Tengdar greinar

Pétur Guðjónsson

Pétur Guðjónsson vita allmargir nokkuð um því hann er einn af þessum litríku karakterum sem við eigum. Hann hefur samt dvalið erlendis löngum stundum allt frá því hann fór ungur sem skiptinemi til Bandaríkjanna. Að loknum menntaskóla sótti Pétur um í Harvard og fékk hæsta styrk sem skólinn veitti nýnemum á þeim tíma. “Ég held það hafi verið bara einhver galsi í þeim,” segir Pétur og hlær.  Fögin sem hann lagði stund á eru blanda af félagsvísindum, þ.e. mannfræði, félagsfræði, sálfræði og hagfræði og masterinn var í stjórnmálafræði. Allt þetta nám hefur nýst honum vel í því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur síðan.

Eftir námið í Harvard dreif Pétur sig til Chile með þáverandi sambýliskonu. Hann segir að þau hafi verið eins og ungt fólk er gjarnan, sífellt að leita að sjálfu sér. Þetta var 1971 og afar spennandi tímabil þar sem Allende var fyrsti lýðræðiskjörni forsetinn í landinu. Pétur vann þar m.a. sem „freelance“ blaðamaður fyrir Boston Globe og fleiri fjölmiðla og fór á blaðamannafund með Fidel Castro þar sem öll heimspressan var samankomin. Þetta var fyrsti blaðamannafundur Castro eftir að hann tók við völdum á Kúbu. „Ég var mjög frakkur á þessum árum og reif kjaft við Castro og sagði honum að hann væri bara plat byltingarmaður. Ég held ég hafi komið honum svo á óvart að það endaði með því að hann bauð mér til Kúbu þar sem ég dvaldi í 6 vikur í hans boði. Þar komst ég endanlega að því að ekki er nokkur leið að breyta þjóðfélögum nema breyta manninum samtímis. Ótti og græðgi heldur áfram og mélar samfélögin,“ segir Pétur og með þessum skilningi var strax lagður  grunnurinn að því sem hann er að gera enn í dag, nú orðinn 74 ára gamall.

Rak málarafyrirtæki í Boston

Á meðan Pétur var í náminu í Harvard stofnaði hann málarafyrirtæki með félaga sínum úr öðrum háskóla. Þeir höfðu verið að selja Encyclopedia Britannica en voru afskaplega lélegir sölumenn svo upp úr því var lítið að hafa. Vinurinn hafði hjálpað afa sínum að mála hlöðuna hans og þeim Pétri datt í hug að nýta þá þekkingu og stofna málarafyrirtæki. Þeir fengu ekki mikið fyrir fyrstu verkin en með tímanum tóku viðskiptin við sér og fyrirtækið gekk allan tímann sem Pétur var í náminu með 15-20 manns sem máluðu hús í úthverfum Boston.. Þessi afi vinar Péturs reyndist vera eigandi risafyrirtækis í Noregi og vinurinn varð snemma forstjóri þess fyrirtækis en Pétur hélt áfram að mála heiminn.

Pétur og Silo 1989 þegar hann kom hingað til lands.

Alsæla að vera allsgáður

Pétur fór á námskeið hjá húmanistum sem voru að fara eftir leiðbeiningum Argentínumannsins Silo en hann varð síðar andlegur leiðbeinandi Péturs og mikill vinur. Þetta námskeið var haldið uppi í Andesfjöllunum þegar hann var búinn að vera í Chile um skeið.   Þar upplifði Pétur alsæluna sem hægt er að komast í með því að vera vakandi og allsgáður í lífinu.  “Það var þessi  “natural high” tilfinning sem er ein sú eftirsóknarverðasta sem hægt er að finna,” segir Pétur. “Silo var yndisleg mannvera og ég lærði geysilega mikið af honum,” segir Pétur. “Hann kenndi mér meðal annars að það er viska, gæska og kraftur sem býr innra með okkur öllum og að þann kraft þurfi að virkja ef við ætlum að bæta heiminn.”

Kom á fót húmanistahreyfingu

Pétur var búsettur í New York en 1979 stofnaði hann ásamt öðrum  samtök á Íslandi sem voru kölluð Samhygð og upp frá því fæddist húmanistahreyfingin á Íslandi. Nú hefur Pétur komið á fót nýrri hreyfingu sem er kölluð “Vinir lífsins”. “Markmiðið er að losa fólk við óttann til þess að ofbeldi verði útrýmt, bæði innra með okkur og í heiminum” segir hann.

Vinir lífsins – mennskari heimur án ofbeldis

Pétur og áhugasamir liðsfélagar hans í Mosambique. Pétur er með bláa derhúfu fyrir miðri mynd.

Starf Péturs um þessar mundir er fyrst og fremst í tengslum við samtökin Vini lífsins eða Friends of life (friendsoflife.org).  Í tengslum við það hefur hann skrifað margar bækur sem hafa komið út á nokkrum tungumálum. Þetta eru samtök sem samanstanda af ungu fólki, 18 til 22 ára, og er markmiðið hjá þeim að skapa mennskari heim án ofbeldis. “Rótin að öllu ofbeldi er óttinn sem býr innra með okkur,” segir Pétur. “Það er kvíðinn og tilgangsleysið, sem svo margir finna fyrir, sem drífur ofbeldið áfram.” Samtökin Vinir lífsins hefur teygt anga sína víða og nú er starfsemi á þess vegum í mörgum löndum Afríku, Kólumbíu, Mexíkó, Argentínu, Dóminíska lýðveldinu, Indlandi og Japan.

Lenti í hjartaskurði fyrir fertugt 

Pétur var einn af þeim síðustu  sem var sendur til London í hjartaaðgerð á sínum tíma. Hjartveiki er ættlægt vandamál í hans ætt en faðir hans  varð bráðkvaddur úr þeirri veiki. Í ljós kom að Pétur, og fleiri í ættinni, höfðu erft þennan sjúkdóm. Það var lagað með hjáveituaðgerð en 2009, þegar Pétur var orðinn 63 ára gamall, var hann  í World Class og þóttist vera í góðu formi. “Ég datt bara niður dauður og var það í einar 10 mínútur,” segir hann. “Ég vissi samt að ég átti alls ekki að deyja þá. Þetta átti sér stað klukkan 18 og allir á leiðinni heim út vinnunni með viðkomu í ræktinni. Á næstu hlaupabrettum við mig voru læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar, allt lið sem kunni svo vel til verka að ég var lífgaður við eftir að hafa verið dáinn í 10 mínútur,” segir Pétur og hlær. “Læknarnir komust síðar að því að þetta var rafmagnið í hjartanu sem var bilað svo í mig var settur bjargráður. Hann tekur við ef minn náttúrulegi gangráður klikkar. Það er mikið öryggi.”

Sumir félagar Pétur  sögðu að hann hafi „dáið“ til að sýna að hann væri óhræddur og að það væri alveg hægt að gera það og koma til baka sem betri maður. Allavegana var þessi uppákoma sennilega til þess að hann skrifaði 6 bækur á 2 árum, sem fólkið í Vinum lífsins notar á ferð sinn til frelsis og tilgangs í lífinu. Fyrsta bókin sem Pétur skrifaði í bókaflokknum „ Opin framtíð“ nefnist “Það sem máli skiptir” og fæst lánuð á bókasöfnum og fjallar um hvernig allt stjórnast af óttanum við að hverfa og hvernig hægt sé að vinna bug á þessum ótta.

Gerði tilraun á jógum á Indlandi

Pétur er hér á landi til að sinna fyrirtæki sínu GCG ráðgjöf ehf. sem  kennir  m.a. stjórnendanámskeið. Upphaflega stofnaði Pétur fyrirtæki sem fann upp aðferð til að vinna bug á streitu. Upp á ensku hét aðferðin: „Gudjonson’s method of active relaxation. “Ég fór með þá hugmynd til Asíu til að finna út hvort ég gæti sannfært jógana í Indlandi um að þessi aðferð væri góð, og jafnvel betri en það sem þeir væru með” segir hann og komst að því að svo var. Hann skrifaði bók um aðferðina sem kom fyrst út á japönsku en var svo  þýdd á mörg tungumál, m.a. á íslensku og heitir „Bókin um hamingjuna“.

Landamæri falla niður

Að viðtalinu loknu var Pétur að fara að halda fund með félögum í  Vinum lífsins í Argentínu, Mexíkó, Kólumbíu, Japan og Mosambique í gegnum Zoom fjarfundabúnað. “Þetta er eitt af því sem corona veiran hefur fært okkur,” segir hann. “Við þurfum ekki lengur að þvælast um allan heim til að hitta fólk í mörgum tilvikum. Það dugar stundum að kveikja á tölvunni.”

Þróunaraðstoð sem Pétur hefur verið hvatamaður að.

Pétur stofnaði Humanistahreyfinguna bæði í Dóminíska Lýðveldinu og á Haiti upp úr 1990. Í því síðarnefnda var fyrst byrjað með lestrarkennslu fyrir fullorðna en ólæsi var þá um 67%.  Það fóru 170 þúsund  manns í gegnum þetta prógram. Síðan tók við að koma upp kennslu á grunnskólastiginu en um helmingur barna naut ekki skólagöngu.

Bæði lestrarátakið sem og skólarnir sem voru orðnir um 200 víðs vegar um Haiti og það var mögulegt að framkvæma vegna þess að Húmanistahreyfingin á Haiti var orðinn fjölmenn og mikið um sjálfboðaliða.  Það litla fjármagn sem þurfti kom allt frá Íslandi. Meira að segja börn í mörgum grunnskólum á Íslandi söfnuðu í átaki sem hét „ Börn hjálpa börnum“.

Eftir nokkur ár urðu skólarnir sjálfbærir  eins og öll þróunarverkefni sem Pétur hefur komið nærri. Öll nema mjög fallegt verkefni á Haiti, sem enn þá krefst fjárhagslegs stuðning. Þetta eru 100 munaðarlaus börn sem misstu foreldra sína í jarðskjálftanum mikla 2010. Húmanistar á Haiti hlúa vel að börnunum en allur fjárhagsstuðningur kemur bara frá Íslandi. Einstaklingar, fyrirtæki og ýmis stéttarfélög hafa stutt þetta verkefni. Það fer lítið  fyrir þessu verkefni í fjölmiðlum því það er engin yfirbygging. Pétur og aðrir sem styðja þetta hér á Íslandi gera þetta allt í sjálfboðavinnu.

Pétur er mjög þakklátur gjafmildi þeirra sem hafa stutt verkefnið og þakkar þeim stuðningin. „Æ, ég geri nú ekki mikið, segja sumir, þú gerir allt.  Ég hef sagt þeim að þetta verkefni væri ekki til staðar ef gjafmildir Íslendingar hefðu ekki stutt þetta.  Einnig ef ekki væri þessi umhyggja hjá þeim sem sjá um börnin. Svo þetta er svona mikil teymisvinna þar sem ég legg smávegis af mörkum, en mesta framlagið, stöðuga framlagið er auðvitað Haitibúarnir sem sjá um börnin dags daglega“. (haiti.is)

Samhygð

Á hátíð Samhygðar í október 1981 í Háskólabíó var Silo gestur og Pétur hélt erindi undir heitinu Framtíðin er okkar. Þar sagði hann að Samhygð afneitaði hvers kyns ofbeldi, efnahagslegu misrétti, trúarbragðaofsóknum, kynþáttamismunun og öllum lífsmáta sem líti á manninn sem hlut. Pétur sagði að lokum: “Vegna þess að fjöldi fólks úti um allan heim vinnur skipulega að því að byggja upp betri heim er hægt að staðhæfa að framtíðin sé björt og að hún sé okkar.” Síðan eru liðin tæp 40 ár og Pétur hefur haldið ótrauður áfram að vinna að sama markmiði allan þennan tíma.

Hvað segir Pétur um stöðuna í dag:

Því miður er heimurinn svipaður því sem ég lýsti fyrir 40 árum í Háskólabiói. Þó er tvennt sem er öðru vísi í dag. Í fyrsta lagi er nokkuð ljóst að ef ekki verða róttækar breytingar, sér í lagi á hugsunarhætti og lífsstefnu, þá er voðinn vís innan 7-9 ára. M.ö.o. ef fyrr var þörf þá er núna nauðsyn. Í öðru lagi að hjá ungu kynsalóðinn um allan heiminn er að mótast nýtt landslag innra með þeim þar sem ofbeldi, yfirgangur og misrétti er hafnað. Nú er gífurleg þörf fyrir það sem við höfum fram að færa, vegna þess að þörfin á róttækri breytingu er knýjandi. Einnig vegna þess að nýir tímar eru í nánd. Unga kynslóðin finnur það en veit ekki alveg hvernig hún á að  bera sig að til að komast þangað. Okkar áherslur og starfsemi hjálpar til þess að komast þangað, nokkurs konar vegvísir í átt að þessari gífurlega spennandi þróun okkar sem mennskir menn.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn september 17, 2020 06:27