Tengdar greinar

Sítrónumelissa/hjartafró – bragðbætir eða lækningajurt

Sítrónumelissa eða hjartafró.

Þessi fallega kryddjurt er oft notuð til skreytinga og í salöt en hana má gjarnan nota sem bragðgjafa í ýmsa rétti. Hún kemur til dæmis í staðinn fyrir sítrónubörk. Hún gefur frá sér sér nokkuð sterkan sítrónuilm og lokkar til sín býflugur þar sem hún vex í görðum. Býflugnaræktendur eru mjög hrifnir af henni því hún eykur hunangsframleiðslu. Sítrónumelissa þykir sérlega róandi og styrkjandi og þar kemur hjartafróarnafnið til sögunnar.

Jurtin róar huga og hjarta og bætir svefn. Hún er vírusdrepandi og er því tekin við flensu, kvefi, hita og jafnvel frunsum. Sítrónumelissa hefur reynst hjálpleg við síþreytu.

Hjartafró er að öllum líkindum upprunnin í Austurlöndum nær. Þaðan barst hún til Suður-Evrópu og hefur verið ræktuð þar frá því fyrir Krist. Rómverjar notuð jurtina til lækninga og það voru þeir sem dreifðu henni um Evrópu eins og fleiri krydd- og lækningajurtum. Karl 5. konungur Frakka drakk sítrónumellissute daglega sér til styrkingar. Af blöðunum má gera milt og gott jurtate og þau má líka nota í ýmsa aðra drykki, súpur og sósur.

Bragðið er tiltölulega dauft og fínlegt og því þarf að nota töluvert af blöðum til að gott bragð finnist.

SÍTRÓNUMELISSUTE

Sítrónumelissute.

1 knippi sítrónumelissublöð

1 l sjóðandi vatn

hunang eftir smekk

Skolið blöðin og látið renna vel af þeim. Setjið þau í könnu og látið sjóðandi vatn yfir og látið standa í a.m.k. 10 mín. Síið teið en látið nokkur fersk blöð út í til skrauts. Bragðbætið með hunangi og berið fram heitt eða látið það kólna alveg og berið fram sem svaladrykk.

Síðan má líka búa til milt te og setja sítrónumelissublöð út í til bragðbætis.

SÍTRÓNUMELISSUÁVAXTASALAT

2 appelsínur

1/2 dl söxuð blöð af sítrónumelissu og nokkur heil blöð til skreytinga

1/4 tsk. rifinn engifer

ferskir ávextir eftir smekk, t.d. jarðarber, vínber, kíví og melónur

Kreistið safann úr appelsínunum í skál og bætið saxaðri sítrónumelissunni saman við ásamt nýrifnu engifer. Skerið ávextina í litla bita. Setjið út í appelsínusafann og látið standa í kæli í 30 mín. Skreytið salatið með sítrónumelissublöðum og berið fram ískalt.

Ritstjórn ágúst 14, 2020 13:15