Systravinátta í heilan mannsaldur

Systurnar Kristínu og Salome Þorkelsdætur þarf vart að kynna fyrir lesendum Lifðu núna, enda voru þær báðar áratugum saman áberandi í þjóðlífinu vegna starfa sinna: Kristín rak lengi eina stærstu auglýsingastofu landsins og var og er einn mikilvirkasti grafíski hönnuður þjóðarinnar, en Salome er þekktust fyrir stjórnmálaferil sinn sem hófst á sjöunda áratugnum í hreppsstjórn Mosfellssveitar en lauk í stól forseta Alþingis. Báðar hafa þær verið sæmdar Fálkaorðunni fyrir framlag sitt til þjóðlífsins.

Salome er fædd í júlí 1927 og er orðin 95 ára. Kristín er tæpum áratug yngri, fædd 1936.

„Það var eins og ég ætti þrjár mömmur,“ segir Kristín um að eiga í uppvextinum tvær mun eldri systur, sem hefðu því verið henni líkt og önnur og þriðja mamman. Elzta systirin, Ingibjörg, var ári eldri en Salome. Hún starfaði lengi hjá Brunabótafélagi Íslands og síðar VÍS, en hún er látin. Alls voru þau systkinin fjögur. Sigurður bróðir þeirra, sem lengi gegndi embætti ríkisféhirðis, er níræður síðan í febrúar sl.

Þau systkinin ólust upp í austurbæ Reykjavíkur á millistríðs- og stríðsárunum. Eins og títt var um fjölskyldufólk á þessum tíma fluttu þau oft, en þegar fjölskyldunni tókst loks að koma sér upp eigin húsi voru elztu systurnar þegar fluttar að heiman og búnar að stofna eigin heimili. Faðir þeirra, Þorkell Sigurðsson, var vélstjóri á sjó og móðir þeirra, Anna Þ. Sigurðardóttir, annaðist því uppeldi systkinanna að mestu. Systkinin eiga ekki langt að sækja langlífið – móður þeirra, sem fæddist árið 1900, vantaði aðeins fimm mánuði í að verða 100 ára þegar hún lézt aldamótaárið 2000.

Systkinin öll á góðri stund – Ingibjörg, Sigurður, Kristín og Salome.

Salome var um tvítugt þegar hún hóf búskap með sínum manni, Jóel K. Jóelssyni garðyrkjubónda. Fyrst um sinn bjuggu þau í Biskupstungum en fluttu svo í Reykjahlíð í Mosfellsdal, þar sem Jóel tók við rekstri garðyrkjustöðvar Reykjavíkurborgar sem þá hét.

Margt skemmtilegt brallað í Dalnum

Salome útskrifaðist úr Kvennaskólanum í Reykjavík 1946, en Kristín var aðeins fimmtán ára þegar hún fékk inngöngu í Myndlistar- og handíðaskólann 1951, svo óhætt er að segja að þar beygðist krókurinn snemma til myndlistariðkunar. En sumrunum þar á undan varði Kristín í gróðurhúsunum í Reykjahlíð í sumarvinnu hjá mági sínum og systur.

Salome með manni sínum Jóel K. Jóelssyni. Hann féll frá árið 2007.

„Það var ýmislegt skemmtilegt sem gerðist þarna uppi í Dal, hjá hjónunum í Reykjahlíð,“ rifjar Kristín upp. Þau krakkarnir hefðu meðal annars ráðist í að stífla Varmána. „Jóel var mjög skilningsríkur gagnvart uppátækjum barna. Hann lánaði okkur sandpoka að moka í, fyrir stíflugerðina. En áður en við byrjuðum að moka þurfti ég að fara á bæi upp með ánni og biðja fólk að hætta að henda rusli í ána. Það tíðkaðist þá, þar sem sorphirðuþjónusta var ekki tekin upp fyrr en síðar. Þessu erindi okkar var afskaplega vel tekið, og við krakkarnir bjuggum til stíflu. Til að flýta fyrir okkur mokuðum við upp sandi, og settum pokana ofaná. Stíflan gaf sig því fljótt – áin átti auðvelt með að ryðja burt sandinum undir pokunum. En við lærðum á þessu og höfðum mikið gaman af.“

Systurnar bæta því við að reyndar hafi Jóel gerzt enn metnaðarfyllri í nýtingu Varmárinnar; hann bjó til sundlaug í hlöðunni í Reykjahlíð, sem eins og gefur að skilja var mjög vinsæll vettvangur leikja fyrir börn úr öllum dalnum. En ekki bara börn; meira að segja „Blekbóndinn“, eins og Nóbelsskáldið Halldór Laxness var stundum nefndur í gamni af nágrönnum sínum, hefði gert sér að góðu að fá sér sundsprett þar áður en sundlaugin við Gljúfrastein var tilbúin.

Tillitssamur frambjóðandi

Salome segir að þetta með ruslið í ánni hafi hún gert að einu fyrsta baráttumáli sínu í pólitíkinni, þ.e. að beita sér fyrir því að Mosfellshreppur tæki upp sorphirðuþjónustu fyrir íbúana. Þessu mælti hún fyrir í fyrstu framboðsræðu sinni, þegar hún bauð sig fram til sveitarstjórnar á sínum tíma, en til þess var hún hvött af kvenfélagssystrum sínum þáverandi. Hún tók fyrst þátt í kjöri til hreppsnefndar Mosfellssveitar árið 1962, þá fyrir „Lista launþega“, en flokkslistar tíðkuðust ekki í slíkum kosningum fyrr en mun síðar. Frá árinu 1965 átti Salome síðan sæti í hreppsnefnd allt fram til þess er hún var fyrst kjörin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1979. Síðustu árin í sveitarstjórninni þjónaði Salome sem oddviti. Hún átti svo farsælan þingmennskuferil, sem hún kórónaði með því að gegna stöðu þingforseta síðasta kjörtímabilið sem hún sat á þingi, 1991-1995.

Salome í forsetastól Alþingis árið 1991.

Kristín vekur athygli á því hve tillitssöm Salome hafi alltaf verið í framboðsmálum sínum. Áður en hún gaf kost á sér í hreppsnefndarkosningum í Mosfellssveit á sínum tíma hafi hún farið á fund Helgu á Blikastöðum, sem þá var mörgum konum í sveitinni fyrirmynd á sviði félagsstarfa. Helga tjáði ungu konunni úr Reykjahlíð að hún ætlaði hvort eð er að hætta í hreppsnefnd, „svo mér var þá óhætt að bjóða mig fram,“ segir Salome, og bætir við að hún hafi alltaf gætt þess allan sinn feril að „stíga ekki á tærnar á félögum mínum,“ það er að sækjast ekki eftir hærra sæti á framboðslista en hún teldi að væri sanngjarnt gagnvart flokksfélögum sínum og/eða hún teldi sig hafa unnið sér inn fyrir.

Hún undrist því stundum þá tilætlunarsemi sem sumt ungt og reynslulítið fólk sýni í framboði til Alþingis. Þetta sé eitt dæmið um breytta tíma og breytt viðhorf. Hún haldi þó fast í þá skoðun sína að það sé ekki æskilegt að fara til dæmis beint úr háskólanámi inn á þing. Alþingi sé ekki rétti vettvangurinn fyrir stúdentapólitík. Að sínum dómi sé betra að afla sér víðtækari reynslu áður en manneskja taki sæti á löggjafarþingi þjóðarinnar.

Aldursfordómar fyrr og nú

Salome bætir samt við að bæði þá og nú ríki fordómar gagnvart eldra fólki. Hún hafi verið 67 ára þegar hún fór síðast í prófkjör. Þá hafi fréttakona spurt sig: Ertu ekki of gömul? Henni hafi þótt spurningin beinlínis móðgandi, enda var hún við hestaheilsu og með fulla starfsorku. Jafngamall karlframbjóðandi hefði ekki fengið þessa spurningu. En svona var þetta nú.

Það vakti nokkurt umtal á sínum tíma þegar Salome, þá með fimmtán ára farsælan þingmennskuferil að baki, þar af síðustu þrjú sem þingforseti, féll í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi (sem Mosfellssveit tilheyrði þá) síðla árs 1994. Hún dró ekki dul á það þá að hún ræki höfnunina fyrst og fremst til þess að hún væri 67 ára gömul kona.

Varðandi viðhorfið til aldurs bætir Kristín við, að hún voni að það verði innleiddur meiri sveigjanleiki í kringum starfslok fólks, að því verði ekki sjálfkrafa hent út af vinnumarkaði um leið og það verður sjötugt. „Með því er oft verið að henda út svo dýrmætri reynslu,“ segir hún. Þetta segi hún líka sem fyrrverandi atvinnurekandi. Það hafi reynzt sér affarasælast að hafa passlega blöndu af ungu fólki og reyndara í starfsmannahópnum.

Fyrsti forseti Alþingis í einni málstofu

Mynd af Salome sem forseta Alþingis sem Kristín málaði.

Þegar Salome settist fyrst á þing árið 1979 var hún ein þriggja kvenna sem þar áttu sæti það kjörtímabilið og eina konan í stórum þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Hinar þingkonurnar tvær voru Jóhanna Sigurðardóttir í Alþýðuflokki og Guðrún Helgadóttir fyrir Alþýðubandalagið. Næsta kjörtímabil þar á eftir, 1983-1987, fjölgaði konum á þingi lítillega; Ragnhildur Helgadóttir kom þá aftur inn fyrir Sjálfstæðisflokkinn og settist í ráðherrastól. Sjálf segist Salome ekki hafa sótzt eftir ráðherraembætti, ef fyrir hvatningu frá Ragnhildi hafi hún gefið kost á sér í embætti forseta efri deildar Alþingis og gegndi því embætti kjörtímabilið 1983-1987. „Svo var ég kjörin varaforseti sameinaðs þings, þegar Guðrún Helgadóttir var forseti þess, fyrst kvenna. Eftir kosningar 1991 varð ég svo forseti sameinaðs þings og við gildistöku breyttra þingskapa forseti Alþingis í einni málstofu,“ segir Salome.

Salome, sem fylgist enn náið með gangi mála á Alþingi, segir þegar hér er komið sögu: „Mér finnst stjórnmálaumræðan vera mun grimmari, rætnari núna en hún var í minni tíð í framlínunni.“ Kristín og blaðamaður eru því ekki endilega sammála; finna megi dæmi um slíkt í íslenzkri stjórnmálaumræða langt aftur í tímann. Við erum hins vegar öll sammála um að fjölmiðlarnir hafi breytzt mjög mikið, og það setji að sjálfsögðu mark á stjórnmálaumræðuna.

Kristín sinnir enn vinnu

Kristín segir að þótt hún sé 85 ára gömul sé hún enn að taka að sér verkefni. Hún hafi haft sérlega gaman af einu sem henni var falið í fyrra; þá leitaði Vilborg Halldórsdóttir, leikkona og eiginkona Helga Björnssonar tónlistarmanns, til hennar. Vilborg hafði þá ákveðið að gefa út á bók hugvekjur þær sem hún hafði samið og flutt í hinum vinsælu sjónvarpstónleikaþáttum „Heima hjá Helga“, sem styttu landanum stundir á laugardagskvöldum þegar samkomutakmarkanirnar voru hvað harðastar í faraldrinum. Kristín tók að sér að myndskreyta bókina með vatnslitamyndum. Bókin kom út fyrir jólin.

Með nýjustu verkum Kristínar eru vatnslitamyndskreytingar við bókina „Hugleiðingar Vilborgar“.

Vert er líka að geta þess að það tók sinn tíma að koma viðtalinu við þær systur í kring, meðal annars vegna anna Kristínar. Í maímánuði var nefnilega dagskrá í gangi á vegum Hönnunarmars, en þáttur í þeirri dagskrá var sýning á verkum Kristínar.

Eins og hér að framan er getið beygðist sá krókur snemma sem kom Kristínu á braut myndlistar og grafískrar hönnunar. Sem barn og unglingur stefndi hún á að verða myndlistarmaður. Örlög hennar urðu þó þau að fara að vinna fyrir sér sem grafískur hönnuður strax eftir útskrift úr Myndlistar- og handíðaskólanum árið 1956. Í náminu kynntist hún tilvonandi eiginmanni sínum, Herði Daníelssyni, og varð þeim snemma barna auðið. Í lýsingu á ferli Kristínar á vef Hönnunarmars segir: „Í kjölfarið velti Kristín fyrir sér hvort hún gæti fengist við sköpun og orðið sér úti um lifibrauð á krefjandi tímum. „Hönnun“ varð því fljótlega að samheiti yfir brauðstrit og listræna tjáningu, en örlögin höguðu því einnig þannig að hönnunarvinna Kristínar umbreyttist að lokum í eina stærstu auglýsingastofu landsins – AUK hf. (1967–1994).“

Þjóðin þekkir vel mörg verka Kristínar, en gott dæmi um hana eru umbúðirnar sem prýddu mjólkurfernur Mjólkursamsölunnar síðast liðið sumarið: blómamynstrið á þeim er hönnun Kristínar frá árinu 1985. Að ekki sé minnzt á núgildandi peningaseðla Seðlabankans, vegabréf íslenzkra ríkisborgara, merki sveitarfélaga, félagasamtaka og hátíða, og þannig mætti lengi telja.

Blómamynstursfernurnar hannaði Kristín fyrir MS árið 1985, en þær mátti sjá aftur í mjólkurkælum landsmanna nú í vor.

Eitt fyrsta merkið sem Kristín hannaði var merki Mosfellssveitar. „Ég lagðist í heilmikla rannsóknarvinnu. Hugmyndin að baki merkinu var silfur Egils. Leitaði því til Kristjáns Eldjárns, sem þá var fornleifafræðingur hjá Þjóðminjasafninu. Hann sýndi mér silfurpeninga úr víkingatímasjóði. Þar var einn peningur með þrískiptum skildi á, sem ég notaði sem fyrirmynd og er enn í merki Mosfellsbæjar,“ segir Kristín um þetta æskuverk sitt sem grafískur hönnuður.

„Heppnar með afkomendur“

Báðar segjast þær systurnar hafa átt hamingjuríkt fjölskyldulíf. „Við áttum sinn hvorn sérvitringinn fyrir eiginmenn,“ segir Kristín. Hún eigi sinn ennþá, en Jóel garðyrkjubóndi féll frá árið 2007. „Jarðarförin hans fór fram á áttræðisafmælinu mínu,“ segir Salome. Þannig hafi erfidrykkjan í Félagsgarði jafnframt verið áttræðisafmæliveizla ekkju hins látna, sem gerði hana þeim mun eftirminnilegri fyrir þá sem hana sóttu. „Mér fannst það bara passa,“ segir Salome.

Kristín með eiginmanni sínum og ævilöngum samverkamanni í myndlistinni, Herði Daníelssyni.

Salome og Jóel eignuðust þrjú börn; Önnu fædda 1947, Jóel Kristin fæddan 1951, og Þorkel fæddan 1952. Öll börn hennar eru því nú komin á löglegan eftirlaunaaldur. Barnabörnin eru átta, og nú segist Salome eiga von á tólfta langömmubarninu.

Kristín segir: „Ég verð nú bara að segja um fjölskyldu mína að mér finnst ég svo heppin með afkomendur og tengdabörn. Þetta er svo yndislegt fólk allt saman.“ Salome tekur heils hugar undir þessi orð systur sinnar.

Börn Kristínar og Harðar eru Heiðar Rafn (f. 1956), Daði (f. 1958), og Þorkell Sigurður (f. 1969). Heiðar er tölvunarfræðingur og forritari hjá Tern Systems. Daði er keramiker og útgefandi hjá Nýjum víddum og Þorkell er kvikmyndaframleiðandi hjá Markell Productions. Starfsvettvangur barna Salome er álíka fjölbreyttur: Anna er þekkt fyrir myndlist, Jóel starfar við bílainnflutning og Þorkell er tónlistarmaður. Þorkell er eiginmaður Sigrúnar Hjálmtýsdóttur, Diddúar, en þau tónlistarhjónin eru einnig meðal rótgrónustu íbúa Mosfellsdals.

Óhætt er líka að segja að börn þeirra og afkomendur séu ræktarsöm við þær, og öfugt. Börn og tengdabörn Salome koma á hverjum sunnudegi til hennar í kaffi og hjónabandssælu, sem hún bakar sjálf.

Yngsti sonur Kristínar hefur fest kaup á húsi foreldra sinna við Lindarhvamm í Kópavogi, þar sem þau hafa búið óslitið í meira en hálfa öld. Þessi ráðahagur gerir þeim gömlu hjónunum kleift að flytja í áföngum í þjónustuíbúð í Fannborginni – en eins og gefur að skilja hefur á löngum ferli myndlistarpars safnazt upp drjúgmikill lager verka sem er ærið verk að finna stað þegar flutt er.

Eftirmáli: Snör viðbrögð

Þegar viðtali og myndatöku var lokið fylgdi gestgjafinn Salome okkur Kristínu til dyra, en hún býr á fjórðu hæð í þjónustuíbúðakjarna. Þegar við Kristín erum að ganga út að bílnum heyrist kallað ofan úr glugga: Kristín hafði gleymt veskinu sínu uppi hjá systur sinni. Blaðamaður býðst til að stökka upp að sækja það. En hann kemst ekki nema að lyftudyrunum, þar sem Salome er mætt með það niður á fyrstu hæð, snör í snúningum. Já, þær systurnar eru svo sannarlega ekki af baki dottnar, þótt samanlögð æviár þeirra séu nú orðin 180!

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. Grein uppfærð 14.desember 2022

Ritstjórn júní 17, 2022 07:00