Sjálfstætt starfandi á eftirlaunaaldrinum

Sýningin Tvær sterkar var opnuð á Kjarvalsstöðum á 19.júní í tilefni þess að 100 ár eru liðin síðan íslenskar konur og færeyskar fengu kosningarétt. Á sýningunni eru verk tveggja brautryðjenda kvenna í málaralist, Íslendingsins Júlíönu Sveinsdóttur og Færeyingsins Ruth Smith. Báðar bjuggu þær á afskekktum eyjum, og báðar gengu á Listaakademíuna í Kaupmannahöfn á tímum, þegar ekki þótti sjálfsagt að konur legðu fyrir sig myndlist. Þær voru fyrstu konurnar hvor í sínu landi, sem fengu formlega myndlistarmenntun og gerðu málaralist að ævistarfi. Á sýningunni má sjá, kyrralífsmyndir, sjávarbyggðir, kletta og fjöll og vænt sauðfé.

Konur og málaralist á Íslandi og í Færeyjum

Það eru þær Hrafnhildur Schram listfræðingur og Helga Hjörvar menningarforstjóri sem eiga heiðurinn af uppsetningu þessarar sýningar. Helga segir að þegar hún var forstjóri Norðurbryggju í Kaupmannahöfn hafi henni ekki tekist að koma á samstarfi þeirra tveggja, en hún segist gamall aðdáandi Hrafnhildar sem sýningarstjóra. En svo hittust þær og fóru að ræða um Ísland, Færeyjar, konur og málaralist. Helga var forstjóri Norðurlandahússins í Þórshöfn á árunum 1999 til 2005, en Hrafnhildur var nýkomin frá Færeyjum þar sem hún hafði í fyrsta sinn séð verk Ruthar á sýningu.

Tókust á við erfiðleika

Þær hófu að vinna að sýningu á verkum þessara tveggja norrænu kvenna og þau áform komu heim og saman við áætlanir um hátíðarhöld vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Júlíana Sveinsdóttir kom ekki aftur heim til Íslands til að búa þar, eftir að hún lauk námi í Danmörku þar sem hún bjó öll sín fulllorðinsár, en Ruth flutti heim til Suðureyjar í Færeyjum eftir stríð, ásamt manni sínum. Þær segja að aðstæður kvenna hafi verið mjög frábrugnar því sem þær eru nú, þegar þær stöllur brutust til mennta á Listaakademíunni. „Þær þurftu að takast á við mikla erfiðleika til að hljóta virðingu og stuðning samfélagsins“, segir Hrafnhildur.

Sjálfstætt starfandi á eftirlaunaaldrinum

Þær Hrafnhildur og Helga eru báðar komnar á eftirlaun, en eru sjálfstætt starfandi. Helga segir að það sé bæði gefandi og frjálst. „Þetta kemur svo eðlilega á þessum aldri. Það kemur svo margt til manns og maður á orðið kontaktmenn alls staðar“, segir Helga. Það kom sér ekki síst vel í Færeyjum segja þær og bæta við. „Það er alveg sjálfsagt að nýta reynslu sína og þekkingu á meðan fólk er við góða heilsu“. Hrafnhildur segir mikilvægt að skapa sér eigin verkefni. Þær segjast hafa fengið mjög góðar viðtökur alls staðar. Sýningin Tvær sterkar er farandsýning og verður sýnd líka í Kaupmannahöfn og Færeyjum. Þá styrkti Norræni menningarsjóðurinn sýninguna og hún fékk einnig styrk úr sjóðum 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna.

 

Ritstjórn júní 29, 2015 12:46