Kristín Sigurðardóttir læknir stundar sjóböð reglulega. Hún er sannfærð um að við höfum ekki verið hönnuð upphaflega til að vera alltaf í upphituðum húsum og fara á milli staða í upphituðum ökutækjum. “Ég held að í okkar “nútímalífi” þenjum við ekki nægilega eða hreinlega notum ekki öll kerfin okkar og missum þá smám saman getuna til að takast á við ýmsar aðstæður sem forfeður okkar bjuggu við,” segir Kristín. Hún segist t.d. hafa verið mjög kulvís áður en hún hóf að fara í sjóinn en að það hafi lagast mikið við sjóferðirnar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé hollt að keyra kerfin í okkur upp reglulega því hættan er sú að maður missi hæfileika og hæfni að öðrum kosti. Enska máltækið “If you don´t use it you loose it” er vert að hafa í huga.”
Sófinn ein vesta uppfinningin
“Sófinn er örugglega ein versta uppfinning mannsins,” segir Kristín og hlær. “ Hún heldur áfram og segir að það sé eitthvað beyond/órætt í náttúrunni sem hún komist í snertingu við í sjósundinu. “Um daginn var dæmigerður íslenskur vetrardagur og á þessari stund sem ég var í sjónum upplifði ég sól og logn og haglél og hávaðarok og allt þar á milli. Þarna vorum við sannarlega í snertingu við náttúruna og það var alveg mergjað. En ég vil minna á að við verðum auðvitað alltaf að hlusta á líkama okkar. Það hleypur til dæmis enginn marathon án þess að hafa æft sig áður. Eins er það með sjósundið. Maður verður að aðlagast smám saman.”
Hluti af því að lifa lífinu lifandi
Áður en Kristín hóf að synda í sjónum hafði hún farið í kalda pottinn í sundlaugunum. “Fyrir mig er kaldi potturinn ekki sama upplifunin þótt kuldinn þar gæti verið að gera gagn. En munurinn á sjósundinu og kalda pottinum fyrir mig er náttúran, núið og síðast en ekki síst félagsskapurinn. Við hlæjum mikið í sjónum á meðan kaldi potturinn er bara pína fyrir mig. Ég er óskaplega þakklát fyrir að hafa kynnst þessu ævintýri sem sjórinn er. Að dýfa sér í hann er alveg örugglega hluti af því að lifa lífinu lifandi,” segir þessi hressa kona.