Hristir upp í minningunum

Afastrákur í heimsókn. Markús Thorlacius Antonsson og Markús Örn Antonsson þykja líkir í útliti.

Markús Örn Antonsson er fæddur í maí 1943 og varð því áttræður fyrir skömmu. Eins og margir Íslendingar á árum áður missti Markús föður sinn í greipar ægis, þá aðeins 6 mánaða gamall. Hann kynntist honum því aldrei en nú er Markús að skrásetja sína sögu því hann veit hvers virði það er fyrir afkomendur að kynnast sögu forfeðranna og við hin fáum sannarlega að njóta góðs af. Eins og alþjóð veit hefur Markús komið víða við í þjóðlífinu og nú eru komin út 6 rit eða hefti sem hann kallar ,,Tímaflakk með Markúsi“ og eru aðgengileg á Rafrit.com. Það fyrsta kom út 2019 og nefnist ,,Sendill á fljúgandi ferð“ og segir frá því þegar Markús var ungur drengur sendill hjá Flugfélagi Íslands. Síðan eru komin 5 hefti, hvert um sitt tímabil í lífi Markúsar. Það sjötta kom út nýverið og var „hátíðarútgáfa“ í tilefni af áttræðisafmæli hans og nefnist ,,Á misjöfnu þrífast börnin best“ þar sem hann segir frá æsku sinni.  ,,Ég ætla ekki að láta staðar numið við fyrstu árin heldur ætla ég að segja uppvaxtarsögu mína í næstu heftum og þá er ég búinn að loka hringnum,“ segir Markús brosandi og hlakkar til komandi ára.

Tímaflakk Markúsar 

Markús fór á eftirlaun 2013 og fór fljótlega að hugsa yfir farinn veg. Í grúski sínu rakst hann á síður frá aðdáendaklúbbi Flugfélags Íslands á Facebook en þar höfðu meðlimirnir sett inn gamlar ljósmyndir. Markúsi þótti upplagt að setja inn texta í kringum myndefnið og þar með hófst hann handa við að skrifa niður endurminningar sínar frá því hann var sendill hjá Flugfélaginu. Þar með var komin hugmyndin að fyrsta heftinu í ritröðinni ,,Tímaflakki Markúsar“.

Markús og Sigrún Ása í gönguferð í Brielle fyrir sunnan Rotterdam.

Fyrir afkomendurna  til að eiga 

Á eftir upprifjun Markúsar af sendlastarfinu segir næsta hefti frá stofnun Sjónvarpsins 1966 en þar var hann annar af tveimur fyrstu fréttamönnunum. Síðar átti hann sæti í borgarstjórn Reykjavíkur í 14 ár og varð útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins árið 1985 til 1991 og aftur 1998 til 2005. Markús gegndi embætti borgarstjóra í Reykjavík 1991-1994 og er fjallað um það tímabil sérstaklega.

Markús var sendiherra Íslands í Kanada 2005 til 2008 og tók við embætti forstöðumanns Þjóðmenningarhússins 2008 þar til hann fór á eftirlaun 2013. Í tilefni af 80 ára afmæli Markúsar í maí 2023 sagði hann frá bernsku sinni í Reykjavík og nefnir það hefti ,,Á misjöfnu þrífast börnin best.

,,Í Tímaflakkinu ætla ég ekki að láta staðar numið nú við fyrstu bernskuárin heldur ætla ég að halda áfram að segja frá skólagöngunni og samferðamönnum og leiðinni út í lífið,“ segir Markús. ,,Þá verður lífshlaup mitt orðið nokkuð vel yfirfarið en til þess þarf ég að skrifa fáein hefti í viðbót,“ segir Markús og brosir. ,,Ég hef haft í huga að þessi skrif séu tómstundaverkefni fyrir mig nú þegar ég er kominn á eftirlaun auk þess sem ég vil halda mér við í faginu sem ég kann dável sem er að vinna eins og blaðamaður og taka myndir. Og síðast en ekki síst að hanna þessi rit og koma þeim fyrir á rafrænu formi. Ég mun svo líklega setja Tímaflakkið á pappír í takmörkuðu upplagi fyrir afkomendur mína til að eiga.“

Tölvufærni ómetanleg

Ísabella Tara á sviði í Rotterdam.

,,Ég hef verð að koma skrifum mínum á framfæri við vini mína á Facebook og bendi áhugasömum á leiðir til að nálgast þau,“ segir Markús. ,,Ég veit að þegar fólk er komið á minn aldur hafa flestir gaman af að rifja upp og láta hrista upp í minningunum. Ég hef verið að vinna þessar endurminningar í tölvunni en ég fylgdist eðlilega vel með tölvu- og tækniþróun í störfum mínum fyrir fjölmiðla.“

Vel með á nótunum þegar tölvuöldin brast á

Markús hefur verið meðlimur í Rótarýklúbbi Breiðholts frá 1983 og hefur haft verkefni á vegum Rótarýhreyfingarinnar eftir að hann fór á eftirlaun. Það verkefni er við ritstjórn tímaritsins Rotary Norden sem er sameiginlegt félagsblað Rótarý á Norðurlöndunum. ,,Nú er þetta tímarit gefið út á rafrænu formi og þá gátum við ritstjórarnir komið að hönnuninni sjálfri sem hefur verið geysilega skemmtilegt. Nýlega hætti ég sem ritstjóri en ég er enn í útgáfustjórninni. Ég hef auk þess fylgst vel með því sem er að gerast hjá Rótarýklúbbunum á Íslandi sem eru rúmlega 30 talsins.“

Markús tók að sér að sjá um heimasíðuna fyrir Rótarý á Íslandi  og að koma inn efni á Word Press formi. Hann hefur sett sig inn í nýja tækni á markvissan hátt og segir hlæjandi frá því að hafa byrjað ,,í blýinu“ á Morgunblaðinu þar sem hann var blaðamaður í sumarafleysingum á námsárunum í MR. Þá var hann lengi ritstjóri fyrir Frjálsa verslun sem Jóhann Briem gaf út. ,,Á þeim tíma fórum við úr blýi yfir í offsettið og ég hef haft mikið gaman af því að fylgjast með tækniframförum í faginu,“ segir hann og þegar tölvuöldin gekk í garð var Markús vel með á nótunum.

„Tímaflakk með Markúsi“ er aðgengilegt á issuu.com og Rafrit.com.

Rafrit.com – Hljómaldan

Markús langaði til að prófa að búa til ,,podkast“ eða hlaðvarp sem hann nefndi Hljómaldan. Hann fékk aðstoð Google við að búa til heimasíðu sem nefnist Rafrit.com og þar getur fólk nálgast efnið sem Markús hefur verið að vinna á rafrænan hátt. Þar er til dæmis hægt að finna upprifjun Péturs Guðfinnssonar, fyrsta framkvæmdastjóra Sjónvarpsins og útvarpsstjóra þar sem hann segir frá undirbúningi að stofnun íslenska sjónvarpsins. ,,Pétur  var  93 ára gamall í fyrra og sagði þá þessa merkilegu  sögu á mjög skilmerkilegan hátt og ég tók hana upp. Nú er svo góður aðgangur að öllum forritum og hjálpartækjum á netinu og ég hef reynt að nýta mér þá tækni mjög vel.“

Nauðsyn þess að hafa verkefni 

Markús segir að hann og Steinunn Ármannsdóttir, eiginkona hans reyni að gæta þess að hreyfa sig eins og aðstæður leyfa hvar sem þau eru stödd. ,,Þessa dagana sakna ég sundsins. Við hjónin höfum stundað Vesturbæjarlaugina mjög stíft til margra ára en þar er lokað núna vegna viðgerða,“ segir Markús. ,,Reyndar hafa verið löng hlé á sundlaugaferðunum undanfarin þrjú ár af því

Steinunn og Markús með fólkinu sínu í Englandi: Jón Daníelsson, Sigrún Ása Markúsdóttir og Steinunn. Markús var “ á bak við myndavélina“.

við höfum verið úti í Rotterdam með annan fótinn. Þar höfum við stundað gönguferðir kappsamlega við bestu aðstæður. Sonardóttir okkar er þar í ballettnámi og var of ung þegar hún hóf það nám til að geta fengið leiguíbúð upp á eigin spýtur. Þá tókum við okkur saman nokkur í fjölskyldunni og leigðum sameiginlega húsnæði svo Ísabella Tara Antonsdóttir fékk þar húsaskjól,“ segir Markús og brosir. ,,Sigrún Ása dóttir okkar tók íbúðina á leigu með okkur en hún er búsett í London ásamt Jóni Daníelssyni eiginmanni sínum. Þar starfar hún sem starfsmannastjóri fyrir Evrópu hjá stofnun sem heitir International Rescue Committee og er flóttamannaaðstoð. Stofnunin er með höfuðstöðvar í New York en er með útibú í nokkrum borgum í Evrópu. Það kom sér ágætlega fyrir Sigrúnu Ásu að vera stundum í Rotterdam þaðan sem stutt er fara til Brussel, Bonn og Berlínar, þar sem IRC rekur skrifstofur. Við Steinunn kunnum svo vel við okkur í Rotterdam að við höfum varið töluverðum tíma þar og notað tækifærið og ferðast talsvert um Evrópu. Nú er Ísabella Tara orðin tvítug og sér um sig sjálf en við ætlum að halda íbúðinni fram á haust því okkur hefur þótt mjög skemmtilegt að kynnast hollenskri menningu.“

Þýðingarmikið að hitta gamla félaga

Fjölskyldukaffi heima hjá Steinunni og Markúsi. Á myndinni eru Markús Thorlacius Antonsson, Anton Björn Markússon, Sigríður Thorlacius, Ísabella Tara Antonsdóttir, Markús og Steinunn, Katrín Steinunn Antonsdóttir og Davíð Örn Hákonarson.

Markús segist vera viss um að það skipti hvað mestu máli að vera í góðu sambandi við nærsamfélag sitt þegar árin færist yfir. ,,Ég hitti gamla starfsfélaga úr Sjónvarpinu reglulega og svo hitti ég auk þess Rótarýfélagana einu sinni í viku. Við Steinunn höfum síðan lagt mikla áherslu á að vera í góðum tengslum við afkomendurna. Það er ekki fjölmennur hópur því við eigum tvö börn og til skamms tíma voru barnabörnin bara tvær yndislegar stúlkur, Ísabella Tara og Katrín Steinunn, dætur Antons Björns sonar okkar, sem er hæstaréttarlögmaður  í Reykjavík, og Helenar Ólafsdóttur, fyrrverandi eiginkonu hans. Svo bættist við lítill snáði fyrir skömmu sem nú er á öðru ári og heitir Markús Thorlacius Antonsson,“ segir Markús stoltur. Móðir hans er Sigríður Thorlacius ,,Allt þetta fólk er okkar ríkidæmi sem við njótum að vera í góðum samskiptum við“ segir Markús Örn sem hlakkar til framtíðarinnar og er með mörg spennandi verkefni á prjónunum.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 9, 2023 07:00