Tengdar greinar

Sirkús í Árbæjarsafni á sunnudag

Hægt er að bregða sér með barnabörnin í sirkús í Árbæjarsafni á sunnudaginn kl. 13 – 16.

Þorpsbúar á Árbæjarsafni bíða í eftirvæntingu eftir sirkús sem á leið um bæinn og með honum fylgja kyndugir kvistir með magnaða hæfileika. Hægt verður að berja augum loftfimleikafólk, lygilega góðan galdramann, skeggjuðu konuna, ósýnilega manninn í Suðurgötu og fleiri skrautlegar persónur. Hjá sterkasta manni heims má spreyta sig á kraftlyftingum.

Á þorpstorginu verður í boði að fara í lestaferð í nýrri krakkalest safnsins, kaupa sælgæti af sirkúsdömu og grilla sykurpúða yfir glóðum. Einnig verða skemmtileg útileikföng og leikir fyrir krakka.

Við minnum á hina sívinsælu leikfangasýningu í Landakoti þar sem má snerta og leika með leikföngin sem þar eru til sýnis. Kindur eru í haga og landnámshænurnar vappa frjálsar um safnið. Heitt á könnunni í Dillonshúsi og heimilislegar veitingar.

Aðgangur á safnið kostar 1740 kr. en ókeypis er fyrir börn, öryrkja og menningarkortshafa.

Árbæjarsafn er hluti af Borgarsögusafni, eitt safn á fimm frábærum stöðum.

Dagskrá

13-13.40         Akróbatískt dúo á ferli um safnið

13.40               Loftfimleikaatriði sirkús tvíeykisins Tom & Bryndís

14-14.40          Akróbatískt dúo á ferli um safnið

14.40               Loftfimleikatriði sirkús tvíeykisins Tom & Bryndís

14-16              Einar Aron töframaður á vappi um safnið sýnir lygilega góð trikk og spjallar við fólk

13-15               Sterkasti maður í heimi og aflraunir fyrir krakka

13-16              Ratleikur – súkkulaðiverðlaun frá Nóa Síríus í verðlaun!

13-15               Krakkalestin

13-16               Útileikföng

Ósýnilegi maðurinn í Suðurgötu, tattoo konan, skeggjaða konan og fleira undarlegt sirkúsfólk á ferli um safnið. Grillaðir sykurpúðar, útileikir, sælgæti til sölu, handverkfólk í húsunum og lummur í Árbænum.

Ritstjórn júlí 3, 2020 14:47