Þegar fólk fer að eldast verða sumir varir við að slím safnast fyrir í hálsi þótt viðkomandi glími ekki við neinar sýkingar. Þeir vakna á hverjum morgni með kverkaskít sem illmögulegt virðist vera að losna við. Þetta getur verið mjög pirrandi og óþægilegt. En hver er orsökin og hvað hjálpar?
Allir hafa fengið hálsbólgu og kvefpestir þar sem mikið slím safnast fyrir í nefi og hálsi en það hverfur yfirleitt um leið og menn hafa yfirunnið öndunarfærasýkinguna. En þegar slím söfnun er viðvarandi án þess að um nein veikindi sé að ræða geta lífsstílsþættir ráðið þar miklu um. Slím er framleitt af slímhúð líkamans og hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Slímhúðin verndar undirliggjandi vef fyrir framandi bakteríum og ögnum. Í öndunarfærin berast rykagnir og bakteríur með andrúmsloftinu sem við öndum að okkur en í stað þess að berast inn í vefina festast þær við slímið og er skilað út úr líkamanum með aðstoð bifhára. Slímið sér einnig um að halda öndunarveginum rökum og tryggir að rétt rakastig haldist í líkamanum.
Offramleiðsla á slími
Offramleiðsla slíms getur verið merki um undirliggjandi sjúkdóm, átt sér stað vegna þátta í umhverfinu eða komið til vegna lífsstíls. Slím í hálsi getur komið frá bæði nefi, ennis- og kinnholum, hálsi, lungum eða maga og vélinda. Í mörgum tilfellum safnast slím upp í hálsi vegna sýkingar í efri öndunarvegi af völdum kvefs, flensu, ennisholubólgu eða hálsbólgu.
Með sýkingu fylgja önnur einkenni, eins og hiti, hósti, stíflað nef og almenn slappleikatilfinning í líkamanum. Oftast hverfur af sjálfu sér eftir að veikindin eru afstaðin, en það er ekki óalgengt að það taki nokkrar vikur.
Slím vegna sjúkdóma í maga og vélinda
Bakflæðissjúkdómur veldur súru bakflæði og sýran úr maganum ertir slímhúð í hálsi og getur leitt til bólgu í vélinda. Einkenni bakflæðis eru sviðaverkir á bak við bringubeinið, brjóstsviði, mikið slím í hálsi og sú tilfinning um að vera sífellt með kökk í hálsi.
Ofnæmi getur valdið slími í hálsi
Ofnæmisviðbrögð þar sem ónæmiskerfi líkamans bregst á óeðlilegan hátt við efnum úr ytra umhverfi eru oft bundin við öndunarfæri. Þá geta komið fram einkenni eins og nefstíflur, nefrennsli og slím getur færst úr nefgöngum niður í hálsinn. Einkenni geta einnig komið í formi hósta og astma. Þá getur slím safnast fyrir í hálsi og erfitt reynst að losa það.
Slím vegna lungnasjúkdóma
Astmi er langvinnur lungnasjúkdómur sem orsakast af bólgu í öndunarvegi. Slímhúðin í öndunarfærum bregst við með því að offramleiða slím þegar hún verður fyrir áhrifum frá ofnæmisvaldandi efnum, kulda eða sýkingum. Þetta leiðir til einkenna eins og öndunarerfiðleika, hósta, önghljóðs og slíms í hálsi. Langvinn berkjubólga einkennist af viðvarandi hósta með slímframleiðslu. Langvinn lungnateppa veldur einnig með mæði og öndunarerfiðleikum, sérstaklega við líkamlega áreynslu. Einnig er algengt að slím safnist fyrir í hálsi vegna annarra lungnasjúkdóma og má þar nefna lungnabólgu eða slímseigjusjúkdóm.
Lífstílsþættir sem hafa áhrif á slímframleiðslu
Lífsstílsþættir geta haft áhrif á slímframleiðslu. Tóbaksreykingar eru til dæmis algeng orsök mikils slíms í hálsi. Reykingamenn eru einnig í meiri hættu á að fá langvinna berkjubólgu og langvinna lungnateppu. Þurrt inniloftslag eða mengun getur einnig stuðlað að aukinni slímmyndun í hálsi. Ef þú dvelur á svæðum þar sem svifryksmengun er mikil eða miklið ryk í lofti af einhverjum ástæðum getur það ert slímhúðina og leitt til aukinnar slímmyndunar.
Mikið slím í munni og hálsi er einnig algeng aukaverkun hjá fólki sem farið hefur í geislameðferð á höfuð- eða hálssvæði.
Hvað er hægt að gera?
Slím í hálsi getur, eins og sést af ofangreindu, stafað af mörgum mismunandi kvillum eða sjúkdómum. Oft á það sér eðlilegar skýringar og tengist öndunarfærasýkingu eða þekktum langvinnum sjúkdómi. Það getur hjálpað að nota slímlosandi lyf úr apótekinu en þau geta losað um slímið þannig að líkaminn eigi auðveldara með að koma því frá sér. Þegar um sýkingu er að ræða og hóstað upp miklu slími er mikilvægt að drekka mikið, það þynnir slímið og auðveldara verður að hósta því upp og koma því út.
Ef fólk er með viðvarandi offramleiðslu á slími í hálsi án þess að vita ástæðuna ættir það að leita til læknis. Mikilvægt er að kanna hvers vegna líkaminn framleiðir of mikið slím og hvort það geti verið vegna undirliggjandi sjúkdóms.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.