiðum í upphafi sjöunda áratugarins. Hún vann á kvöldin við að aðstoða farþega og las fimmta bekk í Versló utanskóla yfir nóttina, þangað til morgunvélarnar komu. Þetta var Sigurveig Jónsdóttir sem ólst upp á Laugaveginum í Reykjavík, en flutti þaðan með foreldrum sínum og þremur bræðrum í Hlíðarnar þegar hún var 10 ára. Hún hafði ætlað sér að hætta í Verslunarskólanum eftir fjórða bekk, en sá eftir því og dreif í að lesa fimmta bekkinn utanskóla. Það stóð á endum að þegar hún úrskrifaðist stúdent frá Versló ári síðar var hún gift kona og búin að eignast einn son. Eiginmaðurinn var samnemandi úr skólanum, Víglundur Þorsteinsson.
Það er af sem áður var
Sigurveig segir að það hafi verið gaman að búa í Hlíðunum, ekki skorti leikfélagana og krakkarnir léku sér í fallin spýta og boltaleikjum á götunni sem var ekki búið að malbika. „Það var alltaf nóg af krökkum að leika við“, segir Sigurveig „Og það þótti ekki tiltökumál að ganga úr Hlíðunum niður í Miðbæjarskóla, þar sem ég lauk 12 ára bekk, en þaðan lá leiðin í Gaggó Aust. En þetta hefur nú allt breyst“. Jón S Helgason, faðir Sigurveigar, rak fyrirtækið JS Helgason ehf. Í byrjun var hann með verksmiðju í kjallaranum þar sem þau bjuggu. Þar var framleitt Nivea krem úr hráefnum sem flutt voru inn frá Þýskalandi. Öll fjölskyldan vann við þá framleiðslu. Og það var fleira gert til að framfleyta fjölskyldunni. Sigurveig byrjaði fimm ára að hjálpa til ásamt bróður sínum sem er þremur árum eldri. „Við hjálpuðum mömmu sem var að falda gólfklúta. Klipptum niður stranga og brutum klútana saman“.
Aldrei litið á þetta sem barnaþrælkun
Smám saman fór Sigurveig að taka þátt í kremframleiðslunni. Fyrstu verkefnin voru að setja pappír og lok á kremdósirnar. Að sjálfsögðu notar Sigurveig ekkert nema Nivea krem enn þann dag í dag. „Mér þótti þetta aldrei leiðinlegt. Það var metnaðarmál að fá að setja kremið í dósirnar og slétta yfirborðið með pönnukökuspaða“, segir Sigurveig. Hún telur að það geri börnum gott að fá að taka til hendinni. „Það var aldrei litið á þetta sem barnaþrælkun á heimili foreldra minna. Þetta kenndi manni að vinna og það er gaman að sjá eitthvað eftir sig“.
Fjölbreyttur ferill
Þessi þjálfun á barnsaldri hefur ugglaust gert Sigurveigu gott og kannski átt þátt í hvað hún hefur lagt gjörva hönd á margt á sinni löngu starfsævi. Hún starfaði sem blaðamaður, var sjónvarpsfréttamaður á Ríkisútvarpinu, fréttamaður og síðar fréttastjóri á Stöð tvö, aðstoðarmaður forstjóra þar og loks upplýsingafulltrúi hjá Íslandsbanka, svo það helsta sé nefnt. Þegar hún lét af störfum hjá bankanum fór hún í lausamennsku og skrifaði nokkrar bækur í samstarfi við Helgu Guðrúnu Johnson, en þær störfuðu saman á Stöð tvö á sínum tíma. Þetta voru bækurnar, Á flugi, Saga Símans, Álver rís, Gull hafsins og Það er kominn gestur. Sigurveig tók einnig þátt í ritun bókanna Hlutabréf og eignastýring og Verðætasta eignin á meðan hún vann hjá Íslandsbanka. Sér til gamans gaf hún síðar út – í mjög takmörkuðu upplagi – litla ljóðabók sem heitir Hughrif.
Feta í fótspor móður sinnar
Til viðbótar þessu rak Sigurveig heimili, en þau Víglundur eiga þrjá syni. Tveir þeirra, Björn sá yngsti og Jón Þór sá elsti, völdu sér starfsvettvang í tengslum við sjónvarp eins og mamma þeirra. Björn er orðinn yfirmaður Stöðvar tvö, ef svo má segja, en hann er framkvæmdastjóri Miðla hjá Vodafone sem nú á Stöð tvö, en Jón Þór stundar kvikmyndagerð og hefur lengi verið kvikmyndatökumaður á Fréttastofu Sjónvarps. „Það er voða gaman að því“, segir Sigurveig. Miðjusonurinn Þorsteinn er alþingismaður og var um tíma félags- og jafnréttisráðherra. Sigurveigu finnst hann hafa komið mjög vel fyrir í sínu starfi. “Hann er áhugasamur, einlægur og kynnir sér hlutina vel“, segir hún, stolt af sonunum þremur, sem hafa fært henni átta barnabörn.
Það sem ekki er bannað, er leyft
Eftir annasöm starfsár, er Sigurveig komin á eftirlaun og hefur enn nóg að gera. Hún er í úrskurðarnefnd um upplýsingamál og hefur verið það í rúman áratug. Úrskurðarnefndinni er ætlað að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Þetta gildir bæði um blaðamenn og einstaklinga sem einhverra hluta vegna telja sig þurfa upplýsingar frá opinberum stofnunum. „Það er unnið af heilindum í þessari nefnd og viðmiðið er að aðgangur að gögnum sé leyfður ef upplýsingalögin ekki beinlínis banna hann. Meðal þess sem er bannað samkvæmt lögunum, er að veita mjög persónulegar upplýsingar um fólk og fjármál, sem öðrum koma ekki við,“ segir Sigurveig. Hún segir upplýsingalögin mjög skýr, og það auðvelt að styðja sig við þau.
Fór ekki á fætur heldur kláraði bókina
Sigurveig er mikill lestrarhestur og segist um daginn hafa gert nokkuð sem sem hún hafi aldrei gert áður. Hún var að lesa bókina Undraherbergið eftir Julien Sandrell. „Ég fór ekki á fætur, heldur las bókina þar til ég var búin með hana. Bókin fjallar um konu sem uppgötvar nýtt líf í gegnum veikindi sonar síns. Hún er svo skemmtilega skrifuð, læsileg, ljúf og yndisleg. Þetta er í fyrsta skipti á ævinni sem ég hef við fulla heilsu legið yfir bók allan daginn“, segir Sigurveig, sem sótti námskeið í ljóðagerð fyrir nokkrum árum og uppúr því var stofnaður ljóðaklúbbur. “Það er alltaf gaman að lesa ljóð“, segir hún.
Golfið lengir sumarið
„Annars er golfið stórt mál í mínum huga“, heldur Sigurveig áfram þegar við ræðum um viðfangsefni þeirra sem komnir eru á eftirlaun. „Ég fer alltaf ef ég hef tíma og kemst að á vellinum. Þetta er svo skemmtilegt og maður fær svo góða hreyfingu, gengur í 4-5 klukkustundir þegar spilaðar eru 18 holur.
Svo kynnist maður líka mörgum. Það kemur fyrir að ég fari marga daga í röð,“ segir hún en bætir við að sumarið í sumar hafi verið óvenju slæmt. „Ég er búin að spila golf í rúman áratug án þess að veðrið hafi truflað mig. Þetta sumar sker sig úr. Um daginn fór ég á glampandi sólskinsdegi á völlinn í Mosfellsbæ. Um leið og ég fór af stað fann ég samt að vindurinn var ískaldur. Ég fór í allan minn galla og setti á mig vetrarhanska, sem hafa alltaf dugað, en það dofnuðu alveg á mér allir fingur, nema þumlarnir. Það var svo ísjökulkalt að það var ekki hægt að halda á golfkylfu“. En Sigurveig setur þetta ekki fyrir sig og ráðleggur öllum að drífa sig í að spila golf. „Við vinkonurnar förum oftast til útlanda í golfferðir vor og haust, það eru eiginlega einu utanlandsferðirnar sem ég fer í, mig langar ekki að fara annað. Það er yndislegt að leika golf í góðu veðri og lengja þannig sumarið“.
Á slóðir Agnesar Magnúsdóttur
Margir sem eru komnir á eftirlaun kannast við, að ýmsir hópar sem þeir hafa tilheyrt um dagana hittast reglulega. Eftir því sem við eldumst, fjölgar þessum hópum, svo sem klúbbum ýmiss konar og vinnustaðahópum. Þetta hefur Sigurveig einnig upplifað. „Ég er meðal annars í gönguhópi með fyrrum samstarfskonum í Íslandsbanka. Við erum að fara á slóðir Agnesar Magnúsdóttur í Húnavatnssýslum og höfum verið að undirbúa ferðina, lesum til dæmis bókina Náðarstund eftir Hannah Kent. Síðast liðið sumar fórum við göngur milli kirkna á suðvesturhorninu, en það var ferð sem Ferðafélag Íslands skipulagði. Þetta var mjög skemmtilegt og ég kom meðal annars á landssvæði austan við Selfoss, sem ég hafði ekki kynnst áður“.
Í villingabekk í Miðbæjarskólanum
Einu sinni á ári hittast þrjátíu konur af Stöð tvö og halda mikla matarveislu. Þar varð einnig til matarklúbbur nokkurra vinnufélaga á fréttastofunni og maka þeirra sem enn hittast. Kvennahópurinn kallar sig Vorboða vegna þess að þær voru vanar að efna til veislu á vorin en á síðari árum hafa þær hist á haustin, yfirleitt í veiðiskála í nágrenni Reykjavíkur, en það er auðveldara að fá þá á haustin en vorin. „Við hittumst líka af og til, stelpurnar sem vorum saman í 12 ára bekk í Miðbæjarskólanum“, segir Sigurveig. Þær fóru sitt í hvora áttina og ein flutti meira að segja til Ástralíu. „Við vorum í 30 nemenda bekk, vorum 8 stelpurnar, þetta var erfiður bekkur“, rifjar hún upp „og það hefur sennilega átt að róa strákana með okkur og besta kennaranum í skólanum“. Það er nóg að gera að taka þátt í öllum þessum hópum, en sá hópur sem Sigurveig hittir oftast eru bridgefélagarnir – fimm konur sem borða vikulega saman stærstan hluta ársins og spila svo fram eftir kvöldi af miklum metnaði.
Maður ánetjast fréttunum
Þegar Sigurveig horfir til baka er hún á því að árin sem hún var að sinna bókarskrifum í lausamennsku, hafi verið einna skemmtilegust á hennar starfsferli. „Það var líka gaman að vinna í fréttum. Það er nokkuð sem maður ánetjast. Svo hlustar maður á fréttir og gagnrýnir eða hrósar í huganum. Það fara ekki mjög margir fréttatímar framhjá mér. Ég held að fréttastofurnar séu miklu öflugri núna en þær voru í minni tíð. Starfsmennirnir eru mun fleiri sýnist mér og það skiptir máli“, segir gamli fréttamaðurinn Sigurveig, sem minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma leiðst í lífinu og síst af öllu eftir að hún fór á eftirlaun.