Mikilvægt að geta unnið lengur

Lifðu núna hafði samband við alla nefndarmenn í velferðarnefnd og óskaði eftir svörum þeirra við eftirfarandi spurningum; Hvað finnst þér um skerðingar á ellilífeyri í almannatryggingakerfinu og málssókn Gráa hersins? Finnst þér eðlilegt að tekjur eldri borgara hækki einu sinni á ári og þá í samræmi við neysluvísitölu en ekki launaþróun, einsog staðreyndin er? Ert þú þeirrar skoðunar að það eigi að afnema skerðingarnar? Hvað með skerðingar vegna atvinnutekna? Svörin við þessum spurningum svara þingmennirnir í stafrófsröð og hér koma fyrstu svörin, svör Önnu Kolbrúnar Árnadóttur þingmanns Miðflokksins í norðausturkjördæmi og fulltrúi hans í velferðarnefnd þingsins.

Sæmandi lífskjör

Í stefnu Miðflokksins segir: Lífeyrir tryggi lágmarkslaun. Forgangsröðun hjá ríkinu verður að fela í sér að þeim sem hafa lokið starfsævinni séu tryggðar tekjur sem standa undir sæmandi lífskjörum. Mikilvægt er að afnema strax skerðingar á lífeyri undir 350.000 kr.  Áfram verði síðan dregið úr skerðingum og þær að lokum afnumdar. Þannig munu atvinnutekjur ekki skerða lífeyrisgreiðslur. Samfélaginu er einnig hagur að því að fá notið reynslu, þekkingar, verðmætasköpunar og skattgreiðslna eldri borgara sem vilja vinna lengur. Komið verði á sveigjanlegum starfslokum, sem eru mikilvæg réttindi þeirra sem eru að enda starfsævina.

Mikilvægt er að eldri borgarar geti unnið lengur en til 67 ára hafi menn heilsu og áhuga á slíku án skerðingar lífeyristekna. Fjölga þarf þjónustuíbúðum og hjúkrunarheimilum um land allt en einnig að gera fleirum kleift að búa lengur á heimilum sínum. Gert verði sérstakt átak til að einstaklingar geti búið lengur heima með því að efla  lýðheilsuþætti, s.s. hreyfingu, mataræði.  Einnig með því að auka aðstoð og þjálfun við heimilishald. Lífeyrisgreiðslur eru í eðli sínu fjármagnstekjur og þær skal skattleggja samkvæmt því. Sama skal eiga við um frístundaeignir eldri borgara sem þeir selja. Mikilvægt er að koma í veg fyrir tvísköttun þeirra sem eiga lífeyrisréttindi erlendis.

Á flokksráðsfundi 9. nóvember 2019 var eftirfarandi samþykkt:

Flokksráðsfundur Miðflokksins, haldinn í Reykjanesbæ 9. nóvember 2019, skorar á stjórnvöld að leiðrétta þegar í stað kjör eldri borgara og annarra sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur. Jafnframt verði komið á sveigjanlegum starfslokum án skerðingar ellilífeyristekna og að lífeyrir tryggi lágmarkslaun. Atvinnutekjur skerði ekki lífeyrisgreiðslur. Einnig verði komið á hvötum svo fólk með skerta starfsgetu geti unnið án þess að bætur skerðist.

Eldri borgarar og aðrir sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur bíða enn eftir réttlætinu sem þeim var lofað fyrir áratug um að skerða ekki lífeyrisgreiðslur sem flestir flokkar lofuðu einnig fyrir seinustu alþingiskosningar. Skerðingar og aðrir neikvæðir hvatar hafa mikil og óæskileg áhrif á sjálfsbjargarhvöt fólks til að bæta hag sinn. Óeðlilegar skerðingar hafa einnig neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks. Miðflokkurinn mun beita sér fyrir sanngjarnara og skynsamlegra lífeyriskerfi fyrir alla!

Við ætlum m.a. að efna loforð stjórnvalda um að leiðrétta kjör eldri borgara og annarra sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur og afnema skerðingar sem draga úr hvata til sjálfsbjargar og koma á sveigjanlegum starfslokum.

Og að lokum voru áherslur okkar á síðastliðnu þingi eftirfarandi:

Enn bíða eldri borgarar og aðrir sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur eftir réttlætinu sem þeim var lofað fyrir áratug. Skerðingar og aðrir neikvæðir hvatar hafa mikil og óæskileg áhrif á kjör þeirra sem fyrir verða og vinna gegn eðlilegri sjálfsbjargarhvöt fólks til að bæta hag sinn. Óeðlilegar skerðingar hafa einnig neikvæð áhrif á andlega og jafnvel líkamlega heilsu fólks og draga úr verðmætasköpun. Miðflokkurinn mun beita sér fyrir sanngjarnara og skynsamlegra lífeyriskerfi.

Til upprifjunar meðal annars úr skýrslu sem var unnin fyrir Landssamband eldri borgara.

Þegar tekjur þeirra sem hafa ellilífeyri frá Tryggingastofnun eru bornar saman við lágmarkslaun, kemur fram að tekjur þeirra hafa á síðustu þremur árum lækkað um fimm prósent sem hlutfall af lágmarkslaunum. Laun þeirra allra lægstu hjá TR hafa lækkað enn meira eða um 6,7 prósent og voru heildartekjur þeirra 11,8 prósentum undir lágmarkslaunum. Með breytingum á almannatryggingalögum 2017 tókst að bæta kjör eldri borgara en á því hefur ekki orðið framhald.

Ef ellilífeyrir er borinn saman við launaþróun kemur í ljós að vísitala neysluverðs hækkaði aðeins um 32,7% á meðan launavísitalan hækkaði um 91%. Ellilífeyrir án heimilisuppbótar samanborið við heildarlaun á vinnumarkaði hækkaði um 58% 2010-2019 en heildarlaun á vinnumarkaði hækkuðu um 71% og lágmarkslaun um 92%. Þingfararkaup hækkaði á þessu tímabili um 112%. Það kemur því berlega í ljós að eldri borgarar sitja eftir.

Grái herinn hefur ákveðið að láta á það reyna fyrir dómstólum hvort það samræmist stjórnarskrá að skerða lögbundin eftirlaun frá almannatryggingum. Þrír einstaklingar höfða málið gegn skerðingunum fyrir hönd Gráa hersins og hefur það egar verið þingfest. Málið er einkum reist á þeim forsendum að skerðingarnar stangist á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og ákvæði um mismunun.

 

 

Ritstjórn ágúst 17, 2020 20:51