Undir áhrifum

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson, verkfræðingur og doktorsnemi skrifar

Bandaríski blús-gítarleikarinn B. B. King er einn af merkustu og áhrifaríkustu tónlistarmönnum umliðinna áratuga. Sjónvarpið sýndi fyrir nokkru heimildarmynd um King, Lífshlaup Rileys, sem næsta víst er að hafi höfðað til margra, jafnt til áhugasamra blúsunnenda sem og annarra. Þar er einkar góð umfjöllun um þennan mikla gítarsnilling, um blúsinn sem allt líf hans hefur snúist um, og um Bandaríkin á tuttugustu öld. Meðal þess sem stendur upp úr eftir að hafa horft á myndina, er sú áhersla sem lögð var á áhrifavaldana í lífi B. B. Kings og á tónlist hans og gítarleik. En einnig var fróðlegt að heyra í öllum þeim heimsþekktu tónlistarmönnum, sem rætt er við í myndinni, og hvernig þeir sögðu frá því hvað B. B. King hefði haft mikil áhrif á þá og listsköpun þeirra. Íslandsvinurinn Eric Clapton og allir hinir gítarsnillingarnir, sem rætt er við, voru ekkert að fela hvað þeir eru og hafa verið undir miklum og strekum áhrifum frá B. B. King.

Lífshlaup Rileys leiðir hugann að því, að ætla má að eitt af einkennum mikilla listamanna, eins og þeirra sem fram komu í myndinni, er sú áhersla sem hver og einn leggur á áhrifavaldana í listinni. Þetta á auðvitað ekkert eingöngu við um B. B. King eða þá sem hann hefur haft áhrif á. Önnur stór nöfn, sem hafa ekkert með þessa heimildarmynd að gera, eins og til dæmis Bob Dylan, Paul McCartney og Adele, svo einungis þrjú nöfn séu nefnd, hafa greint frá því í viðtölum í fjölmiðlum og annars staðar, hverjir hafi haft mest áhrif á þá. Er þá eðlilega oftast um að ræða eldri tónlistamenn, en þó ekki eingöngu. Við þurfum reyndar ekkert að fara út fyrir landsteinana til að finna listamenn sem viðurkenna fúslega að þeir hafi verið undir áhrifum frá öðrum listamönnum. Hver man til dæmis ekki eftir annarri plötu súpergrúppunnar Trúbrots, sem ber einmitt yfirskriftina Undir áhrifum, af augljósum ástæðum?

En hvaða merkingu eða þýðingu hefur að listamenn séu undir áhrifum frá öðrum og greini fúslega frá því, og án þess að það þyki eitthvað slæmt? Eitt svar við þeirri spurningu gæti verið, að viðkomandi séu þar með að viðurkenna að þeir nýti þá þekkingu sem fyrir er, að þeir læri af reynslu annarra. Það þarf nefnilega ekki alltaf að finna upp hjólið. Þetta á að sjálfsögðu ekki bara við um listir en hlýtur að eiga við á fleiri sviðum. Þetta viðurkenna hins vegar ekki allir. Það er nefnilega eins og til sé fólk sem geti ekki sætt sig við að aðrir hafi haft eitthvað til málanna að leggja. Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt til að finna dæmi um slíkt.

Forsætisráðherra sagði í útvarpsviðtali um daginn, að það samrýmist ekki stefnu stjórnvalda að fallast á allt sem síðasta ríkisstjórn hefði verið tilbúin að fallast á. Það samrýmist ekki stefnu stjórnvalda að samþykkja allt! En hvað með ef þetta allt væri bara í fínu lagi? Hvað þá? Nei. Það samrýmist ekki stefnunni að samþykkja allt, sama hvað. Þetta er auðvitað ekki hægt að skilja öðruvísi en svo, að það sé stefna núverandi stjórnvalda að fallast ekki á allt það sem hinir á undan vildu gera, ekki einu sinni þó svo að núverandi stjórn væri hugsanlega í hjarta sínu samþykk einhverjum þeirra mála. Vera á móti til að vera á móti. Þetta kemur auðvitað heim og saman við gjörðir þessa fólks. Með þessum hætti hófst ferillinn strax eftir síðustu kosningar. Dæmin liggja fyrir.

Eins og svo algent er með listamenn, sem eru undir áhrifum frá öðrum listamönnum, þá er ekki úr vegi að ætla að það sama eigi við um forsætisráðherrann. Ekki þannig að hann sé svo undir áhrifum frá listamönnum, auðvitað ekki, heldur að hann sé undir áhrifum frá fyrrverandi forsætisráðherra. Einn slíkur lýsti sjálfum sér með eftirminnilegum hætti í viðtalsbók sem kom út fyrir hálfum öðrum áratug. Þar sagði þessi fyrrverandi forsætisráðherra um hlutverk sitt í stjórnarandstöðu, eftir að hafa verið við stjórnvölin í langan tíma, að hann hjóli í öll mál, jafnvel þó hann væri í hjarta sínu samþykkur þeim, því hann líti á stjórnarandstöðu sem stjórnarandstöðu. Semsagt, að vera á móti til að vera á móti. Alls ekki viðurkenna, eins og alvöru listamenn gera, að hægt sé að nýta framlag annarra. Að minnsta kosti ekki ef viðkomandi er á öndverðu meiði í pólitík. Það hefði mátt halda að svona afstaða þætti úrelt í dag. En, svo virðist ekki vera.

Stundum er talað um að lífið hermi eftir listinni. Það færi betur á því að stjórnmálamenn myndu einmitt gera slíkt, og að þeir myndu velja að vera undir áhrifum frá miklum listamönnum, í stað þess að láta fyrrverandi stjórnmálamenn, sem höfðu lítið fram að færa, hafa of mikil áhrif á sig. Heimildarmyndin um B. B. King er sönnun þessa.

 

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson janúar 19, 2015 10:08