Tengdar greinar

Pirraðir karlar á eftirlaunum

„Bara okkar á milli, Það veit enginn af því en ég hef verið að hafa áhyggjur af því að ég og maðurinn minn munum fara verulega í taugarnar hvort á öðru, þegar við verðum bæði komin á eftirlaun. Ég ætlaði ekki að segja neinum frá þessu, en skipti um skoðun í síðustu viku“, segir Paula Usrey í grein á vefnum sixty and me. Greinin fer hér á eftir í lauslegri þýðingu.

Þegar ég var að fá mér snarl á kaffihúsinu í hverfinu mínu á laugardaginn, datt mér í hug að spyrja einn eigendanna, konu á áttræðisaldri, hvar maðurinn hennar væri. Hún svaraði „Ég rak hann heim því hann var alveg að gera út af við mig. Ef hann otar enn einu sinni að mér vísifingrinum, mun ég höggva fingurinn af honum með hníf“.

Nokkrum dögum síðar sagði mér önnur kona, jafnaldra mín, að hún hefði flutt út í heilan mánuð eftir að þau hjónin fóru á eftirlaun, vegna þess að eiginmaðurinn var svo hræðilega ergilegur. Ég fór að velta fyrir mér hvort þessi tvö dæmi væru tilviljun, eða hvort þetta væri kannski bara algengt.

Ég byrjaði að lesa mér til um breytingarnar sem verða í samböndum þegar fólk eldist og fer á eftirlaun. Ég skal játa það að ég fór í leyni að gera litla könnun á þeirri kenningu minni, að karlar væru líklegri en konur, til að verða pirraðir þegar þeir fara á eftirlaun.

Upptök vandans?

Vissulega fann ég nokkrar greinar um fyrirbæri sem var kallað Pirraðra karla heilkennið, Irritable Male Syndrome (IMS), sem staðfesti kenningu mína um að karlar yrðu pirraðri en konur þegar þeir fara á eftirlaun. Þetta er greinilega raunverulegt ástand sem sumir læknar telja að megi rekja til minnkandi magns testósterón hormóns í blóði karlmanna.

Einkenni þessa fyribæris IMS, geta verið depurð, pirringur, þunglyndi, orkuleysi, svefnleysi og reiðiköst.

Michael Gurian, höfundur bókarinnar The Wonder of Aging: A New Approach to Embracing Life After Fifty, telur að minnkandi testósterón sé einungis hluti vandans hjá karlmönnum. Hann bendir á að það sé erfitt fyrir karla að horfast i augu við að þeir séu ekki lengur taldir karlar í krapinu og hafi auk þess engan starfstitil lengur.

Vopnuð greinum og rannsóknum um IMS, sló ég því föstu að þetta heilkenni væri sennilega orsökin fyrir nýlegu rifrildi okkar hjónanna.

Ég sagði manninum mínum varfærnislega að aldur og starfslok, hefðu mismunandi áhrif á fólk. Ég deildi með honum því sem ég hafði kynnt mér um reynslu karla sem færu á eftirlaun og sagði honum að þessi vitneskja hefði gert mér ljóst að ég yrði að sýna honum meiri skilning

Hver, ég?

Maðurinn minn sagði ekki margt í fyrstu. Eftir nokkrar mínútur, viðurkenndi hann rólegur í fasi að starfslok og hækkandi aldur hefðu í för með sér ýmsar breytingar og óvænt viðfangsefni.

Hann fór á eftirlaun fyrir nokkrum áðum og lýsti nú áhyggjum sínum af því að hann myndi missa ákveðið rými og tíma til að vera einn með sjáfum sér, þegar ég færi á eftirlaun eftir nokkra mánuði.

Þegar hér var komið sögu í samtalinu, fannst mér umræðan mjög þörf og ég skildi áhyggur hans betur. Mér fannst ég hafa mjög fínar hugmyndir um hvernig við gætum tekist á við þetta saman.

En þá sagði hann nokkuð sem ég hafði ekki hugsað út í . Hann sagði „Veistu, þú hefur verið ansi stressuð og upprifin uppá síðkastið. Ég veit ekki hvort þú gerir þér grein fyrir hvaða áhrif væntanleg starfslok þín, hafa haft á þig og okkur bæði“.

Um leið og maðurinn minn var búinn að segja þetta, vissi ég að þetta var satt. Hann var ekki fyrsti maðurinn sem benti mér á að ég hefði verið óvenju spennt. Satt best að segja hafði einn nemenda minna nýlega haft orð á því hvað ég væri hátt stemmd“.

Þó mér þætti gaman að vera að fara á eftirlaun, fann ég fyrir meltingartruflunum sem ég hef tilhneigingu til að fá þegar ég verð mjög stressuð.

Ég er ein af þeim sem þarf að undirbúa mig vel fyrir allar breytingar í lífinu og ég geri mér grein fyrir að ég mun missa ýmislegt við starfslok.  Hópinn sem ég tilheyri í vinnunni, gefandi starf, viðurkenningar fyrir árangur og frábærar heilsufarstryggingar sem Medicare sjúkratryggingin mun ekki ná að jafna.

Eins og Michael Gurian og aðrir nefna, geta konur einnig fundið fyrir pirringi þegar þær ganga í gegnum breytingar, en þær tjá þær gjarnan öðruvísi en karlar. Þær þusa kannski meira og tala meira um hlutina. Karlar hafa hins vegar tilhneigingu til að tjá vandann með því að hækka róminn eða verða reiðir.

Hvað er til ráða?

Fyrsta skrefið ef við ætlum að ná fram jákvæðum breytingum í einkalífi og samböndum, er að gera okkur grein fyrir hvernig við tjáum spennu og hvaða áhrif það hefur á aðra.

Rannsóknir sýna að það að borða rétt, hreyfa sig, sofa nóg, gera slökunaræfingar og minnka neyslu sykurs og áfengis, bætir líðan fólks. Ég er að reyna að stunda meiri líkamsrækt og finnst það hjálpa mér að draga úr stressinu.

Ef okkur tekst að skilja okkar eigið stress – eða ef einhver bendir okkur vinsamlega á það – skapast tækifæri til að bæta sambandið með því að ræða saman.

Hvort sem um er að ræða maka, vin eða sambýlisfólk, höfum við öll áhrif hvert á annað. Þau sambönd sem eru okkur mikilvæg krefjast stöðugrar vinnu, vegna þess að við erum stöðugt að breytast sem manneskjur.

Maðurinn minn og ég áttum frekari samræður um hvernig við sjáum fyrir okkur eftirlaunalíf okkar saman. Við ræddum um sameiginleg markmið og drauma og einnig persónuleg markmið og drauma hvors um sig.

Við ræddum líka um að stundum þyrftum við bæði að geta haft næði ein út af fyrir okkur. Þá er það  mikilvægt fyrir okkur að geta rætt málin opinskátt, þegar við stöndum saman frammi fyrir nýjum, kannski ótryggum en spennandi tímum.

Ritstjórn júlí 30, 2020 08:12