Veitir vörn gegn flensu

„Það er nóg að gera, en við byrjuðum að bólusetja í síðustu viku,“ sagði hjúkrunarfræðingur hjá Lyfju þegar Lifðu núna hafði samband og spurðist fyrir um inflúensubólusetningar. Sóttvarnarlæknir hvetur alla þá sem orðnir eru 60 ára og eldri til að láta bólusetja sig við hinni árlegu inflúensu. Líka þá sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum. Svo og heilbrigðisstarfsmenn,börn og þungaðar konur. Bólusetningar fyrir þessa hópa eru ókeypis. Aðrir greiða tæpar 2800 krónur fyrir sprautuna. Hægt er að láta bólusetja sig á heilsugæslustöðvum, á læknastofum, í apótekum og víðar.

Til landsins komu 65 þúsund skammtar af bóluefni fyrr í haust. Í dag er ekki vitað hvaða tegund inflúensu kemur til með að herja á landsmenn í vetur. Flensan er ekki farin að láta á sér kræla enn þá en það má búast við henni í kringum áramótin. Bólusetning veitir allt að 60 til 70 prósent vörn gegn sjúkdómnum. En þó að bólusettur einstaklingur fái inflúensu eru allar líkur á því að sjúkdómurinn verði vægari en ef hann væri óbólusettur. Í sumum tilvikum getur bóluefnið valdið mildum einkennum flensunnar en yfirleitt er aðeins um staðbundin einkenni eftir sprautuna að ræða.

Inflúensa er veirusjúkdómur í öndunarfærum. Sjúkdómurinn er yfirleitt mildur en ýmsar sýkingar geta komið í kjölfar hans svo sem lungnabólga, berkjubólga og fleira. Einkennin eru nefrennsli, hnerri, særindi í hálsi, sár og þurr hósti og takverkur fyrir brjósti. Önnur einkenni eru hár hiti, höfuðverkur, beinverkir og vöðvaverkir og slappleiki.

Ritstjórn október 2, 2018 09:50