Orðin formaður Öldungaráðs Reykjavíkur

Guðrún Ágústsdóttir formaður Öldungaráðs Reykjavíkurborgar segir það brýnasta málið í höfuðborginni í dag að byggja fleiri hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Það sé átakanlegt að horfa uppá vandann sem blasi þar við. „Heilbrigðisráðherra greindi frá því á síðasta ársfundi Landsspítalans að það þyrfti að byggja ný hjúkrunarheimili fyrir 500 manns á næstu 5-6 árum og þorri þeirra þyrfti að vera á höfuðborgarsvæðinu“, segir hún og bætir við að komið sé í algert óefni varðandi hjúkrunarheimilamálin.

Þrengsli og endalausar sýkingar

„Aldraðir sem gætu verið á mun betri og hagkvæmari stöðum dvelja allt of lengi inná sjúkrahúsum“, segir hún. Á deildum þar sem aldraðir liggi séu aðstæður oft óviðunandi bæði fyrir starfsmenn og sjúklinga. Mikil þrengsli og endalausar sýkingar. Einangrun sem fylgir svona sýkingum dragi úr möguleikum á endurhæfingu og bata.

Dýrt að nýta ekki reynslu og þekkingu

Guðrún bendir á að eldra fólk í borginni frá 60-100 ára sé ekki einsleitur hópur. „Þetta fólk er jafn margbreytilegt og í öðrum aldurshópum. Okkur hættir stundum til að setja alla undir sama hatt“, segir hún. „Það er stór hópur aldraðra sem býr ekki við efnahagslegt öryggi þó aðrir hafi það gott. Ég tek heilshugar undir það að eftirlaunafólki verði tryggðar 300 þúsund króna lágmarkstekjur. Það er sorglegt að vita af eldra fólki sem er fátækt. Þetta fólk á ef til vill ekki kost á að vinna, það virðist því miður enginn hafa áhuga á að ráða fólk sem komið er yfir fimmtugt í vinnu hvað þá enn eldra fólk. Það verður dýrt fyrir samfélagið að nýta sér ekki reynslu og þekkingu eldra fólks“, segir hún.

Guðrún Ágústsdóttir

Guðrún Ágústsdóttir

Rökrétt framhald

Fyrir 45 árum tók Guðrún Ágústsdóttir þátt í að stofna Rauðsokkahreyfinguna. Hún átti síðar eftir að hasla sér völl í pólitíkinni og verða forseti borgarstjórnar Reykjavíkur um árabil, önnur konan sem gegndi þeirri stöðu. Nú er hún formaður Öldungaráðs Reykjavíkurborgar, en það er nýtt ráð sem var sett á laggirnar í vetur. Þegar hún er spurð hvort formennskan þar sé rökrétt framhald á því sem hún hefur áður gert svarar hún „Tvímælalaust“.

Farin að þekkja málin af eigin raun

„Þegar ég byrjaði í félagsmálaráði Reykjavíkurborgar árið 1982 voru öll öldrunarmálin inná okkar borði. Málaflokkurinn varð mér mjög hugleikinn og ég reyndi að setja mig í spor eldri kynslóðarinnar á þeim tíma, en vissulega horfa þessi mál öðruvísi við þegar ég er sjálf komin á eftirlaunaaldur og farin að þekkja þessi mál af eigin raun. Það hittist þannig á að um það leyti sem ég var að taka við formennsku í ráðinu, þá veiktust bæði mamma og tengdamamma. Mamma þurfti að leggjast inn á sjúkrahús, þar sem hún lá í fimm mánuði. Hún lést í lok maí á Vífilstaðaspítala í bið eftir hjúkrunarplássi rúmlega níræð en tengdamamma sem líka er rúmlega níræð er aftur á móti komin í yndislegt herbergi á Hrafnistu í Hafnarfirði“.

Finnur engan mun

„Ég finn engan mun á mér núna og fyrir 20 árum“, heldur Guðrún áfram. „Hárið gránar og ég er komin með fleiri hrukkur. En ég er miklu duglegri að ganga en áður, enda hef ég meiri tíma núna til að gera það. Ég stunda yoga með góðum vinkonum og það er langt í frá að mér finnist ég gömul, en ég veit að það breytist ef heilsan fer að bila. Efnahagslegt öryggi skiptir gamalt fólk auðvitað mjög miklu máli, eins og ég minntist á áðan. Það nístir mann að sjá fólk sem maður þekkir, aðallega konur sem geta engan veginn náð endum saman. Konur sem eru hreinlega fátækar og geta ekki tekið þátt í neinu sem kostar peninga. Auðvitað geta vinir og fjölskylda hjálpast að, en það er betra að samfélagið stuðli að því að allir geti lifað með reisn“. Guðrún segir að margt hafi þó breyst til batnaðar með tilkomu almenna lífeyrissjóðakerfisins.

Öldungaráðið f.v. Kjartan Magnússon, Guðrún Ágústsdóttir, Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Sveinn Grétar Jónsson. Á myndina vantar Hrafn Magnússon / mynd af vef Reykjavíkurborgar

Öldungaráðið f.v. Kjartan Magnússon, Guðrún Ágústsdóttir, Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Sveinn Grétar Jónsson. Á myndina vantar Hrafn Magnússon / mynd af vef Reykjavíkurborgar

Hafa betri tíma en embættismenn

Öldungaráðið hjá Reykjavíkurborg er skipað 5 mönnum og hlutverk þess er að meðal annars að veita ráðgjöf, koma með tillögur og veita umsagnir um hvaðeina sem snertir eldri borgara. Hún segir að ráðið verði tengiliður milli borgarinnar og ýmissa hagsmunasamtaka eldri borgara. „ Við erum með tillögur og upplýsingar um það sem betur má fara og það sem við höfum umfram embættismennina, er að við erum öll nema einn, orðin 67 ára og eldri og höfum meiri tíma en yfirhlaðið starfsfólk borgarinnar“.

Eru að kynna sér aðstæður í borginni

Guðrún segir að ráðið hafi að undanförnu verið að kynna sér starfsemi í þágu aldraðra í borginni bæði félagsmiðstöðvar og hjúkrunarheimili. „Það er margt verulega gott í gangi í Reykjavík þegar kemur að eldra fólkinu“, segir hún. „Það er líka verið að opna íþróttasalina fyrir eldra fólki á morgnana, fyrir gönguhópa, en margt eldra fólk hreyfir sig mikið og það eru margir gönguhópar í gangi. Hjá Korpúlfum í Grafarvogi sáum við mjög líflegt félagsstarf og þegar við spurðum að því hvort ekki væri erfitt að koma nýr inn í svona gróinn hóp, var okkur sagt að þess væri gætt að taka vel á móti nýjum félögum. Þegar fólk kemur þar inn er búið að rjúfa vissa einangrun og í Hæðargarði hlustuðum við á fólk að lesa ljóð, bæði frumsamin og eftir skáldin okkar, undir handleiðslu Soffíu Jakobsdóttur leikara. Í þessu er fólgin töluverð heilaþjálfun“, segir hún.

Það er margt jákvætt við að eldast í Reykjavíkurborg/mynd af vef Reykjavíkurborgar

Það er margt jákvætt við að eldast í Reykjavíkurborg/mynd af vef Reykjavíkurborgar

Spennandi verkefni

Hún segir að það verði mjög spennandi að taka þátt í að þróa borgina sem aldursvæna borg, en nýlega samþykkti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO, umsókn um að Reykjavík bættist í hóp aldursvænna borga. „Þetta getur orðið spennandi og mikilvægt fyrir öldungaráðið og forvitnilegt að læra af öðrum aldursvænum borgum. Það er hægt að breyta svo miklu ef hlutirnir eru settir í samhengi“, segir hún. Hún segir að samþætting þjónustu heilsugæslunnar og velferðarsviðs borgarinnar feli í sér tækifæri. Það sé þá hægt að meta þjónustuna í samhengi við annað. „Það er kannski ekki endilega málið að skúra í kringum gamalt fólk þó það sé sannarlega mikilvægt. Það er margt annað sem skiptir ekki síður máli“.

Opinn borgarstjórnarfundur

„Við erum núna að undirbúa opinn fund borgarstjórnar og öldungaráðsins sem verður haldinn seint í september. Við erum meðal annars að horfa til þess að 100 ár eru liðin frá því íslenskar konur fengu kosningarétt og það er athyglisvert að sjá, að eldri konur nýta kosningaréttinn síður en eldri karlar. Þetta á einkum við konur á aldrinum 75 ára og eldri. Það þarf að kanna hvað veldur þessu“, segir hún.

 

Ritstjórn júlí 10, 2015 11:55