Reykjavík – höfuðborg okkar allra.

Sif Jónsdóttir

 Sif Jónsdóttir, 2. sæti Höfuðborgarlistans skrifar:

Reykjavíkurborg er höfuðborg okkar allra sem búum hér á Íslandi. Hér fæddumst við, hér ólumst við upp, kláruðum dagsverkið og hér ætlum við að eiga áhyggjulaust ævikvöld.  Við eigum öll það sammerkt að við viljum búa í samfélagi þar sem ríkir traust, samúð, manngæska, hjálpsemi og velvild.  Einnig eigum við öll það sameiginlegt að vilja byggja upp þetta samfélag þannig að það mæti flestum þörfum allra.  Við getum ekki alltaf vitað þarfirnar fyrir fram fyrr en þær birtast okkur, stundum óvænt og stundum mjög aðkallandi.  Þess vegna eiga stjórnendur Reykjavíkur  að undirbúa sig og vera tilbúnir með úrræði til að mæta þörfum þeirra sem þurfa á þeim að halda. Stjórnendur Reykjavíkur eiga að vera með skýra framtíðarsýn og styrkja innviði þjónustunnar og  stöðugt að leita lausna til að vera tilbúnir með þau úrræði sem þarf að bjóða í framtíðinni.

Í borginni  búa um  11.588 einstaklingar sem eru eldri en 70 ára og eru 35% af eldri borgurum landsins. Í nágranna sveitarfélögunum búa samtals um  8.900 þar af mesti fjöldinn í Kópavogi um  3.500 manns og í Hafnarfirði um 2300 manns. Við vitum að þessi fjöldi mun bara aukast á komandi árum og Reykjavík sem höfuðborg landsins mun þurfa að bera þungan af þessari fjölgun svo að ábyrgð hennar á þessum málaflokki er afgerandi.  Borgarstjóri þarf að stýra þessum málaflokki af festu,  vinna með lausnir því einnig þarf að manna þau störf sem verða til í framtíðinni vegna fjölgunar eldri borgara.

Aðstæður eldri borgara eru mismunandi sem og líkamlegt atgervi, en þeir vilja að Reykjavík geti veitt þeim þjónustu þegar hennar er þörf. Sumir geta búið heima, þurfa smá aðstoð eins og hjálp við að baða sig og heimsendan mat, aðrir þurfa að fá umönnun og geta ekki verið heima lengur. Við vitum að einstaklingar á tíræðis aldri geta ekki séð um sig sjálfir og þeim fjölgar hratt.  Nú er svo komið að ekki er hægt að ýta málefnum þeirra til hliðar, nú þarf að forgangsraða í þágu eldri borgara.  Við hjá Höfuðborgarlistanum höfum kynnt okkur þessi mál ýtarlega og sjáum að við þurfum að byrja að vinna að þessum málum tafarlaust. Fólk sem hefur skilað sínu vinnuframlagi til samfélagsins þarf að vita að sú þjónusta sem þau kunna að þurfa í framtíðinni sé til staðar og verði framkvæmd af kunnáttu og fagmennsku.  Þetta teljum við vera mikið velferðar og öryggismál.

Ritstjórn maí 7, 2018 11:04