Ólafur Egilsson fyrrverandi sendiherra

Ólafur Egilsson fyrrverandi sendiherra lauk störfum hjá Utanríkisráðuneytinu 2006 eftir að hafa gegnt sendiherrastöðum víða um heim fyrir Íslands hönd og verið í utanríkisþjónustunni í 40 ár. Hann bjó sem sendiherra í Bretlandi, Danmörku, Rússlandi og Kína, en fyrr á ferlinum í París og Brussel. Síðustu árin gegndi Ólafur svokallaðri heimasendiherrastöðu, var þá búsettur hér á landi en sinnti fimm löndum í SA-Asíu þar sem eru ekki íslensk sendiráð. Hann segir að af öllum stöðum þar  sem þau hjónin hafi búið slái engin borg Moskvu út, en þar voru þau þegar Sovétríkin og kommúnisminn hrundu 1991.

Ólafur er ekki vanur því að sitja auðum höndum og hefur tekið sér ýmislegt fyrir hendur þessi 14 ár síðan hann hætti fastri vinnu.

Fljótlega eftir að hann lét af sendiherrastarfinu varði hann nokkrum tíma til að kynna hugmyndir um að reisa á Vestfjörðum stöð til vinnslu á olíu sem þá var tekið að flytja frá Norður-Rússlandi á markað í Bandaríkjunum. Þessu segir Ólafur að hefði fylgt mikil uppbygging og atvinnusköpun í eina fjórðungi landsins sem sífellt glímdi við samdrátt og fólksfækkun. Slík stöð hefði einnig hraðað því að norður- og suðurfirðir Vestfjarðakjálkans yrðu eitt atvinnusvæði, þ.e. flýtt gerð Dýrafjarðarganga. En þrátt fyrir mikinn áhuga heimamanna og margvíslegan hag af slíkri nýrri og öflugri atvinnugrein í landinu strandaði málið á umhverfisráðuneytinu, sem Ólafur segir að hafi ekki þekkt né fengist til að kynna sér nýjustu framfarir í umhverfisþáttum rekstrar slíkra stöðva sem m.a. séu innan borga í sumum vestrænum löndum. “En nú hefur umdeilt fiskeldi í staðinn orðið til að örva athafnalífið vestra”, segir Ólafur og brosir.

Eitt af því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur er fararstjórn í landkynningarferðum. Hann hefur farið þrjár ferðir með hópa til Rússlands, nú síðast með Rótarýklúbb Seltjarnarness þar sem hann er meðlimur, og eina til Kína. “Ég hef orðið var við hvað er mikil vanþekking ríkjandi á þessum löndum. Þar sem ég hef kynnst þeim af eigin raun veit ég hversu heillandi þau eru á svo margan hátt. Gamlir pólitískir hleypidómar hafa mótað viðhorf manna hér allt of mikið. Ferðirnar voru sannast sagna vel heppnaðar og hafa þátttakendur hrifist af mörgu,” segir Ólafur. Og bætir aðspurður við að komið hafi til tals að hann fari fleiri ferðir til þessara landa þegar ferðamöguleikarnir opnast aftur. “Menningarsamskipti eru óskaplega mikilvæg til þess að þjóðir nái saman. Ég er á því að leiðtogar ríkja ættu að leggja mikla áherslu á að efla menningarsamskipti; einbeita sér að því að bæta hag eigin þjóðar og gera minna af því að reyna að kenna hver öðrum. Leggja mest kapp á að skapa heima fyrir hjá sér góðar fyrirmyndir. ”

Ólafur hefur verið búsettur á Seltjarnarnesi á milli þess sem hann hefur verið sendur út í heim. Um það leyti sem hann hætti störfum hjá ráðuneytinu voru átök í skipulagsmálum á Seltjarnarnesi um staðsetningu knattspyrnuvallar bæjarins. Fjöldi fólks var óánægt með áform bæjarfulltrúanna og Ólafur gekk í hóp manna sem andæfðu fyrirætlan þeirra. Þeir komu því til leiðar að völlurinn var settur fyrir neðan Valhúsaskóla, “og þar eru núna allir ánægðir með hann”, segir Ólafur. Þetta starf leiddi til þess að Ólafur var valinn til þess að halda tengsl hópsins við bæjarstjórnina. “Ég varð þar með varabæjarfulltrúi og fulltrúi í skipulagsnefnd og seinna formaður þeirrar nefndar,” segir Ólafur. “Í þetta fór nokkur tími fyrst eftir að ég hætti í ráðuneytinu og var mjög skemmtileg vinna.”

Ólafur var blaðamaður samtímis því að nema lögfræði í Háskóla Íslands. Það lá því beint við að hann aðstoðaði við útgáfu á “Seltirningi”, blaði Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi. Þá er hann gjarna beðinn um að fara yfir texta hjá vinum sínum. “Ég hef unnið mikið með texta í vinnu minni í gegnum tíðina og hef lesið yfir handrit bóka og greina sem vinir mínir hafa skrifað. Þetta er mér ánægja.”

Ólafur segist vera svo heppinn að halda enn góðu sambandi við gamla skólafélaga úr Verslunarskólanum og hittir þau reglulega. Hann hefur alla tíð verið félagslyndur. Tók eftir starfslokin í utanríkisþjónustunni m.a. að sér formennsku í Kínversk-íslenska menningarfélaginu um tíma og situr nú í stjórn Dansk-íslenska félagsins. Áður var hann m.a. lengi í stjórn Hins íslenska biblíufélags og er nú virkur í sóknarnefnd Seltjarnarneskirkju þar sem hann hefur m.a. staðið fyrir fjölbreyttum lista- og menningardagskrám.

Þá er vert að geta þess að árin 2007-2016 sat Ólafur í Orðunefnd Fálkaorðunnar og segist hafa glaðst yfir að taka þátt í því að fólk sem verðskuldar viðurkenningu fái hana.

Síðustu misserin hefur Ólafur varið töluverðum tíma í listamanninn Albert Thorvaldsen sem var af íslensku bergi brotinn. “Þegar ég kom til starfa í sendiráðinu í Kaupmannahöfn 1994 átti að fara að minnast þess að liðin væru 150 ár frá láti Thorvaldsens. Hann lést 1844 og hafði þá búið í Kaupmannahöfn frá 1838 en 40 árin þar á undan hafði hann verið í Róm þar sem frægð hans hafði risið hátt. Menn á þeim tíma vissu vel að faðir Thorvaldsens hafði verið Íslendingur og kölluðu hann sjálfan stundum Íslendinginn sem hann lét sér vel líka. Og árið1827 skóp hann í fegursta marmara skírnarfontinn sem nú er í Dómkirkjunni með áletrun um að gripurinn sé gerður í Rómarborg og gefinn ættarlandi listamannsins í ræktarskyni. Sjálfsmynd Thorvaldsens í Hljómskálagarðinum, fyrsta stytta á almannafæri í Reykjavík, var gjöf frá Kaupmannahafnarborg til Íslendinga í tilefni af þjóðhátíðinni 1874, því þar í landi voru menn þá mjög meðvitaðir um íslenskt faðerni Thorvaldsens. En ég varð þess glögglega var að mjög hefur fyrnst yfir vitneskjuna um tengsl þessa mikla listamanns við Ísland og hef því viljað stuðla að því að koma henni á framfæri á ný.”

Í nóvember sl. voru liðin 250 ár frá fæðingu Thorvaldsens og stóð Ólafur þá fyrir endurútgáfu ævisögu myndhöggvarans sem sr. Helgi Konráðsson  ritaði og kom út fyrst 1944. Var það forlagið Sæmundur/Bjarni Harðarson sem tók útgáfuna núna að sér og er bókin afar læsileg og falleg.

Ólafur er hvergi nærri hættur að aðhafast ýmislegt en segir að hann hafi lengst af ekki stundað reglulega beina líkamsrækt frá því hann iðkaði ungur handbolta, nema um skeið qi gong, “Ég hef ekki alltaf átt bíl og hef leitast við að fara ferða minna gangandi sem mest. Það hefur reynst mér vel,” segir Ólafur Egilsson sem hefur lagt sig fram um að halda huganum lifandi og fjörugum og nýtur lífsins mjög vel þrátt fyrir háan aldur.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

 

Ritstjórn janúar 14, 2021 07:48