Óþægilegt að vera þekkt persóna á Íslandi

„Mér hefur aldrei fundist lífið jafn gott og skemmtilegt og mér finnst það í dag,“ segir Gunnar Sigurðsson ferðafrömuður og leikstjóri. Það blés hressilega um Gunnar á árunum eftir hrun. Hann missti allt sitt í hruninu. Í kjölfarið gerði hann í samstarfi við aðra heimildamyndina „Mabe I Should have“  sem var frumsýnd árið 2010.  Í myndinni er fjallað um orsakir og afleiðingar bankahrunsins á Íslandi. Tekið var á fjölmörgum þáttum svo sem spillingu, vinaráðningum, frændhygli, einkavæðingu bankanna, skattaskjólum og tengslum milli stjórnmála og viðskiptalífs. Í myndinni var líka fjallað um Búsáhaldabyltinguna, Borgararhreyfinguna og viðbrögð íslenskra stjórnvalda við aðvörunum í aðdraganda hrunsins. Myndin vakti töluverða athygli bæði hér heima og erlendis og næstu tvö árin var Gunnar á ferð og flugi um heiminn með myndina og til að halda fyrirlestra um hrunið og afleiðingar þess. „Mabe I Should have“ var meðal annars sýnd á Spáni, í Japan, Frakklandi, Belgíu, Danmörku, Kólumbíu og víðar. „Maður hitti allskonar fólk á þessum ferðum og það var vinsælt að fá mig á ráðstefnur og kvikmyndahátíðir til að sýna myndina og tala um hrunið. Þetta gekk alveg ágætlega,“ segir Gunnar. Á sama tíma var hann einn af forsprökkum leikhópsins 540 Gólf leikhús en dró sig út úr leikhúsheiminum fyrir fjórum árum

Gunnar fékk nóg af því að vera þekktur á Íslandi og ákvað að draga sig í hlé í opinberri umræðu. Hann hafði verið í ferðamannabransanum með öðrum verkefnum og ákvað að gera það að lifibrauði sínu „Í dag rek ég lítið ferðaþjónstufyrirtæki með fjölskyldunni minni og það gengur ágætlega. Við förum með erlenda ferðamenn í rútu- og jeppaferðir um landið og mér finnst þetta mjög skemmtilegt. Ég geri og græja og er allt í öllu í þessu fyrirtæki og það hefur gert það að verkum að maður á sér líf eftir öll þessi læti,“ segir Gunnar og bætir við hann sé sáttur við guð og menn. „Ég tók sjálfur þá ákvörðun að draga mig út úr opinberri umræðu mér fannst óþægilegt að vera þekkt persóna á Íslandi. Ég vildi bara fá að vera í friði, ég var vanur að geta geta farið einn út að borða eða í bíó ef mig langaði og það þekkti mig enginn. Mig langaði að halda í það. Það er svo merkilegt með mína kynslóð og kynslóðirnar sem komu á undan að þær fóru alltaf  í manninn en ekki málefnin. Fólk er alltaf að draga ályktanir um annað fólk út frá því hverra manna það er en ekki út frá því sem það hefur til málanna að leggja.“

Gunnar segir að hrunið hafi breytt honum sem manneskju. „Maður var alinn upp í því að maður ætti að standa sig. Átti að vinna og ekki fara á hausinn. Gjaldþrot væri endalok alls. Maður eyddi allri sinni orku í að borga lán, vexti og verðbætur. Bankinn varð alltaf að fá sitt. En svo var það litla sem manni hafði tekist að eignast  tekið af manni og maður kom engum vörnum við. Ég þurfti að hugsa hlutina upp á nýtt og ég komst að því að gjaldþrot er ekki endalok alls það skiptir bara engu máli þó maður verði gjaldþrota. Rembingurinn í mér er horfinn ég er orðinn miklu auðmjúkari en ég var. Ég áttaði mig á að áherslur mínar í lífinu höfðu verið rangar. Ég hef kynnst börnunum mínum upp á nýtt.  Ég nýt þess að vera með fjölskyldunni minni, börnunum mínum, barnabörnunum. Maður er svo heppinn að eiga góða fjölskyldu vel gerð og heilbrigð börn. Ég hef aldrei í lífinu verið í jafn góðu standi og síðast liðin fjögur eða fimm ár. Ég er loksins orðinn fullorðinn og mér hefur í einlægni aldrei þótt lífið jafn gott og skemmtilegt og það er í dag.“

Ritstjórn apríl 1, 2019 07:22