Tengdar greinar

Ólafur Benediktsson markmaður Mulningsvélarinnar

„Óli  ver! Og Óli ver!“  Óliver. Þessu nafni kölluðu strákarnir í Mulningsvélinni í handbolta á áttunda áratugnum markmann sinn, Ólaf Benediktsson. Einn úr Mulningsvélinni sem ég talaði við sagði nokkrum sinnum: og hann var sá besti. Bestur! Óli Ben segir að Ómar Ragnarsson hafi upphaflega komið með nafnið þegar hann lýsti handboltakeppni í útvarpinu og eins og flestir vita eru þeir sem lýsa fremur ákafir þannig að markvarsla Óla Ben breytti nafni hans í Óliver. Mikið vatn hefur runnið til sjávar á rúmlega 40 árum og Óli Ben hvarf fólki sýn. En hvar er hann nú?

,,Lengst af bjó ég og starfaði í Reykjavík en hugur minn leitaði alltaf til sveitarinnar minnar í Grímsnesinu þar sem mér leið alltaf svo vel sem barni og unglingi. Árið 2007 bauðst mér að flytja í Grímsnensið . Hér hef ég búið síðan og hér líður mér best. Síðustu fjögur árin hef ég unnið fyrir frænku mína sem leigir út fiskeldi og sumarbústaðalönd,“ segir Óli, en fyllir líka upp í eyðurnar fyrir okkur: „Ég hef komið víða við á starfsferli mínum. Á handboltaárunum var ég að vinna hjá SKÝRR og er það án efa skemmtilegasti vinnustaður sem ég hef unnið á. Þar kynntist ég líka fyrstu eiginkonu minni. Í framhaldi vann ég á fasteignasölu í tvö ár, síðan sölustjóri hjá Glófaxa í um það bil fimmtán ár. Vann hjá góðum vinum mínum í Grímsnesinu í tvö ár við fiskeldi og fleira. Var síðan með innflutning á meðal annars auglýsingavörum fyrir íþróttafélög. Því næst vann ég við tryggingasölu í eitt ár og 2006 hóf ég störf fyrir ,,Gospel Channel“ Skandinavía“. Ég flutti síðan að Ljósafossi til að sinna þeim störfum og setti líka upp gistiheimili í skólanum og rak þar blómlega gististarfsemi í fimm ár, eða þar til ég hætti þar árið 2018. Meðfram þessum störfum á Ljósafoss vann ég fyrir frænku mína og frá 2018 hef ég eingöngu starfað fyrir hana“.

Óli lærði að spila handbolta í Breiðagerðisskóla í átta ára bekk.

,,Íþróttakennari þar var Árni Njálsson sem var landsliðsmaður bæði í fótbolta og handbolta. Hann sáði inn keppnisskapinu sem kom sér vel síðar. Ég á enn verðlaunapeninga fyrir unnin bekkjarmót frá 9 ára bekk. Ég byrjaði ekki að æfa handbolta með félagi fyrr en ég var 17 ára. Spilaði með Víkingi í 2. flokki sem útileikmaður. En þar voru þjálfaravandræði og skortur á skipulagi. Vinur minn dró mig þá yfir í Val. Þar fór ég í markið á einni æfingu þar sem vantaði markmann og í þeirri stöðu festist ég þó ég hafi verið alveg frambærilegur útispilari.

Ég var settur mjög fljótlega upp í meistaraflokk Vals og var síðan valinn í unglingalandsliðið. Við urðum Norðurlandameistar árið 1970, spiluðum eftirminnilegan úrslitaleik við Svía sem vannst með einu marki. Ég var valinn í A landsliðið 19 ára gamall og spilaði minn fyrsta landsleik við Dani sem við unnum að mig minnir 15-12.  Þetta var aðeins í annað skiptið  sem Ísland hafði betur gegn Dönum.  Litli feimni strákurinn var allt í einu í fyrirsögnum Íþróttablaða. Í einu blaði var fyrirsögnin „Ólafur sigraði Dani“ og  í öðru blaði „Danir gáfust upp gegn Ólafi Benediktssyni. Þetta var heldur mikið fyrir „litla drenginn“ á þessum tíma. Ég spilaði  á annað hundrað landsleiki og minn síðasta 1980, þá 28 ára gamall. Ég spilaði síðan með Val til ársins 1977, flutti þá til Svíþjóðar og spilaði þar í úrvalsdeildinni í 2 ár.“ En Ólafur gleymdi ekki Valsliðinu eftir tvö ár í Svíþjóð. Þá kom hann heim og lék með Val frá 1979 til 1981. ,,Svo flutti ég mig yfir í Þrótt og spilaði með þeim en síðan aftur með Val frá 79 til 81. Þá flutti ég mig yfir í Þrótt í tvö tímabil. Átti svo „comeback“ með Val 1990 og spilaði meðal annars með þeim í Evrópukeppni meistaraliða. Á frábærar minningar frá þessum árum, þykir vænt um fyrrum liðsfélaga mína og einnig mótherja. Það voru mikil átök inni á vellinum en allir góðir félagar utan vallar og þar átti ég marga góða vini. Valsliðið fékk viðurnefnið Mulningsvélin vegna magnaðrar varnar og markvörslu.“

Óli Ben var valinn í landsliðið sem keppti á Ólympíuleikunum sem voru haldnir í Munchen árið 1972. ,“Sex leikmenn úr mínu liði í Val voru valdir í landsliðið á þessum leikum. Þeir voru mjög eftirminnilegir, sorglegt að segja, vegna hryðjuverkaárásar Palestínuaraba á keppnismenn og íþróttaþjálfara Ísraela. Hryðjuverkamennirnir myrtu tvo í ólympíuþorpinu og tóku 9 gísla út á flugvöll. Þýska lögreglan hóf skothríð sem endaði með að allir gíslarnir voru drepnir ásamt 5 hryðjuverkamönnum. Ísraelar báðu um að fá að senda þaulreynda hermenn til að bjarga gíslunum en þýska lögreglan þóttist geta leyst málið. Það fór sem fór. Blokkin sem Ísraelar voru í var beint á móti okkar, sennilega ekki meira en 200 metra frá okkur. Við heyrðum mikinn hávaða og allt var lýst upp, þyrlur á sveimi og við vissum ekkert hvað var eiginlega í gangi fyrr en þetta birtist í sjónvarpinu. Í setningarathöfninni gengu Ísraelar næst á eftir okkur inn á leikvanginn og liðið var við hliðina á  okkur  á vellinum þegar athöfnin fór fram. Svo sáum við þessi sömu andlit í blöðunum dögum seinna, ungir menn í blóma lífsins. Allt var fullt af vopnuðum hermönnum á svæðinu eftir þetta. Þessi óhugnaður setti eðlilega mikinn skugga á leikana. Af árangri íslenska liðsins er það að segja að við vorum með unnin leik á móti Tékkum, en fyrir einhvern aulaskap misstum við hann niður í jafntefli. Tékkar enduðu á að komast í úrslitaleikinn á móti Júgóslavíu og við enduðum í 12. sæti á leikunum. Þetta var svona gömul saga og ný úr handboltanum.“

Hvað svo með einkalíf þitt, kona, maður, börn?

„Ég er fráskilinn og bý einn með Skugga mínum sem er svartur Labrador og svo var ég að missa elskulega kisu sem ég átti í tólf ár. Ég á þrjú yndisleg börn, Huldu 48 ára, Benedikt 38 ára og Sigríði Rakel 31 árs. Barnabörnin eru sjö og svo fjögur á ská. Ég á tvo nafna, Óla Ísak 9 ára og svo Óla Ben alnafna 7 ára. Benni minn var kominn í unglingalandsliðið sem markmaður og mér fannst hann „skrítinn“ að taka námið fram yfir handboltann,” segir Óli og brosir. „Fannst hann ekki eins skynsamur og pabbinn sem mátti aldrei vera að því að læra. Ég var alltaf í boltanum og ekki síst í djamminu,” segir Óli og skellihlær. „Auðvitað hefur Benni minn sannað það að hann vissi alveg hvað hann vildi og fór sínar eigin leiðir.“

Fylgistu mikið með handboltaleikjum núna? ,,Ég fylgist með leikjum í deildinni gegnum sjónvarpið, það er svo þægilegt, en fer lítið á leiki. Jú, ég á margar góðar minningar frá handboltaárunum og góða vini og þegar ég hugsa til baka er ekki laust við söknuð.“

Hvaða markmönnum hefurðu tekið eftir?

„Það eru nokkrir góðir sem komu á eftir mér, Einar Þorvarðar, Guðmundur Hrafnkels og svo Björgvin Páll sem hefur átt mjög góðan feril og fleiri. Nú  eigum við mjög spennandi framtíðarmarkmann, Viktor Gísla, sem á góða möguleika á að verða toppleikmaður. Nú vantar markmann sem spilar „alltaf“ vel eða á mjög jafna og góða leiki, svona eins og ég var, segir Óli og hlær, en útskýrir svo betur: „en ekki eins og of oft hefur verið, sveiflukennd frammistaða. Svíar og Frakkar hafa alltaf verið með topp markmenn sem vega svo þungt. Það er sagt að markmaður geti verið allt að 50% af liðinu. Ef varnarmaður klikkar þá  er markmaðurinn eftir, en ef markmaðurinn klikkar er mark“.

Ef þú fengir tækifæri til að byrja lífið að nýju, hverju myndirðu breyta, ef þá einhverju?

„Þetta er erfið spurning. Hvað ég myndi gera ef ég fengi nýtt tækifæri,“ segir hann og hugsar sig vel um alvarlegur á svip:

,,Þá myndi ég væntanlega læra og gera ekki sömu mistökin og ég hef gert í gegnum lífið. Ég hef oft farið í gegnum dimman dal, óregla um tíma og hjónaskilnaðir. En allt mótlætið leiddi mig á veg trúarinnar. Ég hrópaði á hjálp og Guð dró mig upp úr glötunargröfinni og hér er ég að vitna beint í Biblíuna. Ég á lifandi trú á Jesú Krist og hefur hann verið mér góður og gert mig að betri manni. Vildi að fleiri fengju að upplifa hann sem góðan vin og frelsara. Hann er svo raunverulegur og að ganga með honum í lífinu er stórkostlegt. Gleymum ekki að taka á móti þeirri gjöf sem hann færir okkur: eilíft líf. Án hans er ekki von. Hann er Vegurinn, Sannleikurinn og Lífið” segir Ólafur en verður svo kíminn og segir: „Svo kemur alvörupredikun síðar.“

Viðtal Anna Kristine

Ritstjórn apríl 15, 2020 08:59