Tengdar greinar

Rotaðist í þvottahúsinu

Gata mæðranna eftir Kristínu Marju Baldursdóttur segir frá mannlífi og íbúum í götu nokkurri, einkum frá lífi kvennanna í götunni. Þær eru margar, kona básúnuleikarans, mamma óþekku stelpnanna, dönsku systurnar, fráskilda konan á horninu  og þannig mætti áfram telja.  Aðalsöguhetjan er hins vegar ung menntaskólastúlka, Marín, sem flutti í bæinn þegar foreldrar hennar féllu frá og býr hjá systur inni Elísabetu. Hjálpar henni með heimilið og gætir tveggja lítilla stráka sem stundum eru óþekkir og eitt sinn komu þeir með hornsíli heim í krukkum og helltu úr þeim yfir bróderað lín í bala.

Marín horfði með hryllingi á þessi spriklandi kvikindi í balanum, tók um höfuðið meðan hún reyndi að hugsa um hvað hún gæti gert, henni bauð við því að fara með höndina ofan í vatnið og veiða uppúr því línið, fór að leita að priki sem hún gæti notað til þess arna, sneri öllu við í þvottahúsinu, en strákarnir stóðu yfir balanum og horfðu með ánægjusvip á hornsílin, feit og sældarleg eftir sumarið, njóta lífsins í sængurveravatninu. En skjótt skipast veður í lofti. Sumir komu fyrr heim úr vinnunni en ætlað var. Ekkert þeirra hafði heyrt Elísabetu koma og var hún þó á háum hælum sem small í. Hún stóð allt í einu yfir balanum, horfði sem þrumu lostin á kvikindin. Leit svo þungbúin á synina, hvæsti: hvað er þetta?

Þetta, þetta eru bara hornsíli.

Hvaðan í fjandanum…? Þið náið þessu upp úr og hendið þessu strax!

En þetta eru boltar, mamma, mótmæltu þeir vælulega.

Og þá greip hana eitthvert æði. Sennilega hafði hún heyrt þetta með bolta áður, kannski þegar hún var í laxveiðinni með eiginmanninum, einhvern veginn kveikti þetta orð elda i höfði hennar, hún greip um botn balans og sturtaði úr honum svo að um þvottahúsið flæddi. Vatnið með hornsílunum skvettist í allar áttir, yfir Marín og strákana sem æptu og görguðu, og þvotturinn fíni hvíti minnti á skriðjökul á skítugu þvottahúsgólfinu. Elísabet greip í annað sængurverið, ætlaði að svipta því yfir í balann aftur en varð fótaskortur á sílunum sem börðust fyrir lífi sínu á gólfinu, rann til, greip í balann sér til stuðnings en hann var tómur svo hann þeyttist á gólfið og hún með. Í fallinu reyndi hún að bera höndina fyrir sig og rak í leiðinni höfuðið í hornið á einni þvottavéinni.

Hún rotaðist, lá sem dauð væri á þvottahúsgólfinu, blóðug á höfði. Þau horfðu á hana í fyrstu skelfingu lostin en svo áttaði Marín sig, hljóp veinandi upp til konu básúnuleikarans sem kom hlaupandi niður, greip um enni sér, tautaði margsinnis guð minn góður, hljóp svo inn til mömmu óþekku stelpnanna og skipaði henni að hringja á sjúkrabíl. Meðan þær biðu eftir bílnum settu þær handklæði undir höfuð Elísabetar, sem umlaði með lokuð augun, og höstuðu á strákana sem ýlfruðu.

Gata mæðranna er litrík fásögn af konunum sem þar búa. Kristín Marja lýsir þeim skemmtilega og frásögnin er leikandi létt.

Ritstjórn desember 15, 2020 10:34