Rotnunin falleg í ljótleika sínum

Þó svo að myndlist eigi sér ekki langa hefð á Íslandi miðað við önnur Evrópulönd getum við sem þjóð stært okkur af allnokkru listafólki sem gert það gott á erlendri grundu. Listmálarinn Margrét Jónsdóttir hefur unnið í myndlistargeiranum í næstum hálfa öld. Hún hefur haldið rúmlega 50 einkasýningar, tekið þátt í fjöldamörgum samsýningum, var einn af stofnendum Gallery Suðurgötu 7 og verið virkur þátttakandi í mótun starfsgreinarinnar með því að taka þátt í stofnun Hagsmunafélags myndlistarmanna og SÍM. Lifðu núna hitti Margréti á dögunum og ræddi lífið og listina.

List Margrétar er fjölbreytt og áhugaverð.

Óx upp innan um listasmiði 

Það mætti segja að listin sé Margréti í blóð borin og menningin var allt umlykjandi á uppvaxtarárunum. „Ég er komin af listafólki. Uppvöxturinn var á Laufásvegi 18a. Þar var hús fjölskyldunnar og fyrirtæki föður míns og föðurbróður,“ segir hún. 

Þeir Jón Benediktsson faðir Margrétar og Guðmundur Benediktsson föðurbróðir hennar höfðu mikil áhrif á hana. „Þar voru þeir með sérhönnuð húsgögn sem þeir teiknuðu sjálfir,“ heldur hún áfram. „Þeir teiknuðu allt sem þeir gerðu. Þeir voru með bólstrunarverkstæði, útskurðarmeistara í vinnu hjá sér og verslun sem seldi innflutta hönnunarvöru. Þeir voru með hönnunarlampa frá Þýskalandi og postulín og gler frá Finnlandi. Gylfi Gíslason myndlistarmaður sagði einu sinni við mig að koma í búðina þeirra hefði verið eins og að koma í gallerí. Að það hefði verið upplifun að fara þarna inn. Í þessu umhverfi elst ég upp. Þetta var eins og sérverslanir eru í dag. Þetta var allt svo falleg hönnun og ég upplifði strax í æsku að það var lögð svo mikil áhersla á formið. Sem barn gekk ég um á verkstæðinu og þar voru spænir í hrúgu í bland við þessa fallegu muni, fína handverkið. Það eru held ég fáir sem upplifa svona. Verkstæði bræðranna var vinsælt af listamönnum, þeir komu og fengu að gera allskonar tilraunir t.d. fékk Dieter Roth að smíða og gera tilraunir með húsgögn og Kjarval lét þá vinna fyrir sig svo einhverjir séu nefndir.“

En hvers vegna ákvaðstu að fara í listnám? „Faðir minn og föðurbróðir voru líka myndhöggvarar. Þegar ég var að alast upp var ekki mikið af tækifærum fyrir stúlkur. Það var reyndar ekki mikið af möguleikum fyrir drengina en þó færri fyrir konur. Þetta blundaði alltaf í mér. Ég var alltaf teiknandi. Ég var alltaf í einhverjum öðrum heimum. Ég talaði við blómin. Allt var lifandi, allir hlutir voru lifandi fyrir mér. Þegar ég var að fara í Bernhöfts bakarí,“ rifjar hún hlæjandi upp,  „átti ég alltaf erfitt með að loka hurðinni því við hana voru alltaf mikið af bréfum og sælgætisbréfum og mér fannst þetta allt vera lifandi.“

Áhugi Margrétar á myndlist var gríðarlegur og hún lagði mikið á sig til að kynnast henni betur og skilja. „Ég fylgdist með öllu sem var í SÚM. Fór ein á sýningar. Ég fór á allar sýningar sem mögulegt var að fara á. Þetta voru byltingartímar, stúdentauppreisnin í París 1968 og kvennabyltingin en ég var í MHÍ 1970 til 1974. Súm var stofnað 1969 svo ég fylgdist með þeim frá upphafi. Það sem kom á undan SÚM voru útisýningar á Skólavörðuholti 1967-1972. Jón og Guðmundur Ben voru þátttakendur í því. Höfðu þessar sýningar áhrif á bæjarlífið og auðvitað líka mikið skemmt.“

En í upphafi ferils Margrétar upplifði hún mikla hvatningu og stuðning frá fólki meðan á menntun hennar stóð. „Ég var með mjög góðan myndlistarkennara í gagnfræðiskóla Austurbæjar, hann Skarphéðinn Haraldsson. Hann kenndi meðal annars Hafsteini Austmann sem talar einnig um hvað hann hafði góð áhrif á hann. Skarphéðinn var svo hvetjandi svo ég blómstraði hjá honum. Upp úr því undirbjó ég mig fyrir inntökupróf í Myndlista og handíðaskólann. Ég fékk inngöngu og þar var Hörður Ágústsson skólameistari nánast eins og faðir okkar. Á þessum árum fór maður náttúrulega svo ungur í skólann og þegar maður fer svona ungur í nám þá er svo auðvelt að móta mann.“

Frá sýningu á Kjarvalsstöðum. Fjörugt menningarlíf í London

Beint eftir námið hér heima fer Margrét til London. „Ég byrja nám í Central Saint Martin´s College of Art 1974. Það var nú ekki algengt á þeim tíma að stúlka sem þekkir engan færi til London. En þetta var bara eitthvað sem ég tók mér fyrir hendur. Bara verkefni,“ segir hún og hlær. 

Hún upplifði allt aðra hluti í náminu úti heldur en hér heima. „Þarna hafði maður menninguna. Það er náttúrulega ekki hægt að bera þetta tvennt saman. Heima var ekkert að gerast. Bara ekki neitt,“ spaugar hún. 

Á námsárum Margrétar úti í Bretlandi voru virkilega áhugaverðir hlutir að gerast í myndlistarsenunni. Var eitthvað sem hafði áhrif á Margréti? „Skólinn var í miðri borginni í Soho hverfinu á Charing Cross Road. Gilbert og George og fleira áhrifafólk kom úr þessum skóla. Svo var það David Hockney. Þetta voru bara strákarnir. Ég fylgdist með öllu sem var að fæðast þarna. Það var svo mikið að gerast. Konseptið var að byrja. Happenings að spretta upp. Eitthvað sem maður hafði aldrei séð. Allskonar tilraunir og annað. Andy Warhol var til dæmis á litlu kaffistofunni við hliðina á skólanum að árita bók sem hann var að gefa út og allt annað sem honum leist á eins og veggspjald eftir Brian Hindmarch skólabróður minn.“

Bara yfirstéttin fékk að fara í listnám

Ferill Margrétar spannar nú rúm fjörutíu og átta ár. Hún hefur lengi verið með annan fótinn í Frakklandi og þegar hún er spurð um hvers vegna hugsar hún sig um og svarar: „Þegar ég var í London voru svo mikið af skólafélögum mínum sem fóru til Frakklands í helgarferðir, enda voru þau öll í yfirstétt,“ segir hún og bætir við, „það var auðvitað bara yfirstéttin sem fékk að fara í listnám. En svo voru það líka sögurnar sem ég heyrði frá pabba. Pabbi og Mummi fóru í námsferð til Parísar. Þeir fóru út rétt eftir seinni heimsstyrjöld. Á þeim tíma voru þeir efnaðir og höfðu tækifæri til að ferðast erlendis.Fyrsta einkasýningin mín var 1975 í Window Gallery, Central Saint Martins og seldust öll verkin til Englendings sem átti húseign í Frakklandi, áttu verkin að fara þangað. Líkast til hefur þetta einnig haft áhrif. Á Íslandi þótti salan vera fyndin og vitni um það að ég væri bara smáborgari.“

1988 opnar Kjarvalsíbúð í Frakklandi og var Margrét ein af þeim fyrstu til að fá þar inni. „Ég var þar í tvo mánuði á mjög sérkennilegum tíma. Það var mikið um árásir á gyðinga í Marais hverfinu. Það var skotið í gegnum rúður og allskonar. Maður sá fólk á götum borgarinnar sem var bæklað eftir stríðið. Það var hættulegt að fara þarna inn á þessum tíma. Þá var enn mikið hatur á þjóðverjum og maður þurfti að passa sig að tala íslensku ef einhver hélt að maður væri Þjóðverji. París var allt öðruvísi en hún er í dag. Ég var þarna í upphafi árs í janúar og febrúar og þá var enginn túrismi að vetri til. Þetta var afskaplega áhugaverður tími. Þetta var svo spennandi því maður kynntist borginni allt öðruvísi en í dag. 

Ég bara heillaðist. Mér fannst eins og það væri einhver suðupottur í París. Það voru allskonar þjóðerni þarna og andrúmsloftið hafði ofboðsleg áhrif á mig. Mér fannst svo mikil sköpun í þessu. Senan var eins og ég segi suðupottur af allskonar straumum.“ 

En Margrét fann líka mikla tengingu við landið. 

„Svo var á þessum tíma comeback af hönnuninni og þeirri listsköpun sem ég ólst upp við að pabbi og bróðir hans höfðu verið að skapa. Þegar maður hugsar til baka hefur það líklegast skapað einhverja tengingu. Já, hér er eitthvað sem ég kannast við,“ segir hún og brosir.

Tíu ár áttu eftir að þangað til Margrét fór aftur út en hún fékk aftur afnot af Kjarvalsíbúð árið 1998. Þá var ekki aftur snúið og eyddi hún nánast öllum sumrum í Frakklandi þar til hún keypti sér hús og vinnustofu árið 2003. „Þegar ég var búin að vera þarna í nokkur ár fannst mér tími til kominn að fá mér hús þarna í sveitinni. Það var líka hægt að fá hús á íslensku bílverði. Ég ákvað því að frekar fá mér hús í Frakklandi frekar en bíl á Íslandi,“ segir hún og hlær við. 

En hvers vegna sest hún að í Frakklandi? „Mér leið alltaf eins og ég væri að koma heim. Menningin og umhverfið hafa mikil áhrif á mig. Það var líka ódýrara að lifa þarna. En þarna var einhver tenging sem ég þurfti.“

Listin er einhvers konar skilaboð

En þó svo að Margrét eigi heimili og vinnustofu í Frakklandi kemur hún af og til heim að kenna. „Ég kem bara heim í vertíð. Hér er verstöðin,“ gantast hún. „Endar náðu ekki saman þegar ég var í fullri vinnu og gera það ekki heldur eftir að ég fór á eftirlaun“ bætir hún við.

Þegar Margrét er spurð út í hvenær hún byrjar að skapa fyrir aðra til að njóta er hún snögg að svara. „Ég hef aldrei verið upptekin af því að skapa söluvöru heldur er list mín einhverskonar skilaboð“. Hún heldur áfram og segir: „Ég hef aldrei verið að hugsa um aðra þegar ég skapa. Sköpun er mér nauðsynleg og hluti af lífi mínu. Þetta er eitthvað sem ég verð að gera og koma frá mér.“

En hvað er það sem hefur sem framkallar þörfina til að skapa? 

„Ég er málari og ég er alltaf að vinna með forgengileikann. Náttúran hefur alltaf verið í mínum verkum. Kannski þessi kvenlega sýn. Náttúran er ekki endilega það sem þú sérð. Hún er það sem ég finn.“

En hvað er það sem henni finnst áhugaverðast að skoða í náttúrunni? „Ég hef verið að vinna með rotnun. Það er bara eins og lífið er. Allt saman hverfur. Það finnst mér spennandi.“

Hún dregur upp bækling með ljósmyndum af rotnandi eplum og öðrum ávöxtum á dúk og segir: „Ég hef tekið þátt í útisýningu í Frakklandi sem stóð yfir í þrjá mánuði. Ég var að vinna með epli. Þá var ég að hugsa um aldingarðinn og syndina. Það fylgdi líka með stór kross með Jesú áföstum þannig þetta kom út eins og lítið leiði. En því miður er ekki hægt að bjarga manninum þannig krossinum var stolið,“ bætir hún við hlæjandi. 

Hringrás náttúrunnar, lok og endurnýjun lífsins heillar Margréti.

Hringrás náttúrunnar, lok og endurnýjun lífs heillar Margréti.

Hringrásin heillar 

Hringrásin heillar Margréti. „Þegar ég var ung sá ég og heyrði. Ég sá drauga. Ég man eftir því eitt sinn þegar ég var ung lá ég uppi í rúmi. Mér birtist filma. Á þeim tíma hafði ég aldrei séð hana áður en ég man bara eftir götunum. En mér finnst ég hafa séð líf mitt. Ég kveið því alltaf að verða fullorðin því ég sá fyrir að það yrðu miklir erfiðleikar.“

En hún bældi niður innsæi sitt eftir því sem hún varð eldri því viðhorfið gagnvart því var að þetta væru hindurvitni. „En það var mikill spíritismi hérna áður. Þegar ég var í sveit hjá frænku minni var bókaskápur fullur af bókum um spíritisma og ég las allar þessar bækur þegar ég var krakki,“ segir hún. 

Nú nýverið lauk sýningu Margrétar sem bar heitið Náttúra/að vera. Þar voru til sýnis verk úr myndröðinni IN MEMORIAM í Hannesarholti ásamt þeim verkum sem hún vann þegar hún strandaglópur í covid faraldrinum í Frakklandi. Einnig hlaut Margrét verðlaun á þessu ári frá Norræna vatnslitafélaginu. „Það var voða gaman að fá smá klapp á bakið,“ segir hún um þau. 

Við skoðum í gegnum verk hennar og hún heldur áfram: „Undanfarin tuttugu ár hef ég aðallega verið að vinna með eggtempru og vatnsliti. Náttúran er alltaf í forgrunni hjá mér.“

Vinnur þú með andstæða póla í verkum þínum?

„Rotnunin verður að næringu þannig hún er í raun og veru falleg í ljótleika sínum,“ segir hún og hugsar sig síðan um og bætir við, „eða við hræðumst hana.“

Ætlar þú að sýna aftur í bráð?  „Nú þegar ég er komin á þennan aldur lifi ég fyrir daginn. Ég vil geta unnið. Það er svo mikil vinna að lifa og hafa í sig og á þannig það tekur tíma. Ég vil bara vinna í friði,“  segir hún og hlær. 

En Margrét heldur áfram að fylgja innsæinu og vill ekki gera of mikil plön varðandi sýningarhald. Frekar leyfa tækifærunum að dúkka upp þegar þörfin fyrir þau kemur. Margrét talar af mikilli ástríðu um listsköpunina. Það er greinilegt að listin er henni afar dýrmæt og hún lítur á sig sem miðil fyrir skilaboð. „Myndlistin eru skilaboð fyrir mér. Þú ert að umbreyta einhverju í eitthvað annað sem er læsilegt,“ segir hún að lokum. 

Eva Halldóra Guðmundsdóttir sviðslistamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Meiri upplýsingar um Margréti og verk hennar er að vinna á heimasíðu hennar https://mjons.blogspot.com/, á instagram https://www.instagram.com/mjons_artist/ eða facebook https://www.facebook.com/margretjonsdottir.art.

Ritstjórn nóvember 10, 2023 07:00