Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprestur sinnir embættisverkum 17. júní. Honum finnst hátíðleiki dagsins síst dvína með árunum. „Sautjánda júní ræðurnar eru hins vegar að verða einhæfari. Stjórnmálamenn eru alltaf að vísa í það sama. Það er orðið þreytt að tala um Jón Sigurðsson og vitna í ljóð eftir Hannes Hafstein.“
Það er messa í Dómkirkjunni. „Ég er yfirleitt við embættisverk á þessum degi. Fyrst messa ég og svo sinni ég gjarnan einhverjum prestverkum í eftirmiðdaginn. Það eru margir sem velja þennan dag til að gifta sig eða skíra börn sín. Fólk velur þennan dag til að búa til sínar eigin eftirminnilegu stundir,“ segir Hjálmar.
Þegar hann er spurður hver sé eftirminnilegasti þjóðhátíðardagurinn, vefst honum tunga um tönn, hugsar sig um í nokkrar mínútur og segir svo að þrír þjóðhátíðardagar séu honum ofarlega í huga: „Það var 17. Júní 1971 þá brautskráðist ég sem stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri. Ég var þá farinn að velta því fyrir mér að fara í guðfræði í Háskóla Íslands en ekki búinn að ákveða mig fyrir fullt og fast. Ákvörðunina tók ég síðar um sumarið þá höfðu flestir félaganna ákveðið að fara í lögfræði. Í dag eru sumir þeirra virðulegir dómarar.
Þann 17. Júní árið 2000 vorum ég og kona mín að ganga niður Bakarabrekkuna á leið niður í miðbæ þegar við fundum stóra skjálftann. Þetta var í fyrsta skiptið á ævinni sem ég tók eftir jarðskjálfta. Ég áttaði mig strax á því að þetta væri stór skjálfti en mér brá samt ekkert mikið.
Forseti Íslands sæmdi mig fálkaorðunni á Bessastöðum árið 2006. Eftir að mér var tilkynnt um að ég ætti að fá orðuna velti ég því fyrir mér hvort það fælist meiri auðmýkt í því taka á móti fálkaorðunni eða hafna henni. Mér fannst þó að með því að afþakka sýndi ég hroka. En ég velti því samt sem áður lengi fyrir mér hvort að ég væri eitthvað merkilegri en aðrir menn og hvort ég ætti fálkaorðuna skilið. Mér finnst ég ekkert merkilegri en aðrir,“ segir Hjálmar.