Tengdar greinar

Sigurför hóps kvenna á breytingaskeiðinu

Hópur kvenna kemur fram á sviðinu með Lovísu í lok hverrar sýningar. Mynd: Tale Handnes.

Lovísa Ósk Gunnarsdóttir er 45 ára gömul en líður, í anda, alveg eins og þegar hún var þrítug. Eiginmaður Lovísu er Ólafur Darri Ólafsson  leikari og þau eiga saman tvær dætur. Lovísa upplifir að viðhorf samfélagsins til kvenna á miðjum aldri sé í hrópandi ósamræmi við það hvers þessi risastóri hópur á hverjum tíma sé megnugur. Hún tók því málin í sínar hendur, sagði ríkjandi viðhorfum stríð á hendur og gerði sviðsverk um breytingakskeið kvenna sem ber heitið „When the Bleeding Stops“.

Segir ríkjandi viðhorfum stríð á hendur

Lovísa er dansari og danshöfundur og dansaði með Íslenska dansflokknum í 16 ár. Þá slasaðist hún eða 2018, þá að verða fertug. Í tengslum við þá áverka fékk Lovísa brjósklos í háls og mjóbak sem hefur líklega verið sambland af því að hafa þjösnast á líkamanum öll þessi ár, hækkandi aldur og ekki passað sig nógu vel. Hún segir að líklega hafi líkaminn verið að segja henni að hægja á. ,,Þá var mér kippt út og ég þurfti að hætta að dansa í langan tíma í fyrsta sinn á ævinni,“ segir Lovísa. ,,Ég hef alltaf notað dansinn til að vinna úr öllu í lífi mínu, bæði andlegu og líkamlegu. Það var þess vegna  algert sjokk fyrir kerfið að þurfa að hætta að dansa og andlegri og líkamlegri heilsu hrakaði hratt í kjölfarið. Ég þurfti svo að byggja mig hægt og rólega upp. Til að byrja með mátti ég bara fara út að ganga. Svo var það einn daginn að ég kom heim úr einum göngutúrnum og var hrikalega pirruð og leið yfir ástandinu. Ég hafði þessa sterku þörf fyrir að dansa, dró fyrir gluggana og dansaði í stofunni, eins og geta mín þá leyfði og mér leið strax aðeins betur. Ég fór því að stunda það að dansa mjúklega heima í stofu eftir göngutúrana þar til að þetta varð að daglegri rútínu hjá mér. Ég fann að það hjálpaði mér gífurlega.“

Náði að tengja við líkamann aftur

Lovísa þurfti að hætta í Íslenska dansflokknum. Mynd: Owen Fiene.

Lovísa segir að með því að byrja að dansa aftur hafi hún getað tengt við líkama sinn í breyttu formi og hafið úrvinnslu á meiðslunum og breyttum aðstæðum. 

,,Þegar ég var komin vel á veg inn í bataferlið fóru einnig gamlir stílar og spor frá dansferlinum að birtast á gólfinu í stofunni heima,“ segir hún og brosir. ,,Þegar þarna var komið varð ég forvitin að skoða hvernig maður getur tengst betur reynslu, þekkingu og sögu líkamans. Á svipuðum tíma fór ég að upplifa fyrstu einkenni perimenopause eða breytingaskeiðsins og fékk gífurlegan áhuga á því tímabili í lífi kvenna.“ 

Réttlætiskennd Lovísu var misboðið

Á meðan stærsti hluti kvenna lætur breytingaskeiðið yfir sig ganga og þegir um það kallar Lovísa hátt og snjallt og vill athygli. ,,Þarna var ég að verða fertug og hafði einhvern veginn aldrei hugsað út í breytingaskeiðið. ,,Ég hafði verið á fullu að dansa með Íslenska dansflokknum og leið ekki deginum eldri en þrítug. Allt í einu rann upp fyrir mér að það væri kannski komið að þessum tíma í lífinu. Mér fannst ég ekki vita nægilega mikið um breytingaskeiðið þannig að ég fór á netið til að leita að upplýsingum. Mér leið eiginlega hálfhræðilega eftir þann lestur og upplifði mig allt í einu eins og útrunna vöru, eins og minn tími væri liðinn og tími til kominn að pakka í vörn. Ég fór að upplifa skömm sem er auðvitað alveg galið,“ segir Lovísa og ber saman önnur menningarsamfélög þar sem breytingaskeiðinu er fagnað. ,,Í þeim samfélögum öðlast konur virðingu og frelsi þegar þær hafa náð vissum aldri á meðan við sussum á einkennin og látum eins og þetta sé ekki að gerast. Réttlætiskennd minni var misboðið og ég reis upp á afturfæturna,“ segir Lovísa og hlær en í þeim hlátri er alvarlegur undirtónn. 

Hætti í Dansflokknum og fór í meistaranám

Mynd: Owen Fiene.

Lovísa hætti í dansflokknum og ákvað að fara í meistaranám í sviðslistum í LHÍ. ,,Þar nefndist rannsóknarverkefni mitt ,,Preparing For Menopause – a Self Help Dance,“ eða ,,undirbúningur fyrir tíðahvörf  sjálfshjálpardans“ og þar byrjaði þetta allt saman,“ segir Lovísa kankvís. Hluti af rannsóknarvinnunni var að bjóða nokkrum konum á miðjum aldri að prófa daglegu rútínuna hennar,  ganga og dansa svo heima í stofu, taka sig upp á myndband og senda henni. ,,Ég setti opið boð inn á FB hóp sem kallast Breytingaskeiðið og mér fóru að berast stórkostleg myndbönd af konum að dansa heima í stofu. Sagan mín, rannsóknin og dansmyndbönd og reynslusögur þessara kvenna, urðu hornsteinninn að „When the Bleeding Stops sem var upphaflega bara útskriftarverkefnið mitt úr LHÍ. 

Með henni á sviðinu eru þrjár íslenskar sviðslistakonur en í hverju landi sem þær sýna, tengjast þær þarlendum konum, bjóða þeim að senda inn myndband og bjóða þeim einnig á sviðið með sér. Þannig hefur hægt og rólega verið að byggjast upp hópur kvenna á breytingaskeiðinu í kringum verkið sem fer sífellt stækkandi. 

Dansmyndböndin frá konunum sem tekið hafa þátt erusvo stórkostleg og áhrifamikil,“ segir Lovísa.

Verkið flytur okkur inn í friðhelgi heimila þátttakendanna, kafar djúpt inn í marglaga upplifun ólíkra kvenna tengda breytingaskeiðinu og býður okkur að hlæja, gráta og fagna með þessum konum.

Verkið var frumsýnt á Reykjavík Dance Festival árið 2020 og hefur síðan þá ferðast víða. Óhætt er að segja að það hafi verið sigurför því framundan eru sýningar í yfir 20 borgum. 

Allar konur kannast við þetta

Kraftur kvennanna á sviðinu er magnaður. Mynd: Tale Hendnes.

,,Við erum sem sagt að fara að túra allt árið“ segir Lovísa og brosir, hæstánægð yfir viðtökunum sem sýning hennar hefur fengið. Hún tekur alltaf með sér þær Kristjönu Stefánsdóttur, Ólöfu Ingólfsdóttur  og Sveinbjörgu Þórhallsdóttur og svo vinna þær alltaf með um 10 konum á hverjum stað fyrir sig. ,,Þessar þrjár eru búnar að vera með mér frá upphafi. Ég leitaði til þeirra á meðan verkefnið var enn bara á rannsóknarstigi í náminu mínu en nú eru þær órjúfanlegur hluti verkefnisins. Það er mjög dýrmætt að hafa þær alltaf með og ég gæti þetta ekki án þeirra. Fyrir utan að vera stórkostlegar á sviðinu þá hjálpa þær mér að taka vel utan um þátttakendur á hverjum stað fyrir sig og leiða þá áfram á sviðinu,“ segir Lovísa. ,,Ég átti svo sem von á því að sýningin fengi athygli en viðbrögðin hafa farið fram úr mínum villtustu draumum,“ bætir hún við. Skýringuna segir Lovísa eflaust vera þá að flestar konur, sem komnar séu á miðjan aldur, kannist við það sem hún er að segja og allir þekkja einhvern sem þetta á við. Þá sé sýningin nokkurs konar óður til lífsins og gefi áhorfendum tækifæri til að fagna því að eldast og fagna konum á breytingaskeiðinu. 

Breytingaskeiðið sjúkdómur sem þurfi að lækna

,,Breytingaskeiðið er ekki sjúkdómur,“ segir Lovísa. Mynd: Tale Hendnes.

Lovísa fagnar aukinni umræðu um breytingaskeiðið almennt en finnst skorta samtal um samfélagsleg áhrif á upplifun kvenna á breytingaskeiðinu. ,,Auðvitað er mikilvægt að ræða um líkamleg og andleg einkenni tengd hormónasveiflunum sem margar konur finna fyrir en það er einnig mikilvægt að við ræðum um skömmina, sýn samfélgasins og ranghugmyndin um að breytingaskeiðið sé sjúkdómur sem þurfi að lækna. Það eru allir meðvitaðir um að unglingarnir okkar ganga í gegnum hormónasveiflur og að við þurfum að halda utan um þau á meðan það gengur yfir. Það gengur mikið á í líkamanum á meðan við erum að þroskast og ganga inn í nýtt æviskeið sem við tökum fagnandi. Það sama ætti auðvitað að eiga við um breytingaskeiðið þegar hormónasveiflurnar eru enn brattari, en í gegnum tíðina hafa konur í okkar samfélagi tekist á við þetta í einrúmi og jafnvel fundið sig knúnar til að fela þetta og ekki fengið þann stuðning sem þær ættu að fá.  

Það sama á auðvitað við um karla því þeir ganga í gegnum sitt tímabil en hér erum við að ræða um konur. Það er þessi ömurlega þögn sem umvefur umræðuefnið sem við verðum að brjóta“ segir Lovísa og heldur áfram að kalla hástöfum og nú ekki fyrir daufum eyrum lengur.

,,Ég vil opna umræðuna og leggja mitt á vogarskálarnar í að breyta viðhorfi almennings til þessa lífsskeiðs,“ segir Lovísa. Hér á Íslandi erum við meira að segja oft að rugla með þýðingar á hugtökum í tengslum við þetta. Þegar ég var fertug vissi ég til dæmis ekki hvað perimenopause væri, þekkti bara enska orðið menopause og hélt að það væri breytingaskeiðið, en nú veit ég að perimenopause er í raun breytingaskeiðið og getur varað í upp undir tíu ár og ekkert óeðlilegt að það hefjist í kringum fertugt. Menopause er hins vegar hægt að þýða sem tíðahvörf, það á við þegar blæðingar hafa ekki átt sér stað í heilt ár. Breytingaskeiðinu geta fylgt erfið einkenni og mikilvægt að allir séu upplýstir um þessi einkenni og þær leiðir sem hægt er að fara til að lina vanlíðan þannig að konur geti haldið áfram að njóta lífsins.Mér brá hins vegar í brún þegar ég las grein um daginn þar sem sagt var frá því að verið væri að rannsaka hvort hægt væri að gefa konum lyf/hormón (væntanlega út ævina) sem gerðu það að verkum að konur myndu aldrei fara á breytingaskeiðið. Það var sem sagt verið að verja fjármunum í að skoða hvernig hægt væri að breyta eðlilegri starfsemikvenlíkamans. Þessi nálgun hræðir mig. Mér finnst eðlilegra að við nýtum frekar fjármunina í að öðlast meiri vitneskju um þetta náttúrulega ferli og hvernig við getum betur stutt við þær konur sem fara illa út úr því.“

Fengu grátandi fólk í fangið

Lovísu er mikið niðri fyrir. Mynd: Tale Hendnes.

When the bleeding stops komst inn á stóra danshátíð í apríl í fyrra sem heitir Aerowaves og var haldin í Dublin. Þar sýndi Lovísa og hópurinn hennar sýninguna fyrir framan mjög marga og þar í hópi voru leikhússtjórar og fólk frá margskonar hátíðum. ,,Þar áttu sér stað einhverjir töfrar og eftir sýninguna fengum við grátandi fólk í fangið og síðan byrjaði síminn að hringja. Engin okkar sá fyrir að við ættum eftir að verða svona ,,miðaldra touring company“ en það segir allt um það hvað það er mikil þörf fyrir að þessi rödd heyrist. Það er búið að vera stórkostlegt að hitta og vinna með öllum þessum mögnuðu konum víðs vegar að. Ég hef orðið að kyngja eigin ómeðvituðu fordómum ítrekað og það er einmitt sú tilfinning sem ég vil breiða út. Það er sannarlega ekkert úrelt eða skammarlegt við þessar reynslumiklu og stórkostlegu konur“ segir Lovísa ákveðin.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar 

 

Ritstjórn janúar 12, 2024 07:00