Óskiljanleg skemmdarfýsn

Steingerður Steinarsdóttir nýr ritstjóri Lifðu núna

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

 

Þegar við hjónin fluttum í húsið okkar fyrir sextán árum áttum við sex ára gamla tík. Hana þurfti að viðra tvisvar á dag og við vorum fljót að kynnast hverfinu með hennar hjálp, finna þægilegar, krefjandi, fallegar, áhugaverðar og skemmtilegar gönguleiðir. Ein slíkra var upp á hæð rétt handan við heimilið og efst á henni var opinn sexhyrndur útsýnisturn Þar settumst við gjarnan á bekk, innbyggðan í þetta litla mannvirki og nutum þess að horfa til fjalla, út á sjó og yfir borgina.

Gæludýrin okkar lifa styttri ævi en við og eftir að við misstum dýrið okkar hætti ég að ganga uppáhaldsleiðirnar. Þegar önnur lítil tík kom inn í líf okkar reyndust þarfir hennar aðrar, aðallega að elta bolta, svo ég hafði ekki komið í turninn á hæðinni í langan, langan tíma þegar ég rölti þangað um daginn. Mikið ofboðslega brá mér við þá sjón sem þar blasti við. Búið var að brjóta og bramla allt sem hægt var, grindverkið og bekkinn góða. Súlurnar sem halda upp þakinu höfðu verið stórskemmdar og mesta furða að enn hékk byggingin saman og þakið uppi. Hér og þar sáust greinileg merki um að reynt hafði verið að kveikja í timbrinu og einhver hafði fengið útrás fyrir sköpunarþörfina, hvar sem hæglega mátti ná til, með spreybrúsa af mun meiri vilja en mætti.

Ég verð að viðurkenna að mér lá eiginlega við gráti. Þetta var svo ömurleg aðkoma og svo gersamlega tilgangslaust skemmdarverk. Auðvitað hef ég áður upplifað eitthvað svipað. Komið að bekk sem einhver hafði merkt til minningar um látinn ástvin og einhver hafði gert heiðarlega tilraun til að eyðileggja, ætlað að nota grill í almenningsgarði sem einhver smekklegur hafði fyllt af hundaskít og séð mismunandi lélegt graffíti á húsveggjum og í undirgöngum borgarinnar. Ég minnist þess líka þegar ég var unglingur að símaklefar borgarinnar voru eilíflega skotspónn skemmdarvarga og ef maður þurfti að hringja í foreldra sína fyrir tíma farsíma var allt eins víst að búið væri að klippa tólið af símanum eða stífla raufina sem tíkallinn átti að detta niður um.

Hvað rekur fólk til að gera þetta? Hvað fær einhver út úr því að eyðileggja, eyðileggingarinnar vegna? Mér er það óskiljanlegt, sérstaklega vegna þess að töluvert er fyrir þessu haft. Það þarf bæði krafta, elju og góð verkfæri til að geta skemmt jafnrækilega og þarna hafði verið gert. Hvað var það við þennan notalega stað sem kveikti slíkan ofsa innra með einhverjum einstaklingum að þeir finndu hjá sér ómótstæðilega hvöt til að ganga fram af algjöru hamsleysi?

Ég var þungt hugsi þegar ég gekk heim og það verður bið á að ég leggi á mig ferð upp í útsýnisturninn góða. Viðurstyggð eyðileggingarinnar er of ömurleg til að ég hafi löngun til þess. Ég var líka óskaplega fegin að ég hafði ekki átt leið vestur í bæ eftir að einhver hafði makað gylltri málningu á styttu Einars Jónssonar, Útlegumanninn. Þetta áhrifamikla listaverk kom alltaf út tárunum á dóttur minni þegar við fórum með hana litla í kirkjugarðinn fyrir jólin. Hún fékk að leggja kerti á leiðið hjá langömmu sinni og -afa og svo að skoða Útilegumanninn. Í hvert sinn spurði hún þess sama: Er konan hans örugglega dáin? Er hún ekki bara sofandi? En mamma bjargast ekki barnið örugglega? Við sömdum margar sögur um þetta fólk og allar enduðu þær vel því hún afbar ekki annað. Ég er líka jafnfegin að stytta Ásmundar Sveinssonar af Fyrstu hvítu móðurinni í Ameríku, Guðríði Þorbjarnardóttur hafi fundist nokkuð óskemmd og sé komin aftur á sinn stað á Laugabrekku. Þar fór betur en á horfðist. Útsýnisturninn okkar í hverfinu mínu mun hins vegar aldrei aftur verða svipur hjá sjón og enginn njóta hans framar.

Steingerður Steinarsdóttir maí 23, 2024 07:00