Tengdar greinar

Nýja kærastan hans Björns

Þetta er sjöunda spennusaga Lilju en hún hefur hlotið verðlaun fyrir bækur sínar til að mynda var Gildran sem kom út árið 2015 tilnefnd til breska Gullrýtingsins en það eru virt glæpasagnaverðlaun.  Þá hefur hún í tvígang hlotið Blóðdropann sem eru íslensk glæpasagnaverðlaun og verið tilnefnd til norræna Glerlykilsins. Því er ekki að undra að bækur hennar veki áhuga hjá þeim sem unna góðri sakamálasögu.

Þessi bók fjallar um þær systur Áróru og Ísafold sem eiga íslenskan föður og skoska móður en Áróra hefur að mestu leyti búið í Skotlandi og unnið við að rekja ólöglegar peningafærslur og er því að sögn móðurinnar spæjari og því vill hún frekar leita til hennar en lögreglunnar. Ísafold hefur aftur á móti búið meira á Íslandi á íslenskan kærasta sem er laus höndin og Áróra skilur ekki af hverju systir hennar skilur ekki við ofbeldismanninn. Þegar sagan hefst hefur ekkert heyrst frá Ísafold í tvær vikur og móðirin er farin að hafa miklar áhyggjur og biður Áróru um að fara til Íslands að hafa upp á systur sinni. Hér á eftir fer kafli úr bókinni, örlítið styttur.

Helköld sól eftir Lilju Sigurðardóttur

Það var komið hádegi þegar nýja kærastan hans Björns kom loksins út um dyrnar og gekk út á bílaplanið í átt að gráum smábíl. Grímur hafði séð þau koma heim saman í gærkvöldi, flissandi og glöð, Björn með handlegginn vafinn um mitti hennar, og svo hafði hann séð Björn fara rétt fyrir klukkan átta í morgun. Alveg síðan hafði hann setið á eldhússtól, sem hann hafði komið fyrir við gluggann í svefnherberginu til að hafa útsýni á útidyr blokkarinnar og bílaplanið, og beðið eftir að hún færi líka.  Hann hafði skotist nokkrum sinnum fram í eldhús og bruggað sér kaffi og hraðað sér svo með það til baka að glugganum. Hann hafði ekki einu sinni látið eftir sér að fara og raka sig þó að löngunin til þess hefði gripið hann tvisvar sinnum af miklu afli.  Hann las fréttirnar á netinu í símanum sínum á meðan hann beið og þar sem biðin dróst á langinn var hann kominn í fréttir af samkvæmislífi einhvers fólks sem hann vissi engin deili á þegar konan kom loksins út.  Hann fylgdist með henni setjast inn í bílinn. Hún spennti á sig öryggisbeltið áður en hún setti í gang og svo hallaði hún sér að baksýnispeglinum og virtist bera á sig varasalva eða varalit, hann greindi ekki hvort úr þessum fjarska. Svo kom hún út af bílaplaninu og hann sá hana hverfa í iðu hringtorgsins framan við byggingavöruverslunina.

Hann stóð á fætur í skyndingu, sótti uppþvottahanskana í eldhúsið og fór í þá, klæddi sig svo í hettupeysu og dró hettuna vel upp á höfuðið svo að hún slútti fram á ennið. Þetta var auðvitað algjör óþarfi, það voru engar eftirlitsmyndavélar í húsinu, en einhvern veginn veitti þetta skjól og honum fannst hann ekki eins berskjaldaður.  Hann leit í kringum sig þegar hann kom fram á stigaganginn og lagði við hlustir.  Hann gat ekki heyrt neinn umgang í húsinu svo hann hraðaði sér upp stigann, undarlega léttstígur, líkt og spennan innra með honum gæfi líkamanum aukið fjaðurmagn.

Hann stakk lyklinum í skrána og eitt augnablik stóð læsingin á sér svo það hvarflaði að honum að Björn hefði skipt um skrá , en með smá ruggi small lásinn opinn og hann var kominn inn.  Ísafold hafði gefið honum lykilinn. Til öryggis, hafði hún sagt. Ef þér heyrist hann vera alveg að ganga frá mér.  En það hafði síðan þá ekki reynt á það. Eftir þetta hafði verið hljótt uppi hjá þeim. Undarlega hljótt. En núna hafði hann lykil.

Hann gæðist inn í forstofuskápinn sem stóð opinn og sá að þar voru einungis yfirhafnir af Birni. Hann sparaði ekki við sig flottheitin, því það héngu allavega þrír leðurjakkar á slánni, nokkrir bleiserar, ullarfrakki og silfruð dúnúlpa eins og þær sem voru auglýstar á strætóskýlunum og kostuðu heil mánaðarlaun. Það voru engir kvenjakkar svo að nýja konan kom greinilega og fórí sömu yfirhöfninni.

Í svefnherberginu var rúmið óumbúið, á öðru náttborðinu stafli af bókum eftir Elenu Ferrante, og snagarnir innan á hurðinni hlaðnir fötum.  Það var ljóst að á öðrum þeirra voru bara kvenmannsföt.  Hann gróf andlitið í fatahrúguna og dró inn andann.  Sami ilmurinn af suðrænni náttúru, en bara þyngri, blandinn líkamslykt og þvottaefni.  Kommóðan við enda rúmsins var tóm, nema hvað í efstu skúffunni voru nokkrar efnislitlar blúndunærbuxur og brjóstahaldari í skálastærð B.  Ísafold var í D svo haldarinn tilheyrði greinilega nýju konunni.  Hann renndi upp hurðinni að stóra skápnum og sá að öðru megin voru föt af Birni.  Það var rúmt um þau, líkt og hann hefði dreift úr þeim til að nýta plássið, breiða úr sér yfir í það rými sem áður hafði tilheyrt Ísafold.

Grímur þurfti ekki að skoða meira.  Björn var greinilega búinn að hreinsa burt öll ummerki um Ísafold og snyrtidótið á baðinu og bækurnar og fötin í svefnherberginu gáfu til kynna að nýja konan væri byrjuð að safna upp dóti hjá honum.  Þá myndi styttast í að hún flytti inn.  Það var minni tími til stefnu en hann hafði haldið.”

Ritstjórn desember 11, 2019 14:02