Jónas og aðrir Íslendingar erlendis

Óttar Guðmundsson geðlæknir.

Óttar Guðmundsson geðlæknir skrifar

Samkvæmt tölum Hagstofunnar búa liðlega 45 þúsund Íslendingar erlendis eða 15 % þjóðarinnar. Fjölmiðlar eru óþreytandi að hafa viðtöl við þetta fólk sem venjulega er gagnrýnið á gamla landið. Sömu sögu er að segja frá óteljandi færslum á face-book erlendis frá.  „Allt er ómögulegt á Íslandi, veðrið, verðið, heilbrigðiskerfið, skólarnir og umferðin.“ Stöð 2 er með fastan þátt um Íslendinga erlendis sem heitir: „Hvar er best að búa?“ Svarið liggur í augum uppi; það er alls staðar nema á Íslandi. Þetta virðist sér-íslenskt fyrirbæri að fjargviðrast yfir gamla landinu þegar komið er út fyrir landsteinana.

Þetta er þó engin ný saga. Tímaritið Fjölnir var gefið út í Kaupmannahöfn af nokkrum Íslendingum á árunum 1835-1847. Í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar í lok 19. aldar og upphafi þeirrar tuttugustu var Fjölnir í hávegum hafður. Margir héldu því fram að Jónas Hallgrímsson og Fjölnir hefðu bjargað íslenskunni frá glötun og þeir Fjölnismenn væru sannar frelsishetjur.

Meðal Íslendinga hér heima var ritið ákaflega óvinsælt. Fólki mislíkaði hroki þessara ungu Íslendinga búsettra í Danmörku. Þeir tóku upp lítilsvirðingu danskra nýlenduherra og settu sig á háan hest gagnvart þjóð sinni. Málflutningur þeirra minnti stundum á þættina á Stöð 2 eða face-book: „allt er ómögulegt á Íslandi.“  Kvæði Jónasar „Ísland farsældar Frón,“ var kallað grafskrift yfir Íslandi.

Boðskapur Jónasar Hallgrímssonar var einfaldur. Hann orti um glæsta fortíð þjóðarinnar og fegurð landsins. Mesta böl Íslands var fólkið sem þar bjó. Íslendingar voru að mati Jónasar sofandi og sljóar liðleskjur sem nenntu engu og héngu geispandi yfir engu. Hann talar um „hnípna þjóð í vanda.“ Þetta stef er að finna í fjölmörgum kvæðum Jónasar. Landið er fagurt og frítt en þjóðin löngu fallin á prófinu.

Fjölnir réðist af miklu offorsi gegn alþýðumenningu og sérstaklega að Sigurði Breiðfjörð rímnaskáldi. Blaðið fann honum allt til foráttu, hortitti, dönskuslettur og alls konar heimsku. Ádeila Jónasar á Sigurð var öðrum þræði stéttaátök. Sigurður var fulltrúi fátækrar alþýðu landins en Jónas hinnar menntuðu íslensk-dönsku embættismannastéttar. Hann lýsti yfir stríði á hendur rímunum sem þó höfðu leikið stórt hlutverk í viðgangi íslenskunnar. Þessi gagnrýni Jónasar á Breiðfjörð féll þó í grýttan jarðveg framan af en smám saman var Sigurði útskúfað úr musteri íslenskra bókmennta en Jónas settur á stallinn sinn.

Ég skil vel neikvæðar tilfinningar fólks gagnvart þessu hrokafulla riti. Mér líður eins  þegar ég hlusta á þessi neikvæðu viðtöl við suma Íslendinga búsetta erlendis. Harmleikur þessa fólks felst í því að hafa glatað uppruna sínum og ekkert fengið í staðinn nema innantóma frasa og ómælt, ódýrt áfengi.  Menn reyna að sannfæra sjálfa sig um réttmæti þeirrar ákvörðunar að setjast að erlendis með því að hæða og tala niður ættjörðina.

Jónas Hallgrímsson var mikið skáld en enginn hamingjumaður. Síðustu æviárum sínum eyddi hann á fylleríi í Kaupmannahöfn í leit að sjálfum sér og einhverjum tilgangi tilverunnar. Hann flutti úr einu greninu í annað, síblankur og þunglyndur. Hann yrkir saknaðarkvæði til stúlkna sem aldrei voru til, illa haldinn af fortíðarþráhyggju. Á sama tíma berst hann gegn eðlilegum framförum á Íslandi eins og myndun byggðakjarna við strandlengjuna og flutningi Alþingis til Reykjavíkur. Ævilokin urðu honum erfið eins og öllum þeim sem fjarlægjast uppruna sinn.

Sagan varð þó Jónasi hliðholl. Hann rataði á tíuþúsundkallinn og stytta af honum stendur í Hljómskálagarði. Bein hans voru grafin upp eins og dýrlingsbein og jarðsett á Þingvöllum. Sjálfur hefði hann tæpast trúað á síðbúna frægð sína þegar hann staulaðist þunglyndur og drukkinn upp brattan stiga í dönsku húsi 1845 til móts við skapara sinn.

Óttar Guðmundsson maí 15, 2023 07:00