Orkumikill yfirsetumaður

 ,,Þau sem eru í yfirsetu í prófum eru oftast einstaklingar á eftirlaunaaldri með víðtæka reynslu víðsvegar úr samfélaginu. Hópurinn er nokkuð stór, allt að 30-40 manns að minnsta kosti. Við höfum valið þetta verkefni að ýmsum ástæðum en oftast kýs fólk að hafa eitthvað fyrir stafni.“ Þarna talar maður sem í nokkur ár hefur starfað  við yfirsetu í prófum hjá háskólanemum, en sumir segja að þegar yfirsetufólkið birtist í háskólunum sé það fyrsti fyrirboði þess að jólin séu að koma. Yfirsetumaðurinn sem Anna Kristíne talaði við við heitir Guðjón Skúlason, er 71 árs, á tvö uppkomin börn og sex barnabörn.

,,Ég ólst upp á Selfossi og spilaði fótbolta þar í gegnum yngri flokka og meistaraflokk en hætti þegar ég var um 25 ára gamall, enda fluttur til Reykjavíkur til náms,“segir Guðjón. ,,Í Reykjavík hef ég búið meira og minna síðan með nokkrum undantekningum. Bjó fáein ár í Kópavogi, eitt ár í Hnífsdal þegar ég kenndi í Menntaskólanum á Ísafirði og var eitt ár í London, Kanada. Þar settust margir að af breskum ættum svo að finna má þar ána Thames og götuna Oxford street.  Ég stunda golf á sumrin, hef ferðast mikið um landið bæði með ströndinni og inn til landsins jafnt fótgangandi sem og keyrandi. Ég hef líka ferðast mikið í útlöndum, m.a. um Kanada þvert og endilangt.“

Orkubúntið vildi að sjálfsögðu ekki sitja með hendur í skauti þegar eftirlaunaaldurinn gekk í garð:

,,Eftir að ég fór á eftirlaun lauk ég leiðsögumannanámskeiði og meiraprófi og hef verið nokkur ár í leiðsögn auk þess að sinna yfirsetu því ég var ekki tilbúinn að setjast í helgan stein eins og sagt er, en nú eru komin um 4-5 ár sem ég hef verið í þessu tvennu. Áður fyrr vann ég lengst í Landsbankanum, en þar á eftir var ég mannauðsstjóri í Tryggingastofnun.,“

Segðu okkur frá þessu tímabili sem yfirsetan stendur yfir: 

,,Yfirsetan er tímabundið starf oftast tvisvar á ári, að vori í apríl og síðan í loka haustannar í nóvember. Á þessum tíma er mikið að gera í samfellt tvær vikur hvoru sinni. Þá standa próf allan daginn, fyrst að morgni, kl. 9-12 og svo aftur síðdegis frá kl. 14-17. Þar á eftir eru nokkur próf á stangli í nokkra daga til viðbótar. Prófin taka oftast þrjá tíma en stundum fjóra. Nemendur sem eiga rétt á lengri tíma, af ýmsum ástæðum, fá 15 mínútur til viðbótar fyrir hverja klukkustund. Almennt ganga prófin eðlilega og vandræðalaust fyrir sig, enda flestir nemendur mjög ljúfir og þægilegir í samskiptum.

Fólk hittist í upphafi próftímans hvern dag og líka í kaffipásum og spjallar saman. Við mætum til prófstjóra klukkutíma fyrir próf. Þar er farið yfir prófin sem framundan eru. Að þeim fundi loknum förum við með prófgögn í prófstofur og undirbúum komu nemanda. Þeim er hleypt inn í stofur um 10-15 mín. fyrir próf.  Þau eru minnt á prófreglur og annað sem skiptir máli sem þau verða að virða á meðan að próf stendur. Við höfum svo eftirlit með því að allt gangi eðlilega fyrir sig og kyrrð ríki í stofu á próftíma. Nemendur skila úrlausnum til okkar við próflok og við söfnum þeim saman og göngum frá þeim eins og fyrirmæli segja til um. Við sem erum í yfirsetu eigum að halda vöku okkar á meðan próf stendur og þar af leiðandi er ekki heimilt að sinna einhverju öðru á meðan, eins og að lesa bók eða eitthvað þess háttar.“

 

Ritstjórn desember 12, 2019 08:40