Grillaður lax með sítrusávöxtum

Lax er dásamlegur matur hollur og góður. Það er því ekki úr vegi að grilla lax um helgina. Þessa uppskrift rákumst við á vefnum Krydd og krásir og hlökkum svo sannarlega til að prófa hana.

  • 1 laxaflak
  • 1 sítróna – ríflega helmingur skorin í þunnar sneiðar
  • 1 appelsína – ríflega helmingur skorin í þunnar sneiðar
  • 3-4 msk. gróft skornar ferskar kryddjurtir t.d. flatblaðasteinselja, timían, oreganó
  • sjávarsalt
  • nýmalaður svartur pipar
  • olífuolía

Blandið saman olífuolíu, safa úr tæplega hálfri sítrónu og tæplega hálfri appelsínu og penslið laxaflakið. Kryddið með gróft skornum kryddjurtum, salti og pipar og látið standa í 15 – 30 mín. Raðið sítrónu og appelsínusneiðum á flakið. Setjið laxinn á vel heitt grill, snúið roðinu niður.  Laxinn er grillaður allan tímann á roðhliðinni, honum er ekki snúið. Hafið grillið lokað og grillið í 15 – 20 mínútur.  Berið fram með  grilluðum aspas og eða góðu grænu salati og kartöflum.

Ritstjórn júní 28, 2019 08:54