Samið um nýtt hjúkrunarheimili fyrir 60 manns í Reykjanesbæ

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, undirrituðu í dag samning um nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ. Gert er ráð fyrir að heimilið verði tekið í notkun um mitt ár 2023. Ákvörðun um að ráðast í þessa uppbyggingu er í samræmi við niðurstöður frumathugunar Framkvæmdasýslu ríkisins á liðnu ári. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins. Þar segir ennfremur:

Fjölgun hjúkrunarrýma og stórbættur aðbúnaður

Nýbyggingin mun rísa við hlið núverandi hjúkrunarheimilis á Nesvöllum og verður samtengd því í samræmi við áherslur Reykjanesbæjar. Með tilkomu heimilisins fjölgar hjúkrunarrýmum í bæjarfélaginu um 30 en 30 rýmanna koma í stað þeirra rýma sem nú eru á Hlévangi. Hlévangi verður lokað enda aðstæður þar ekki lengur í samræmi við nútímakröfur til húsnæðis og aðbúnaðar á hjúkrunarheimilum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra: „Þetta er gleðidagur sem markar upphafið að stórri og mikilvægri framkvæmd fyrir íbúa á þessu svæði. Hjúkrunarrýmum fjölgar umtalsvert með þessari framkvæmd sem er mikilvægt. Þá er ekki síður gott til þess að vita að hér verður til aðstaða sem stenst kröfur um aðbúnað eins og best verður á kosið, bæði fyrir íbúa og starfsfólk.“

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri: „Þetta er stórt skref í rétta átt fyrir okkur Suðurnesjamenn enda þörfin fyrir fleiri hjúkrunarrými á svæðinu brýn. Við mun nýta árið 2020 til undirbúnings framkvæmdinni svo sem að breyta skipulagi á svæðinu og fullhanna nýtt hjúkrunarheimili. Síðan er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefist af fullum krafti á árinu 2021 og taki rúm tvö ár en samkomulagið gerir ráð fyrir að heimilið verði tekið í notkun um mitt ár 2023.“

Áætluð stærð nýja hjúkrunarheimilisins er um 3.900 fermetrar og áætlaður framkvæmdakostnaður er 2.435 milljónir króna. Samkvæmt samningnum sem undirritaður var í dag verður framkvæmdin á hendi sveitarfélagsins. Reykjanesbær annast fjármögnun framkvæmdakostnaðar en heilbrigðisráðuneytið greiðir sveitarfélaginu 85% kostnaðarins á árunum 2020–2023 í samræmi við framvindu verksins en sveitarfélagið greiðir 15% af framkvæmdakostnaði.

Ritstjórn febrúar 27, 2020 14:43