Tengdar greinar

Sigrún Einarsdóttir glerlistakona

Þeir sem, eru komnir yfir miðjan aldur muna eflaust eftir Gleri í Bergvík, verkstæðinu sem Sigrún Einarsdóttir rak á Kjalarnesi ásamt dönskum eiginmanni sínum, Sören Staunsager Larsen. Margir fengu bæði glös og skálar sem þar voru framleiddar, í brúðar-, jóla- og afmælisgjafir en þessir munir hafa lítið sem ekkert sést í verslunum á síðustu árum.  Sigrún býr samt enn í Bergvík en missti Sören manninn sinn fyrir nær 20 árum.  Þau fluttu til Íslands 1980 og árið eftir fengu þau húsið í Bergvík afhent, en það var fjárhús fullt af skít. Þau gerðu það upp og byggðu verkstæðið sem var opnað 1982.

„Ég eldist eins og aðrir“, segir Sigrún þegar blaðamaður Lifðu núna hringir í hana, til að forvitnast um hvað hún er að gera í dag. „Ég rak verkstæðið ein eftir að Sören féll frá en ákvað að hætta að blása gler árið 2017. Ég hafði farið á námskeið hjá listamanni í Suður-Englandi og ákvað að halla mér að öðrum framleiðslu aðferðum. Áður en ég hætti alveg blés ég marga hluti sem ég ætlaði að fullvinna síðar“ segir hún og  á enn töluvert af glermunum.

„Ég hef hins vegar leigt blástursofninn út og núna er hjá mér ungur maður frá Danmörku sem er að vinna í honum. Ég get fengið að blása hvenær sem er eða látið blása fyrir mig, en ég hef bara minnkað við mig, þoli illa stress og forðast það núorðið. Margir sem hafa rekið glerverkstæði hætta eftir svona 40 ár og eru þá slitnir á taugum eftir stressið sem fylgir svona rekstri“, segir hún.

Þegar þau Sigrún og Sören fluttu til landsins eftir glerlistanám hennar í Danmörku  var mikil gróska í listhandverki hér, en það var enginn að blása gler. „Þetta var spennandi tími en líka harður“, segir Sigrún um árin þegar þau byggðu glerverkstæðið upp. „Við blésum alla daga vikunnar nema mánudaga sem við höfðum sem bæjardaga. En við unnum allar helgar. Við tókum okkur þó stundum frí og fórum til dæmis til Danmerkur“. Það sem gerði vinnuna enn erfiðari var að það var enginn að blása gler á Íslandi nema þau og ef eitthvað vantaði, varahluti eða viðgerðir þurftu þau iðulega að hringja til Bandaríkjanna eftir slíku og einnig til að fá ráð.

Þau Sigrún og Sören byggðu upp glerverkstæðið í Bergvík og það hefði mátt ætla að það yrði upphaf glerblásturs á Íslandi,  en glerið var greinilega ekki komið til að vera og Sigrún segir sorglegt að skólarnir hér hafi ekki sýnt því  neinn áhuga. „Þegar Listaháskóli Íslands var stofnaður var öllu handverki ýtt út“, segir hún.  Myndlistarskólinn í Reykjavík var eini skólinn sem bauð um tíma uppá diplomanám í leirlist, textíl, teikningu  og fleiru og Sigrún var með námskeið þar, þangað til nýr skólastjóri tók við og lagði námskeiðið niður. „Það hefur enginn tekið við af okkur, enginn sem heldur bikarnum á lofti“, segir Sigrún og bætir við að stundum hafi fólk áhuga á að koma og sjá glerblástur hjá henni, en áhuginn sé minni en áður var og unga fólkið hafi ekki áhuga á að horfa á glerblástur á verkstæði. Það segi bara „Nei, ég get séð þetta á YouTube!“.

Sigrún segist stundum líkja sér við „shakerana“ bandarísku sem voru miklir áhrifavaldar í hönnun meðal annars í Danmörku. „Shakeranrnir“ voru afsprengi Kvekara og voru skírlífir. „Þeir gerðu svo fallega muni og dekruðu til dæmis við skúffur og kommóður. „Fléttustóll Börge Mogensen varð til fyrir innblástur frá þeim“, segir Sigrún.

Glersamfélagið var og er mjög skemmtilegt og Sigrún segist búa að því  vera hluti af því.  Nýlega var henni boðið á glerlistaráðstefnu í Úkraínu. Þar eignaðist hún vini, sem sumum fannst merkilegt að hún svona gömul kona væri að blása gler! Áður hafði henni verið boðið að sækja samskonar viðburð Litháen. „Þegar ég spurði hvernig þeir hefðu vitað af mér, sögðust þeir hafa frétt af mér í Færeyjum“, segir hún.

Sigrún býr enn í Bergvík og  segist helst ekki fara í bæinn. „Ég finn engan stað í Reykjavík sem mig langar að búa á. Það eru margir sem hafa viljað kaupa húsin hérna, en ég tími ekki að fara á meðan ég get verið hér, þetta er svo mikil paradís“, segir hún. Dóttir hennar býr í borginni ásamt tveimur ömmustrákum og Sigrún á tvo stjúpsyni í Kaupmannahöfn sem hún heimsækir oft, en þar eru líka 6 barnabörn.

Hún segist alltaf vera að búa til hluti, það hafi hún gert frá því hún var 5-6 ára. Hún hefur verið að búa til keramík að undanförnu og leikföng úr tré. „Ég er bara að hafa það skemmtilegt. Ef einhvern vantar eitthvað úr gleri þá hoppa ég til. Ég hef verið að hanna með dananum sem leigir ofninn hjá mér. Við erum að gera karöflur og jólakúlur, það er mjög skemmtilegt en er ennþá  allt á fiktstigi“, segir hún. Og úti í Kaupmannahöfn hefur Sigrún litið til með tveimur stúlkum sem eru að blása gler. „Ég vil ýta undir konur, þannig að þær þurfi ekki að láta karlana gera þetta fyrir sig“ segir hún og segir gaman að vera gamla konan sem fer á milli verkstæða og er boðið að sýna og sækja ráðstefnur víða um heim.

„Ég lifi fyrir daginn í dag og er ekki með langtímaplön. Ég er farin að missa vini úr elli og sjúkdómum. Þá sé ég hversu mikilvægur hver dagur er og þess virði að lifa honum“.

Sigrún er með Galleríið opið eftir samkomulagi, þannig að þeir sem vilja krækja sér í glermunina hennar, áður en hún hættir alveg geta hringt og fengið að koma. Hún hélt líka sýningu á verkum sínum á Seltjarnarnesi í haust. Þar voru yfir 70 lampar og lampaskermar eftir hana. Hér fyrir neðan má sjá tvö verkanna.

Ritstjórn febrúar 8, 2023 07:00