Rúmlega sextugir hafa lítil áhrif í nefndum á Akranesi

Jóhannes Finnur Halldórsson viðskiptafræðingur skrifar, en greinin birtist áður í Skessuhorni

Eftir sveitarstjórnarkosningar, þarf að kjósa í fjömargar nefndir. Mér lék forvitni á að vita, hvernig kosið var í nefndirnar á Akranesi með tilliti til aldursskiptingar. Þegar ég var búinn að greina það, þá vakti sérstaka athygli mín staða íbúa 60 ára og eldri og það langar mig að ræða aðeins hér. Þegar skoðuð er íbúaþróun hér á Akranesi frá árinu 1998 til 2014, kemur í ljós að í aldurshópnum 60 ára og eldri hefur fjölgað úr 820 einstaklingum í 1.222 eða næstum 50%.

graf01

Íbúum á Akranesi hefur fjölgað úr 5.125 einstaklingum í 6.699 íbúa [Hagstofa Íslands. 1. Jan. 2014] í íbúum 60 ára og eldri er því að fjölga mikið umfram íbúafjölgunina almennt í bæjarfélaginu. En kíkjum aðeins á nefndarkosningarnar aftur. Samkvæmt fundargerð bæjarstjórnar Akraness frá 19. júní sl. [Kvenréttindadagurinn. Ýmis ákvæði eru til í lögum og reglugerðum um jafna skiptingu kynja í nefndum.] var kosið í 24 nefndir, ráð og stjórnir. Bæjarstjórnin sjálf er sú 25. Fulltrúar þar sitja eðlilega í mörgum nefndum og því er hún tekin út fyrir sviga í þessari úttekt. Kosnir voru 72 fulltrúar í nefndir og eðli málsins samkvæmt voru stundum sömu aðilar í fleiri en einni nefnd, ráði eða stjórn. Þegar hver fulltrúi er aðeins talinn einu sinni, þá voru 50 einstaklingar kosnir í nefndirnar.

Þá kem ég aftur að umfjöllunarefni þessarar blaðagreinar.

graf02

Hér kemur í ljós að hlutfall íbúanna 60 ára og eldri frá árinu 1998 til 2014 eykst verulega og er 18,2% af öllum íbúum Akraness í byrjun þessa árs eða næstum því 1 af hverjum 5 íbúum. Hvað skyldu þá margir fulltrúar 60 ára og eldri vera í nefndum sem kosnir voru af bæjarstjórn þann 19. júní sl. Þeir eru 5 af 72 kosnum fulltrúum eða 6,9%. Svo geta lesendur velt fyrir sér hverra flokka þessir fulltrúar eru, hversvegna og um hvaða nefndir er að ræða. Það er annað mál.Nú er það alveg ljóst að fulltrúar sem kosnir voru í nefndir munu gæta hagsmuna allra íbúa bæjarins eftir bestu vitund og vilja, á því er enginn vafi í mínum huga. Spurningin er að hafa þekkingu á hagsmunum 60 ára og eldri. Hópurinn er vaxandi hlutfall íbúanna á Akranesi. Það þarf að taka tillit til hans í hvívetna og þeir íbúar þurfa að fá sín áhrif í samfélaginu. Ég kalla eftir því.

Höfundur verður 60 á árinu og bíður spenntur eftir „bréfinu“.

Ritstjórn ágúst 12, 2014 15:48