Sinnepssósan sem slær í gegn

Þessi ljúffenga sósa fer vel með mörgu, sérlega grænmetisréttum. Nú er hægt að fá hnetusteik tilbúna frosna í stórmörkuðum, t.d. frá Himneskri hollustu, og þá er sérlega handhægt að bjóða þessa heimagerðu sósu með. Hún fer einstaklega vel með slíkri steik en hún fer líka vel með nautasteik fyrir þá sem kjósa frekar kjöt. Meðlætið er brokkolí sem steikt hefur verið á pönnu þannig að það brúnast aðeins og þurrsteiktar pecanhetur með. Sætar kartöflur, sem skornar hafa verið í teninga og steiktar í ofni, fara mjög vel með þessum rétti. Stílhreinn og bragðgóður réttur í matarboðið og er á allra færi að gera.

Sinnepssósan úr Skjólunum:

4 skalotlaukar, saxaðir smátt

1 tsk. ferskt rósmarín, smátt saxað

nýmalaður pipar

1 grænmetisteningur

1 – 2 msk. Dijon sinnep

matreiðslurjómi, u.þ.b. 1/2 lítri

olía til steikingar

Hitið olíu í potti og setjið lauk, rósmarín og pipar saman við. Látið mýkjast við vægan hita í um 5 mínútur eða þar til laukurinn verður glær. Bætið grænmetisteningi og sinnepi út í og hrærið saman. Hellið að lokum matreiðslurjómanum saman við og látið suðuna koma upp  og sósan er tilbúin.

Ritstjórn júní 11, 2021 10:12