Ótrúleg saga bláa demantsins

Fyrir nokkrum árum seldist hringur með stórum bleikum demanti, Pink Promise, á 3,3 milljarða íslenskra króna á uppboði. Hann er tæp fimmtán karöt og þykir óvenjulega fallegur. Demantar eru heillandi fyrirbrigði og þótt þeir séu oft tákn um ást manns á konu geta þeir ekki síður verið uppspretta ógnaratburða. Slíkar sögur hafa lengi loðað við þá stærstu og af þeim er líklega stóri blái demanturinn eða Hope-demanturinn frægastur.

Hann á sér merka og nokkuð skrýtna sögu. Goðsögnin um uppruna hans er sú að hann hafi eitt sinn verið vinstra auga skurðgoðs en franskur kaupmaður, Jean Baptiste Tavernier að nafni, hafi stolið honum árið 1667 og guðinn lagt þá bölvun á að allir þeir sem ættu steininn þyrftu að gjalda þess. Nú á dögum trúa fæstir að á mátt bölbæna og þeir sem rannsaka hafa uppruna steinsins halda því fram að hann hafi fundist í Kollur námunni í Colconda á Indlandi og Jean Baptiste keypt hann þar.

Hver svo sem uppruninn hefur verið er víst að Jean Baptiste sneri aftur úr ferð sinni til Indlands með bláan demant sem er einn alstærsti demantur sem fundist hefur. Steinninn var rúm 112 karöt. Að vísu var hann lítt og illa skorinn og venjulega minnka steinar eitthvað þegar þeir eru skornir en það sem var einnig óvenjulegt við þennan stein var að hann er nánast gallalaus. Steinninn var auk þess djúpblár sem er mjög óvenjulegur litur á demöntum og er hann því enn verðmætari fyrir vikið. Jean Baptiste seldi Lúðvík XIV Frakkakonung steininn ásamt 14 öðrum minni eðalsteinum árið 1668. Steinninn fékk þá nafnið Franski bláinn.

„Sessunautur hennar ungur maður gaf sig á tal við hana. Hún kynnti sig sem frú Harry Winston. Ungi maðurinn fölnaði og spurði hvort það væri sami Harry Winston og ætti Hope-demantinn. Hún sagði svo vera og þá stóð ungi maðurinn upp, kvaddi hana og bað um að fá að yfirgefa flugvélina.“

Árið 1673 skar franski hirðskartgripasmiðurinn steinninn betur og úr varð steinn sem var rúm 67 karöt og margir minni ekki síður fagrir. Stærsti steinninn var settur í gullkeðju og konungurinn bar hann um hálsinn við hátíðlegar athafnir á vegum ríkisins. Sonur Lúðvíks XIV, Lúðvík XV, var ekki ánægður með steininn þannig og lét smíða skrautlegri og flottari umbúnað um hann. Sá sem það gerði hét hét Andre Jacquernin og steinninn var gerður að tákni æðstu stöðu í reglu gullna reyfisins sem var frönsk riddararegla og konungurinn auðvitað höfuð hennar.

Sagt var að Louis XIV hafi gefið konu sinni Marie Antoinette bláa demantinn.

Steinninn hverfur

Lúðvík XVI og kona hans, Marie Antoinette voru hálshöggvin í frönsku byltingunni eftir að hafa reynt að flýja Frakkland árið 1791 með alla eðalsteina krúnunnar í ferðanesti og líklega hefur blái demanturinn verið þar á meðal. Byltingastjórnin gerði skartgripina upptæka og þó nokkrir þeirra hurfu í vasa ráðamanna byltingarinnar og nýttust aldrei þjóðinni. Í ringulreiðinni sem ríkti um það leyti sem byltingin var að líða undir lok hvarf svo blái demanturinn sjónum manna og líklega hefur einhver óprúttin fransmaður makað krókinn á sölu hans. Lengi vel spurðist ekkert til steinsins fagra eða þar til að breskur demantakaupmaður, Daniel Eliason, var árið 1812 sagður vera með til sölu 45, 52 karata bláan demant. Margir voru ekki vafa um að þarna væri Franski bláinn á ferðinni en ekkert var hægt að sanna, lýsingar á steininum og skrár yfir galla hans voru of óljósar.

Næstu fregnir af stórum bláum demanti heyrðust þegar skráðir eru eðalsteinar í eigu bandarísks auðkýfings að nafni, Henry Phillip Hope. Í skránni var ekkert um það að finna hvar Hope hafði keypt steininn né af hverjum. Menn voru þó fljótlega sannfærðir um að þar væru á ferðinni leifar franska steinsins fræga vegna þess einfaldlega að ákaflega fáir bláir demantar eru til í heiminum og enginn annar neitt nálægt því jafnstór hefur fundist.

Henry Phillips Hope dó árið 1839 en þar sem hann átti hvorki eiginkonu né börn fóru aðrir ættingjar hans fljótlega að berjast um reytur hans. Eftir mikið stríð í bandarískum réttarsölum var Hope-demanturinn eins og hann var þá kallaður dæmdur bróðursyni Henry Phillips sem þá var reyndar látinn. Steinninn varð því strax erfðagóss sonarsonar frændans en sá hét Lord Francis Hope. Lord Francis var stórskuldugur og fékk strax leyfi systra sinna til að selja steininn. Joseph Frankels og synir í New York keypti steininn en þótt þeir væru demantakaupmenn geymdu þeir hann þar til að þeir voru svo aðþrengdir fjárhagslega að þeir urðu að selja steininn.

Eftir þetta skipti steinninn nokkuð hratt um eigendur allt þar til að frú Evalyn Walsh McLean frá Washington rekst á steininn í skartgripabúð Pierre Cartier í París árið 1910. Henni líkaði ekki menið sem steinninn var í en bað Cartier að smíða honum nýja umgjörð. Hann gerði það og flaug með hálsmenið nýja til Washington. Frúin var í vafa um hvort hún ætti að kaupa steininn þótt henni líkaði umgjörðin, enda kostaði gripurinn ekki neina smáupphæð. Cartier var hins vegar ekki fæddur í gær svo hann bauðst til að lána henni steininn eina helgi og hún gæti síðan séð til. Þetta heppnaðist vonum framar því frú Evalyn komst fljótt að því að hún myndi ekki geta verið án þessa grips og eiginmaður hennar keypti hann.

Frú Evalyn Walsh Mclean átti steininn til dauðadags og var ekki feimin við að skarta honum. Hún bannaði hins vegar sölu skartgripa sinna eftir andlát sitt.

Bannaði sölu skartgripa sinna

Evalyn átti steininn til dauðadags og var ekki feimin við að skarta honum. Hún var margoft mynduð með hann um hálsinn og síðar keypti maður hennar handa henni annan frægan eðalstein Stjörnu austursins sem er hvítur demantur 94,8 karöt. Evalyn lét búa hálsmenið með Hope demantinum þannig úr garði að hægt var að tengja við það Stjörnu austursins og annan demant sem hún átti McLean demantinn sem var 31 karöt. Ekki er að efa að konan sú hefur glitrað glæsilega þegar hún gekk þannig skreytt um samkvæmissali Washingtonborgar.  En það að geta skreytt sig glæsilegum eðalsteinum tryggir ekki endilega hamingju. Evelyn Walsh McLean mátti þola margar sorgir í lífi sínum og flest áföllin dundu yfir eftir að hún eignaðist Hope-demantinn.

Sonur hennar Vinson varð fyrir bíl og dó árið 1911 og eiginmaður hennar varð nánast viti sínu fjær af sorg. Hann varð aldrei samur á eftir og missti öll tök á rekstri risablaðaútgáfunnar sem hann átti. Dóttir þeirra hjóna framdi sjálfsmorð með því að taka inn of stóran skammt af svefntöflum og smátt og smátt fór auður fjölskyldunnar þverrandi. Þrátt fyrir það vildi Evalyn reyna að halda eðalsteinum sínum í eigu fjölskyldunnar og árið 1947 þegar erfðaskrá hennar var opnuð var í henni það skilyrði að enginn skartgripa hennar yrði seldur fyrr en tuttugu ár væru liðin frá dauða hennar.

Maður að nafni Harry Winston var þó ákveðinn í að eignast demantinn bláa fyrir þann tíma og hann hóf samningaviðræður við fjölskylduna og fékk hann keyptan. Sögusagnir um bölvunina sem höfðu fengið byr undir báða vængi eftir að ógæfan barði að dyrum McLean fjölskyldunnar hræddi Harry Winston ekki vitundarögn að hans eigin sögn. Hann játaði þó að margir voru svo trúaðir á bölvunina að þeir þorðu ekki að umgangast hann eftir að hann eignaðist steininn. Eitt sinn var kona hans fyrir því að hún sat í flugvél og beið þess að hún hæfi sig á loft. Sessunautur hennar ungur maður gaf sig á tal við hana. Hún kynnti sig sem frú Harry Winston. Ungi maðurinn fölnaði og spurði hvort það væri sami Harry Winston og ætti Hope-demantinn. Hún sagði svo vera og þá stóð ungi maðurinn upp, kvaddi hana og bað um að fá að yfirgefa flugvélina. Hann kvaðst vera nýgiftur og með ungt barn og hann gæti ekki tekið þá áhættu að sitja við hliðina á óheillakráku á borð við eiganda Hope-demantsins. Einhvern tíma síðar lenti þessi sami ungi maður síðan í því að sitja við hliðina á Harry sjálfum í flugvél og í þetta sinn uppgötvaði hann ekki hver sessunauturinn var fyrr en vélin var komin á loft. Hann sat náfölur og skjálfandi það sem eftir var leiðarinnar og þakkaði guði sínum þegar flugvélin lenti. Hvort sem það hefur verið vegna þess að hann var laus við hjátrú eða ekki virðist steininn ekki hafa fært Harry Winston annað en gæfu. Viðskiptaveldi hans hélt áfram að blómstra og hann var hamingjusamur í einkalífi sínu. Árið 1958 seldi Harry Winston svo Smithsonian-safninu demantinn bláa og þar er hann til sýnis fyrir almenning í steinasafni þeirra.

„Í ringulreiðinni sem ríkti um það leyti sem byltingin var að líða undir lok hvarf svo blái demanturinn sjónum manna og líklega hefur einhver óprúttin fransmaður makað krókinn á sölu hans.“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júlí 28, 2024 07:00